Íbúaráð Árbæjar og Norðlingaholts
Ár 2020, þriðjudaginn 8. desember, var haldinn 11. fundur íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 16.30. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitastjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Þorkell Heiðarsson, Ásta Katrín Hannesdóttir, Björn Gíslason, Elvar Örn Þórisson, Hrönn Vilhjálmsdóttir og Eve Lucienne Leplat. Fundinn sátu með fjarfundarbúnaði þau Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir sem ritaði fundargerð og Sólveig Ingibjörg Reynisdóttir.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á tilraunaverkefni um sérsöfnun glers og málma í Árbæ og Norðlingaholti.
Íbúaráð Árbæjar og Norðlingaholts leggur fram svohljóðandi bókun:
Við þökkum Friðriki og Guðmundi frá Umhverfis og skipulagssviði fyrir kynningu þeirra á tilraunaverkefninu sérsöfnun glers og málma sem hafið er í Árbænum. Íbúaráð fagnar þessum áfanga og sérstaklega að hann skuli eiga sér stað í hverfinu okkar. Það er ljóst að fleiri og stærri skref þarf að stíga í flokkunarmálum enda stöndum við sem þjóð ekki framarlega í þessum efnum. Verkefnið er því mikilvægt skref í rétta átt.
Friðrik Gunnarsson og Guðmundur Friðriksson taka sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 15. október 2020 – drög að tillögum að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030, Endurskoðun á stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggð og framlenging skipulagstímabils til ársins 2040.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í aðalskipulaginu 2010-2030 var boðuð róttæk stefnubreyting í skipulagsmálum. Gert var ráð fyrir að nær öll uppbygging færi fram á dýrum þéttingarreitum miðsvæðis í borginni og ekki gert ráð fyrir nýjum úthverfum sem reyndar voru kölluð meinsemd í skipulaginu. Þéttingarstefnan hefur snúist upp í andhverfu sína, hún hefur leitt til dreifingar byggðar á suðvesturhornið þar sem húsnæði er ódýrara. Íbúðir á þéttingarreitum eru ekki fyrir fyrstu kaupendur því þeir reitir eru seldir á hæsta markaðsverði sem skilar sér í hærra kaup- og leiguverði. Haldið verður áfram á sömu braut, mest öll uppbygging á að fara fram áfram á dýrum þéttingarreitum vestan Elliðaáa, í stað þess að bjóða upp á hagkvæmar lóðir í nýjum hverfum. Samgöngustefna aðalskipulagsins 2010-2030 gengur út á að þrengja að umferð og lengja ferðatíma í stað þess að fara í nauðsynlegar samgöngubætur, greiða fyrir umferð, stytta ferðatíma og draga úr slysum. Engin afsláttur er gefinn í breytingum á aðalskipulagi, nú á að herða á stefnunni með fækkun akreina til að koma fyrir borgarlínu sem þrengir meira að bílaumferð. Grænu svæðin fara ekki varhluta af ofþéttingarstefnunni s.s. landfylling í Skerjafirði, þrengja á að Elliðaárdal útivistarparadís borgarinnar og fleiri útivistarsvæðum. Gerðar eru athugasemdir við þessa þéttingar- og samgöngustefnu.
Fylgigögn
-
Lögð fram drög að umsögn íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts vegna draga að tillögum að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030, Endurskoðun á stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggð og framlenging skipulagstímabils til ársins 2040.
Samþykkt.Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 12. nóvember 2020 vegna samþykktar tillögu um framlengingu tilraunaverkefnis um ný íbúaráð.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um málefni hverfisins.
-
Lagðar fram greinargerðir vegna Sumarborgar 2020 – hverfin. Þessi liður fundarins er lokaður.
a) Ársel – Bátafjör á Rauðavatni.
b) Skátasamband Reykjavíkur – PopUp leikvellir í Árbæ. -
Lagðar fram til afgreiðslu umsóknir í hverfissjóð. Þessi liður fundarins er lokaður.
Samþykkt að veita Fylki styrk að upphæð kr. 510.000-, vegna Lýðheilsuverkefnisins, Íþróttastarfs aldraðra í Árbæ.
Samþykkt að veita Fylki styrk að upphæð kr. 200.000,- vegna verkefnisins Flugeldasýning við Rauðavatn á gamlárskvöld.
Samþykkt að veita Arngrími Fannari Haraldssyni styrk að upphæð kr. 100.000,- vegna verkefnisins Hjóladagur fjölskyldunnar í Norðlingaholti.
Samþykkt að veita Íbúasamtökum Árbæjar, Ártúnsholts og Seláss rekstrarstyrk að upphæð kr. 100.000.- Kl: 18.24 víkur Björn Gíslason af fundi.
Fylgigögn
Fundi slitið klukkan 18:57
PDF útgáfa fundargerðar
ibuarad_arbaejar_og_nordlingaholts_0812.pdf