Hverfisráð Vesturbæjar
Ár 2009, fimmtudaginn 10. desember, var haldinn 79. fundur hverfisráðs Vesturbæjar. Fundurinn var haldinn í Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, félagsmiðstöðinni að Aflagranda 40 og hófst kl. 12:00. Viðstaddir voru Vala Ingimarsdóttir, formaður, Agnar Bragi Bragason, Ólafur R. Jónsson, Ása Björk Ólafsdóttir, Heiða Björg Pálmadóttir og Guðsteinn Haukur Barkarson, áheyrnarfulltrúi F lista. Auk þeirra sat fundinn Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar. Fundarritari var Trausti Jónsson.
Þetta gerðist:
1. Styrkbeiðni frá Þrettándanefnd Vesturbæjar.
Bókun hverfisráðs:
Hverfisráð harmar að geta ekki orðið við beiðni þrettándanefndar Vesturbæjar um styrk. Hverfisráð beinir þeim tilmælum til frístundaráðgjafa þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar að vera Þrettándanefndinni innan handar með ljósritun og annað sem nefndin þarf. Jafnframt hvetur hverfisráð Vesturbæjar umhverfissvið til að fella niður gjöld sem skapast af þrettándahátíðinni.
2. Umhverfisviðurkenning hverfisráðs Vesturbæjar.
Bókun hverfisráðs:
Hverfisráð Vesturbæjar samþykkti að veita Elliheimilinu Grund umhverfisviðurkenningu fyrir fagurt og snyrtilegt umhverfi.
3. Önnur mál.
a. Lýsing á listaverk í Vesturbæ.
Bókun hverfisráðs:
Hverfisráð Vesturbæjar þakkar Framkvæmdasviði fyrir skjót og góð viðbrögð vegna uppsetningar lýsingar á listaverkum við Hagatorg.
b. Erindi frá foreldrafélagi Melaskóla vegna Neshaga. Afgreitt
c. Lýsing í Vesturbæ.
Bókun hverfisráðs:
Hverfisráð Vesturbæjar fer þess á leit við Framkvæmdasvið að ljóskastara verið komið fyrir á eftirtöldum stöðum:
1. Ljóskastara á ljósastaur á Lynghagaleikvellinum, þar sem afar skuggsælt er yfir vetrarmánuðina. Slíkur ljóskastari myndi auka öryggi barna sem þar eru að leik og gangandi vegfarenda sem stytta sér gjarnan leið í gegnum völlinn.
2. ljóskastara verði komið fyrir á ljósastaur við Melaskóla þar sem hægt væri að varpa ljósinu af kastaranum inn á þann hluta lóðarinnar þar sem dimmast er og gera börnin og aðra vegfarendur öruggari í myrkrinu. Ljósastaurinn er á gangstéttinni við endann á lóðinni, ská á móti merki Melaskólans. Þarna eru falleg grenitré sem fallegt yrði að lýsa upp og og gera umhverfið hlýlegra.
3. Lýsing við Hagaborg verði leyst. Hægt væri að leysa lýsingarvandamál Hagaborgar með því að setja tvo ljóskastara á sitt hvorn ljósastaurinn sem myndu varpa birtu inn á leikskólalóðina. Það myndi að sjálfsögðu auka öryggi barnanna þegar dimmt er á veturna og þegar leikskólakennararnir eru úti með börnin.
Íbúum þykir óþægilegt að þarna sé stórt dimmt svæði þegar þeir fara um þennan göngustíg á kvöldin. Íbúar óttast svona dimm svæði vegna hættu á líkamsárásum og hvers kyns afbrotum. Þetta myndi til dæmis skapa meiri ró foreldra þegar börn og unglingar fara heim úr Hagaskóla og Melaskóla þegar skyggja tekur og á kvöldin.
4. Ljóstkastari verði settur á ljósastaur sem varpi upp lýsingu á leiksvæðinu á milli Tómasarhaga, Ægisíðu og Fornhaga. Þar er göngustígur sem tengir Fornhaga, Ægisíðu og Tómasarhaga.Þarna stytta börn sér oft leið til félaganna. Svona lýsing myndi bæta öryggigangandi vegfarenda í myrkrinu og jafnvel útrýma óæskilegum uppákomum ásvona svæðum. Þetta er samskonar hugmynd og gert er með styttuna #GLÚtlaginn#GL við Hólavallakirkjugarð, en það er dæmi um hagkvæma og vel heppnaða lausn sem ekki felur í sér mikinn kostnað. Þessir ljósastaurar væru betur nýttir því aðeins þarf að festa á þá kastara.
d. Samstarf KR og frístundaheimilanna í Vesturbæ.
Fyrirspurn hverfisráðs:
Nýverið hófst samstarf milli frístundaheimilanna í Vesturbænum og KR sem felst í því að rúta frá KR kemur þrisvar sinnum í viku á frístundaheimilin og sækir þau börn sem eiga að fara á æfingu þann daginn. Ef 12 börn fara frá frístundaheimili á æfingu mun starfsmaður þaðan fylgja þeim og halda uppi félagsstarfi fyrir börn í KR þar til æfing hefst og þar til börnin eru sótt eftir æfingu. Í ljósi þess að þau börn sem fara á sama tíma úr frístundaheimilum í tónlistartíma hjá DoReMi í Frostaskjóli stendur þessi þjónusta ekki til boða óskar hverfisráð eftir upplýsingum um eftirfarandi:
1. Kostnaður fyrir umrædda þjónustu og hvernig hún skiptist milli KR, ÍTR og foreldra þeirra barna sem nýta þjónustuna. Þar á meal er óskað eftir upplýsingum um kostnað fyrir frístundaheimilin að senda starfsmann með börnunum ef þau ná tilteknum fjölda.
2. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvort KR fái styrk frá Reykjavíkurborg til þess að standa straum af þessari þjónustu.
3. Hvort sú staða hafi komið upp að nemandi frá DoReMi óski eftir fari með rútunni og þá hvernig hafi verið brugðist við því eða,
4. Hvernig brugðist skuli við slíkri beiðni þegar hún kemur upp.
e. Hreinsunardagur hverfisráðs Vesturbæjar. Ákveðinn 17. janúar 2010.
Fundi slitið kl. 13.17
Vala Ingimarsdóttir
Ólafur R. Jónsson Ása Björk Ólafsdóttir
Agnar Bragi Bragason Heiða Björg Pálmadóttir