Hverfisráð Breiðholts - Fundur nr. 35

Hverfisráð Breiðholts

Árið 2008, miðvikudaginn 7. maí var haldinn 35. fundur Hverfisráðs Breiðholts í Þjónustumiðstöð Breiðholts, sem hófst 12:00. Mætt voru: Egill Örn Jóhannesson formaður, Ragnhildur Guðjónsdóttir, Hafsteinn Valsson, Þorkell Ragnarsson, Guðlaugur Sverrisson, Falasteen Abu Libdeh í forföllum Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Varamenn: Edda Borg Ólafsdóttir og Albert Guðbrandsson. Gestir: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður borgarráðs, Hanna Birna Kristjánsdóttir formaður skipulagsráðs, Ragnheiður Sigurðardóttir framkvæmdastjóri. Verslunarmiðstöðinni Mjódd, Þórður Kjartansson stjórn Svæðisfélags Mjóddar, Guðmundur Tryggvi Sigurðsson Landic Property, Helgi Kristófersson íbúasamtökunum Betra Breiðholt, Magnús I. Erlingsson Verslunarmiðstöðinni Mjódd, Þorsteinn Hjartarson framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og Ágústa H. Gísladóttir frístundaráðgjafi sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:


1. Formaðurinn Egill Örn Jóhannesson setti fund og bauð gesti fundarins velkomna. Þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir var ekki mætt en von var á henni var ákveðið að byrja á lið 2 í dagskránni.

2. 1, 2 og Breiðholt (ábendingar úr hverfinu). Forgangsröðun ábendinga sem senda á til borgarstjóra. Atriðalisti stýrihópsins lagður fram en hann sýnir forgangsröðunina frá 1, 2 og Breiðholt til borgarstjóra. Fundurinn beðinn um athugasemdir vegna listans. Talið var að misskilnings gætti í næst síðasta lið listans, talað var um miðsvæðið en átt væri við göngustíga og annað í kringum miðsvæðið væri til vansa. Kom fram að svæðið í heild yrði tekið í gegn. Rætt almennt um eignarhald viðhalds göngustíga sem tilheyra vissum húsum en eru meira notaðir af öðrum íbúum hverfisins. Svæði Fálkaborgar var rætt og bent á að það félli inn í 2. lið listans. Talsverð umræða varð um það rusl annað en garðagróður sem hefur safnast við götur vegna hreinsunarátaks Reykjavíkurborgar, kom fram að það rusl yrði fjarlægt.

- 12:30 Hanna Birna mætir á fundinn en hún hafði tafist vegna fundar í skipulagsráði.

Ragnhildur Guðjónsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu um Félagsstarfið Gerðubergi sem var samþykkt samhljóða eftir smávægilegar breytingar á orðalagi í kjölfar ábendingar frá Vilhjálmi Þ. Vilhjámssyni:

Hverfisráð Breiðholts leggur til að félagsstarf eldri borgara verði flutt undir Velferðarsvið. Félagsstarf eldri borgara verði þó áfram starfandi í Gerðubergi þrátt fyrir að starfsemin verði flutt undir stjórn Velferðarsviðs. Þá verði jafnframt kannað hvort félagsstarf eldri borgara í Gerðubergi gæti að hluta til tengst ÍTR að undangenginni skoðun Velferðarsviðs. Samstarf af þessu tagi gæti verið tilraunaverkefni í Breiðholti.

Tillögunni verði vísað til umsagnar borgarráðs.
Greinargerð:
Mikilvægt er að starfsemin verði áfram staðsett í Gerðubergi m.t.t. nálægðar við fyrirhugaðar þjónustuíbúðir fyrir aldraða í Gerðubergi. Auk þess er önnur aðstaða sem hentar vel starfseminni svo sem sundlaug, púttvöllur og göngustígar hverfisins. Samstarf Velferðarsviðs og ÍTR um félagsstarf aldraðra gæti verið skemmtileg tilraun sem þróa mætti í fleiri hverfum, ef vel tekst til. Hlutverk ÍTR er ekki eingöngu að sjá um frístundir fyrir börn og unglinga heldur alla aldurshópa. Með verkefni af þessu tagi mætti leggja áherslu á samstarf æskunnar og ellinnar sem yrði báðum aldurshópum til gagns og ánægju. Þá má gera ráð fyrir að starfið gæti orðið fjölbreyttara með þessu samstarfi.

Rætt var um nauðsyn þess að undirgöngin við IR svæðið kæmust í notkun áður en framkvæmdir hefjast við svæðið með allri þeirri umferð sem það mun hafa í för með sér. Vilhjálmur taldi að eitt af stóru baráttumálum Breiðhyltinga hefði verið ÍR svæðið og að nú væri búið að lenda því og hæfust framkvæmdir innan skamms tíma. Hann var sammála því að mikil umferð yrði þarna.

Hanna Birna þakkaði boð á fundinn og baðst afsökunar á að hafa komið of seint. Ræddi um stór verkefni sem eru í gangi. Samninginn milli Borgar og Mjóddar. Vill að það verði sett í fastan farveg.

Ákveðið var að fresta frekari umræðu um forgangslistann og fara í umræður um 1. lið dagskrárinnar:

3. Skipulagsmál í Breiðholti (Mjódd, Suðurmjódd og Stekkjabakki)- Gestir fundarins: Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður skipulagsnefndar og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, form. borgarráðs, Helgi Kristófersson frá Íbúasamtökunum Betra Breiðholt, Ragnheiður Sigurðardóttir og Magnús Erlingsson frá verslunarmiðstöðinni Mjódd. Þórður Kjartansson stjórn Svæðisfélags Mjóddar, Guðmundur Tryggvi Sigurðsson Landic Property.

Hanna Birna Kristjánsdóttir ræddi um mál Mjóddar og borgarinnar, samtalið milli þessara aðila kæmist lítið áfram. Vilhjálmur vísaði til að umfjöllun um málið hefði varað í 12 ár. Útfærsla, lóðin og hver væri lóðarhafi væru spurningar sem þyrfti að svara. Spurði hvort komnar væru skýrar línur eða einhverjar tillögur? Magnús Erlingsson sagðist hafa reynt að þoka þessu máli áfram og minnisblað væri til, málið væri flókið, allir voru sammála um að skipulagsþátturinn væri samtvinnaður öðru t.d. þyrfti að finna kostnaðartölur vegna núverandi samnings. Forræði borgarinnar eða eigenda verður að liggja ljóst fyrir svo hægt sé að fara í málið. Hanna Birna taldi að málið væri bæði gamalt og yfirfennt. Miklar umræður urðu í kjölfarið. Undir lok umræðunnar taldi Vilhjálmur að lista þyrfti málið upp - erfiðleikarnir liggi í því að forræðið liggur ekki ljóst fyrir og taldi Vilhjálmur að setja þyrfti sérstakan embættismann af framkvæmdasviði í málið. Hanna Birna tók undir þau orð og lagði til einstaklingur með ótvírætt forræði verði skipaður í málið og síðan kalli hún til fundar þar sem línurnar verði lagðar um framhaldið. Egill Örn lýsti yfir ánægju sinni með það að Vilhjálmur, Hanna Birna og stjórnendur í Mjóddinni taki höndum saman og fari að vinna markvisst í málinu.

- Mjóddarfólk fór af fundi kl.13:30

Stekkjarbakki; Hanna Birna segir frá áætluðu aðsetri slökkviliðsins, vill breyta aðeins staðsetningunni þannig að það sé á hentugra svæði og telur að nú sé svo komið að slökkviliðsmenn séu mjög sáttir með nýju staðsetninguna. Ragnhildur Guðjónsdóttir telur að ánægja ríki meðal íbúa. Þorkell telur að opinn fundur með íbúum verði til góðs og segir slökkviliðið eigi heiður skilið fyrir kynningu málsins. Telur þó að skýran vilja vanti um að önnur atvinnustarfsemi verði ekki sett á svæðið. Vilhjálmur sagði að ekki væru neinar tillögur um að setja aðra atvinnustarfsemi á svæðið en taldi að önnur sjónarmið ættu við um þessa tilteknu mikilvægu öryggisstarfsemi og staðsetningin talin sú langbesta. Hann lagði áherslu á að kynna málið þegar fyrir íbúum í næsta nágrenni.
Hafsteinn benti á að þörf sé á að taka heildarþáttinn og kynna heildarmálin fyrir fólki, svo það viti hvað fari og hvað komi í staðinn. Albert kallar á skipulag fyrir einhverskonar fjölskyldugarð á svæðinu tengt dalnum og útivist. Rætt var um gömlu Gasstöðina og að nú verði hægt að fara að vinna að niðurrifi hennar, fundarmenn lýstu ánægju sinni með það. Edda Borg Ólafsdóttir benti á meinta mengun og froðu sem væri oft að sjá á ánni og voru fundarmenn sammála um að skoða þurfi málið og einnig þurfi að fegra svæðið neðan Stekkjabakka.

- Vilhjálmur og Hanna Birna fara af fundi kl. 13:40.

4. Viðurkenningar frá hverfisráði til fyrirtækja og stofnana í Breiðholti vegna fegrunarstarfa.
Rætt var um að viðurkenningin væri hrós frá hverfisráðinu fyrir snyrtilegt umhverfi og þjónustu fyrir íbúa hverfisins og verði birt í Breiðholtsblaðinu. Rætt um hvernig staðið verði að afhendingu verðlaunanna. Samþykkt að framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og formaður hverfisráðsins gangi frá málinu. Samþykkt að OLIS í Mjódd fái viðurkenninguna að þessu sinni.

5. Fegrunardagur í Breiðholti.
Samþykkt var að hverfisráð og íbúasamtökin standi að gróðursetningu í hverfinu og að hvetja íbúa, stofnanir og fyrirtæki jafnt sem húseigendur, húsfélög, íþrótta- og æskulýðsfélög, verslunarkjarna ofl. til að leggja átakinu lið með snyrtingu og fegrun í næsta umhverfi sínu. Hverfisstöðin mun leggja til aðföng og verkfæri. Skoðað hvort hægt verði að fá einhvern frá skógræktinni til að gefa leiðbeiningar í tengslum við daginn.
Samþykkt að fegrunardagurinn verði haldinn laugardagurinn 24. maí 2008. Hópstjórar verði úr hverfisráðinu og íbúasamtökunum.

6. Viðurkenningar til íbúa fyrir fegrunarstörf og hreint umhverfi.
Samþykkt var að slá þessum lið saman við lið 3.

7. Reglur um úthlutun styrkja á vegum hverfisráða.
Reglurnar komnar frá Reykjavíkurborg. Umræður urðu um hvenær auglýsa eigi eftir styrkbeiðnum, en fundarmenn voru sammála um að rétt væri að gera það í haust. Eftirfarandi umsóknir voru samþykktar að þessu sinni:. Þorkell og Helgi viku af fundi meðan styrkveiting til íbúasamtakanna var afgreidd, Edda Borg Ólafsdóttir tók þá sæti Þorkels.
Samþykkt að veita íbúasamtökum Breiðholts kr. 300.000.
Samþykkt að ganga til samninga við Breiðholtsblaðið á grundvelli viðmiðunar í reglunum.
Samþykkt að veita Menningarhátíð eldri borgara styrk að upphæð kr. 250.000.-
Þorkell kemur inn á fundinn og Edda víkur sæti.

8. Bréf frá Menningar og ferðamálasviði lagt fram.
Bréf lagt fram á fundinum um menningarmál í hverfum borgarinnar og gerð menningarstefnu. Nokkrar umræður urðu um efni bréfsins og um sérkenni og sögu Breiðholtshverfis. Beiðni bréfritara um fund var samþykkt og Ragnhildur Guðjónsdóttir lýsti sig reiðubúna til að taka þátt í þeim viðræðum.

9. Bréf vegna nýs varamanns í hverfisráði
Vegna veikinda Ernu Ingólfsóttur tekur Hallgrímur Egilsson kt. hennar sæti í hverfisráðinu.
10. Kynningarefni frá Garðyrkju og skrúðgarðaþjónustu.
Kynningarbréf lagt fram.

2. 1, 2 og Breiðholt (10 ábendingar úr hverfinu). Forgangsröðun ábendinga sem senda á til borgarstjóra.
Framhald:
Eftir umræðu og smávægilegar breytingar var listinn samþykktur samhljóða.

11. Önnur mál
Hverfisráð Breiðholts fagnar niðurstöðum Reykjarborgar og ÍR um uppbyggingu á svæðinu.
Rætt var um sumarfrí hverfisráðsins, upplýst um að það megi taka tveggja mánaða frí.
Rætt um hvernig best væri að halda þá tvo fundi sem eftir eru fram að sumarfríi, samþykkt var að halda einn í lok mánaðarins og annan um miðjan júní.


Fundi slitið kl.14:45

Egill Örn Jóhannesson
Ragnhildur Guðjónsdóttir Hafsteinn Valsson
Þorkell Ragnarsson Guðlaugur Sverrisson
Falasteen Abu Libdeh