Heilbrigðisnefnd - Fundur nr. 68

Heilbrigðisnefnd

Heilbrigðisnefnd Ár 2013, þriðjudaginn 17. september. kl. 10:47 var haldinn 68. fundur heilbrigðisnefndar Reykjavíkur í fundarsal Hjarðarnesi, 3. hæð vestur að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Kristín Soffía Jónsdóttir, Garðar Mýrdal, Ólafur Jónsson, Sigurður Eggertsson, Marta Guðjónsdóttir og Hjördís Sjafnar Ingimundardóttir. Enn fremur sátu fundinn Óskar Í. Sigurðsson, Guðmundur B. Friðriksson, Gunnar Kristinsson, Örn Sigurðsson og Björgvin Rafn Sigurðarson, sem ritaði fundargerð. Þetta gerðist: 1. Starfs- og fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 2014. Lögð fram fjárhagsáætlun 2014. Lögð fram eftirfarandi tillaga Ólafs Jónssonar fulltrúa Samtaka Atvinnulífsins:

10,53% hækkun eftirlitsgjalda fyrir heilbrigðiseftirlit í Reykjavík, sem er langt umfram opinber verðlagsviðmið, er óásættanleg við núverandi aðstæður. Lagt er til að hækkunarþörf eftirlitsgjalda umfram opinber verðlagsviðmið sem breyst hafa um 5% á 12 mánaða tímabili og sem að öllu leiti má rekja til launahækkana umfram kjarasamninga, verði mætt með hagræðingu hjá Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Lagt er til 10.000 króna tímagjald sem jafngildir 5,3% hækkun. Miðað við forsendur framlagðrar starfs- og fjárhagsætlunar, nemur hagræðingarþörf Heilbrigðiseftirlitsins um kr. 5.600.000 sem jafngildir 2/3 úr stöðugildi heilbrigðisfulltrúa. Tillagan felld með þremur atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Kristínar Soffíu Jónsdóttur, Besta flokksins, Hjördísar Sjafnar Ingimundardóttir og Vinstri Grænna, Garðars Mýrdal gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Mörtu Guðjónsdóttur og fulltrúa Samtaka Atvinnulífssins Ólafs Jónssonar. Fulltrúi Besta flokksins Sigurður Eggertsson sat hjá við afgreiðslu tillögunnar. Starfs- og fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 2014 samþykkt með fjórum atkvæðum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Kristínar Soffíu Jónsdóttur, Besta flokksins, Hjördísar Sjafnar Ingimundardóttir , Sigurðar Eggertssonar og Vinstri Grænna, Garðars Mýrdals. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins Marta Guðjónsdóttir og fulltrúi Samtaka Atvinnulífsins Ólafur Jónsson sátu hjá.

2. Gámaþjónustan starfsleyfi. Lögð fram bókun og umsögn umhverfis- og skipulagsráðs dags. 30. ágúst 2013, umsagnir hverfisráðs Miðborgar dags. 26. ágúst 2013 og hverfisráðs Hlíða dags. 21. ágúst 2013 og Kjalarness dags. 15. ágúst 2013.

Lagt er til að synja Gámaþjónustunni um undanþágu til að safna lífrænum úrgangi frá heimilum í Reykjavík.

Tillagan samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Kristínar Soffíu Jónsdóttur, Besta flokksins, Hjördísar Sjafnar Ingimundardóttir og Vinstri Grænna, Garðars Mýrdals. Fulltrúi Samtaka Atvinnulífssins Ólafur Jónsson og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins Marta Guðjónsdóttir greiddu atkvæði gegn tillögunni. Fulltrúi Samtaka Atvinnulífssins Ólafur Jónsson bókaði eftirfarandi: Gámaþjónustan hefur í 30 ár staðið að söfnun og meðhöndlun úrgangs í Reykjavík og veitir í dag þúsundum heimila og fyrirtækja þjónustu á því sviði. Með umsókn sinni til Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, um starfsleyfi til söfnunar á lífrænum eldhúsúrgangi og blönduðum heimilisúrgangi í sérstaka tunnu, til viðbótar við þá söfnun sem nú þegar fram fer á flokkuðum heimilisúrgangi, er stuðlað að bættri þjónustu og aukinni endurvinnslu meðal almennings og þannig dregið úr magni þess úrgangs sem fer til urðunar. Heilbrigðisnefnd er heimilt að veita öðrum undanþágu til söfnunar á flokkuðum heimilisúrgangi, sé veitt meiri þjónusta en Reykjavíkurborg veitir, en kýs óbreytt ástand og að viðhalda urðun lífræns eldhúsúrgangs. Ákvörðun meirihluta Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um synjun starfsleyfis er vond, bæði fyrir borgarbúa og umhverfið. Fulltrúi sjálfstæðisflokksins Marta Guðjónsdóttir bókaði eftirfarandi: Furðu sætir að meirihlutinn skuli hafna ósk Gámaþjónustunnar um að fá að safna lífrænum úrgangi við reykvísk heimili. Fjölmargar óskir hafa komið frá almenningi sem vill flokka meira en boðið er upp á í kerfi borgarinnar. Einkafyrirtæki á markaði bjóða þegar upp á fleiri flokka til endurvinnslu en Reykjavíkurborg. Það ætti því að vera fagnaðarefni að slík metnaðarfull fyrirtæki hafi hug á að fjölga flokkunum enn frekar, og stuðla með því að umhverfisvænni borg. Í staðinn birtist í umsögn umhverfis- og skipulagsráðs mikil tortryggni í garð einkafyrirtækja sem þó hafa sýnt um langt árabil að er vel treystandi til þessara mikilvægu verkefna. Meirihlutinn er gjarnan með fagurgala um endurvinnslu í ræðu og riti,en þegar til kastanna kemur er aukinni endurvinnslu hafnað. Fulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins vísa í bókanir fulltrúa Samfylkingar, Besta flokksins og Vinstri Grænna í Umhverfis- og skipulagsráði varðandi sama mál. Fulltrúi Vinstri Grænna vísar til fyrri bókana sinna í Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur varðandi sorphirðumál. Sigurður Eggertsson vék af fundi kl. 12.15.

3. Gististaðir í íbúðabyggð. Kynning á átaksverkefni. Frestað.

4. Starfsdagur heilbrigðisnefndar 24. september 2013. Kynning á dagskrá. Óskar Í. Sigurðsson kynnti.

Fundargerðin var lesin upp og undirrituð á fundinum

Fundi slitið kl. 12:30

Kristín Soffía Jónsdóttir
Hjördís Sjafnar Ingimundardóttir Garðar Mýrdal
Ólafur Jónsson Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Heilbrigdisnefnd_1709.pdf