No translated content text
Heilbrigðisnefnd
Heilbrigðisnefnd
Ár 2012, fimmtudaginn 12. janúar kl. 10:45 var haldinn 47. fundur heilbrigðisnefndar Reykjavíkur í fundarsal Hofi 7. hæð, að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Kristín Soffía Jónsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Garðar Mýrdal, Páll Hjaltason, Sigurður Eggertsson og Ólafur Jónsson. Ennfremur sátu fundinn Rósa Magnúsdóttir, Óskar Í. Sigurðsson, Árný Sigurðardóttir, Helgi V. Helgason, Óskar Björgvinsson, Halldóra Kristinsdóttir og Gunnar Hersveinn sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Gististaðir í íbúðarbyggð.
Lagt fram erindi Íbúasamtaka miðbæjar dags. 16. desember 2011 og bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 10. janúar 2012.
Björn S. Hallsson og Harri Ormarsson komu á fundinn.
2. Hundagerði.
Lagt fram til kynningar erindi frá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar dags. 9. desember 2011 og minnisblað Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 10. janúar 2012.
Þórólfur Jónsson kom á fundinn.
Fulltrúar S, Æ og VG í Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur tóku undir minnisblað HER um mögulegar staðsetningar hundagerðis.
Fulltrúi D lista lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks telur að staðsetning hundagerðis í Laugardal eigi að vera sent ÍTR til umsagnar áður en heilbrigðisnefnd tekur afstöðu til staðsetningarinnar. Hafa ber í huga að Laugardalurinn er skilgreindur sem íþrótta- og tómstundasvæði.
Fulltrúar S, Æ og VG lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sambest og Vinstri grænna í heilbrigðisnefnd ítreka að hvar sem gerðið verði sett niður sé vel gætt að öryggis- og umgengismálum og að öll umhirða svæðisins verði til fyrirmyndar.
Sigurður Eggertsson fór af fundi kl. 12:25
3. Afturköllun hundaleyfis – Álfabrekka v. Suðurlandsbraut.
Lagt fram til kynningar bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 17. október 2011 og minnisblað Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 10. janúar 2011. Nefndin staðfesti ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur einróma.
4. Framsal eftirlits – uppsögn samninga.
Lagt fram til kynningar bréf Umhverfisstofnunar dags. 16. desember 2011.
Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur lagði fram eftirfarandi bókun:
Umhverfisstofnun hefur með bréfi þann 13. desember 2011 sagt upp samningum við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur um framsal eftirlits. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur lýsir yfir vonbrigðum með þá ákvörðun Umhverfisstofnunar og ítrekar þá skoðun sína að ríkisstofnanir eigi að framselja eftirlit til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur ásamt þvingunarúrræðum. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur að skipa hæfum sérfræðingum með heimild ráðherra til að stunda heilbrigðiseftirlit. Hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur er mikil reynsla í eftirliti auk þess sem Heilbrigðiseftirlitið er sá eftirlitsaðili sem borgarbúar þekkja og leita til ef þeim þykir eftirliti ábótavant eða hafa áhyggjur af starfsemi eða öðru. Umhverfisstofnun hefur borið fyrir sig að ekki sé lagaheimild til framsals og að umhverfisráðuneyti vinni að breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sú vinna hefur tekið tíma og ekki er kunnugt um hvernig ráðuneyti muni útfæra breytingar m.t.t. framsals. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur telur hins vegar að Umhverfisstofnun hafi fullar heimildir til framsals. Í 24. gr. laga nr. 7/1998 sem gjarnan er notuð til rökstuðnings um að heimild vanti til framsals, er hins vegar einungis fjallað um framsal tiltekinna þátta eftirlits til faggiltra aðila en ekki framsal milli Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits og hefur heilbrigðisnefnd Reykjavíkur aldrei farið fram á framsal eftirlits byggt á 24. gr. Í kafla II, 9. gr. reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit nr. 786/1999 er hins vegar veitt heimild fyrir Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir með staðfestingu ráðherra, að gera sín á milli samninga um mengunarvarnareftirlit. Heilbrigðisnefnd lítur þannig á að þetta ákvæði reglugerðarinnar og framkvæmd þess styðjist við lög nr. 7/1998, kafla II og III þar sem m.a. er fjallað um hlutverk heilbrigðisnefnda og Umhverfisstofnunar og því lagaheimild til staðar. Ekkert er þó því til fyrirstöðu að gera heimildina skýrari varðandi gagnkvæmt framsal milli heilbrigðisnefndar annars vegar og Umhverfisstofnunar hins vegar sbr. 47. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003. Í ljósi ofangreinds óskar heilbrigðisnefnd Reykjavíkur eftir því við Umhverfisstofnun að stofnunin endurskoði þá ákvörðun sína að segja upp framsalssamningum sem hafa verið í gildi auk þess að skoðað verði hvaða fyrirtæki í Reykjavík fleiri, eigi að gera framsalssamninga um. Heilbrigðisnefnd telur að eftirlitið eigi að vera í höndum Heilbrigðiseftirlitsins þannig að Umhverfisstofnun geti sinnt samræmingar-, leiðbeiningar- og eftirlitshlutverki sínu varðandi Heilbrigðiseftirlitið, þar sem ekki sé heppilegt að sami eftirlitsaðili bæði semji reglur fyrir sjálfan sig að fara eftir og hafa síðan eftirlit með hvernig sá sami framfylgi þeim.
Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi atvinnulífsins í Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur styður ákvörðun Umhverfisstofnunar um að segja upp samningum um eftirlit við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna í landinu. Í samræmi við ákvæði laga þá hefur aldrei komið til álita af hálfu Umhverfisstofnunar að framselja þvingunarúrræði frá sér. Mikilvægt er að öll framkvæmd eftirlits með fyrirtækjum skv. fylgiskjali 1 og viðauka 1 með reglugerð 786/1999 og beiting þvingunarúrræða, sé samræmd á landsvísu og framkvæmd af Umhverfisstofnun.
5. Samþykkt tóbaks- og starfsleyfi.
Lagður fram listi dags. 12. janúar 2012.
6. Samþykkt hundaleyfi.
Lagður fram listi dags. 12. janúar 2012.
Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 12:40
Kristín Soffía Jónsdóttir
Páll Hjaltason Ólafur Jónsson
Marta Guðjónsdóttir Garðar Mýrdal.