Heilbrigðisnefnd - Fundur nr. 42

Heilbrigðisnefnd

Heilbrigðisnefnd

Ár 2011, þriðjudaginn 11. október kl. 12 var haldinn 42. fundur heilbrigðisnefndar Reykjavíkur í fundarsal Hofi, 7. hæð, að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Kristín Soffía Jónsdóttir, Sigurður Eggertsson, Karl Sigurðsson, Marta Guðjónsdóttir, Kristín Þorleifsdóttir og Ólafur Jónsson. Enn fremur sátu fundinn Árný Sigurðardóttir, Óskar Í. Sigurðsson, Rósa Magnúsdóttir og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fjárhags- og starfsáætlun 2011.
Kynnt drög að fjárhagsáætlun og fyrirhuguðum gjaldskrárbreytingum.

2. Hringrás.
Lögð fram á ný bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 12. ágúst og 7. september
2011, bréf Hringrásar ódagsett, móttekið 15. september 2011, bréf Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins dags. 4. október 2011 og bréf Skipulags og byggingarsviðs dags. 3. október 2011. Jafnframt lagt fram bréf Hringrásar dags. 11. október 2011 og bréf VSI dags. 10. október 2011.

- Ólöf Vilbergsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn.

Svohljóðandi bókun var samþykkt einróma:
Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefur að undanförnu fjallað um málefni Hringrásar hf. að Klettagörðum, vegna tveggja alvarlegra eldsvoða sem orðið hafa á athafnasvæði fyrirtækisins, 2004 og 2011, sem ógnuðu öryggi borgarbúa. Í samræmi við markmið laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, tekur heilbrigðisnefnd Reykjavíkur undir tillögu slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins um að gerð verði áhættugreining á starfsemi Hringrásar að Klettagörðum í Reykjavík. Jafnframt styður nefndin tillögur slökkviliðsstjóra um takmörkun á starfsemi fyrirtækisins þar til áhættugreining liggur fyrir þannig að ekki geti á nýjan leik skapast aðstæður sem slökkvilið ræður illa við og geta verið ógn við almannaheill. Ákvörðun um endurskoðun starfleyfisskilyrða verður tekin þegar áhættumat liggur fyrir.
Fulltrúi atvinnulífsins sat hjá. Fulltrúi D-lista lagði fram svohljóðandi bókun:
Það sýndi sig í nóvember árið 2004 og svo aftur í júlí á þessu ári að mikil og almenn hætta getur stafað af dekkjabruna á vinnslusvæði Hringrásar. Við þessu þarf að bregðast og grípa til aðgerða, sem tryggt geta öryggi íbúa og starfsfólks atvinnufyrirtækja í nágrenninu eins og kostur er. Nokkuð víða hefur borgarþróun undanfarinna áratuga valdið því að rekstur fyrirtækja í grófri iðnaðarstarfsemi samræmist ekki lengur öðrum atvinnurekstri í næsta nágrenni. Dæmi eru um að rekstur mengandi iðnaðar liggi fast upp að íbúðabyggð og er slík staða augljóslega óviðunandi fyrir nærliggjandi íbúa. Vegna þessarar stöðu var á árunum 2008-2010 unnið að skipulagi nýs framtíðar iðnaðar- og athafnarsvæðis á norðanverðu Álfsnesi. Stefnt var að því að skapa fyrirtækjum í grófri iðnaðarstarfsemi umgjörð og aðstæður, sem gæfu þeim starfsrými í sátt við nærumhverfi sitt. Meðal þeirra fyrirtækja, sem horft var til að gætu átt sóknarfæri á nýjum stað við kjöraðstæður á Álfsnesi, var Hringrás. Því miður hefur hægt verulega á skipulagsvinnu á þessu kjörtímabili og minni áhugi virðist vera á að skapa fyrirtækum viðunandi starfsumhverfi. Fallist er á að takmarka þarf áhættu þá, sem skapast af eldfimu lagerefni á vinnslusvæði Hringrásar, en gæta ber meðalhófs og andmælaréttar fyrirtækisins.

Fundi slitið kl. 13.50

Kristín Soffía Jónsdóttir
Sigurður Eggertsson Karl Sigurðsson
Marta Guðjónsdóttir Kristín Þorleifsdóttir
Ólafur Jónsson