Heilbrigðisnefnd - Fundur nr. 33

Heilbrigðisnefnd

Heilbrigðisnefnd

Ár 2011, 3. mars n.k. kl. 10.50 var haldinn 33. fundur Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur í fundarsal Hofi á 7. Hæð, að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjördís Sjafnar Ingimundardóttir, Sigurður Eggertsson, Marta Guðjónsdóttir, Sigurbjörg Gísladóttir og Ólafur Jónsson. Enn fremur sátu fundinn Rósa Magnúsdóttir, Tryggvi Þórðarson, Árný Sigurðardóttir, Ellý K. Guðmundsdóttir og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Vatnsmýrin – kortlagning á mögulegum mengunarstöðum.
Kynntar voru fyrstu niðurstöður af kortlagningu mengunarstaða í Vatnsmýrinni.
Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri og Svavar S. Guðfinnsson kynntu.

2. Orkustefna Íslands.
Lögð fram drög að orkustefnu og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 20. febrúar 2011. Anna Rósa Böðvarsdóttir og Kristín Lóa Ólafsdóttir, heilbrigðisfulltrúar, kynntu umsögnina.
Nefndin sameinaðist um svohljóðandi bókun:
Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur tekur undir gagnrýni Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, að hafa ekki fengið drög að Orkustefnu formlega til umsagnar á fyrri stigum og óskar eftir því að heilbrigðisnefndir fái mál sem þessi til umsagnar í framtíðinni.

3. Frumvarp til laga um Umhverfisábyrgð.
Lagt fram frumvarp til laga um umhverfisábyrgð og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavikur dags. 10. febrúar 2011.
Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, kynnti umsögnina.

4. Endurskoðun heilbrigðissamþykkta – hundahald, gæludýr og búfé.
Lagt fram á ný bréf Borgarstjórans í Reykjavík dags. 2. desember 2010. Nefndin samþykkti að vísa erindinu til meðferðar Umhverfis- og samgöngusviðs og óskar eftir gerð verklagsreglna um veitingu undanþága frá búfjársamþykkt.

5. Sorphirða í Reykjavík.
Guðmundur B. Friðriksson, skrifstofustjóri, kom á fundinn og kynnti framkvæmd breytinga á sorphirðu í borginni. Lagt fram minnisblað Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 1. mars 2011.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokks lagði fram svohljóðandi bókun:
Nýjar verklagsreglur í sorphirðumálum borgarinnar eru til þess fallnar að skerða þjónustu við borgarbúa og íþyngja þeim með hærri gjöldum auk þess sem þær mismuna borgarbúum þar sem sumir þurfa að greiða sérstakt sorphirðugjald en aðrir ekki. Ætla má að nýjar reglur dragi einnig úr ýtrustu kröfum um hreinlæti. Eðlilegra hefði verið að biðla til borgarbúa í formi tilmæla um að liðka til fyrir sorphirðuna en ekki vera með tilskipanir og dulbúna skattheimtu á hluta borgarbúa en þannig hefði mátt ná fram heilmikilli hagræðingu. Það sætir furðu að ekki var haft samráð við íbúasamtök og hverfisráð borgarinnar áður en nýjar reglur voru samþykktar.
Fulltrúi sjálfstæðisflokksins óskar eftir því að borgarlögmaður skeri úr um hvort verið sé að brjóta jafnræðisregluna á borgarbúum með nýjum reglum og gjaldtöku um sorphirðu. Þá er óskað eftir áliti um það hvort tilfærsla á öskutunnugerðum sé byggingarleyfisskylt og eins hvort hægt sé að gera deiliskipulag afturvirkt.

Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sambest benda til dæmis á að reynsla sveitafélagsins Árborgar og Akureyrarbæjar er góð eins og gögn sýna sem lögð voru fram á fundinum, ekki voru lögð fram nein gögn sem sýna fram á annað. Fulltrúar Sambest deila ekki áhyggjum fulltrúa Sjálfstæðisflokks í málinu sem gefur sér fyrirfram að vandamál muni skapast. Fulltrúar Sambest telja að búast megi við að reynsla af fyrirkomulaginu í Reykjavík muni verði á svipuðum nótum og hjá öðrum sveitafélögum, jafnvel betri og bindur vonir um að almenn ánægja verði um málið.“

6. Frumvarp til breytinga á lögum um fjöleignahús.
Lögð fram til kynningar umsögn borgarlögmanns dags. 22. febrúar 2011.
Frestað.
7. Samþykkt starfs- og tóbakssöluleyfi.
Lagðir fram listar dags. 3. febrúar 2011.
8. Samþykkt hundaleyfi.
Lagður fram listi dags. 3. febrúar 2011.

Fundi slitið kl. 13.00

Kristín Soffía Jónsdóttir

Hjördís Sjafnar Ingimundardóttir Sigurður Eggertsson
Marta Guðjónsdóttir Sigurbjörg Gísladóttir
Ólafur Jónsson