Heilbrigðisnefnd - Fundur nr. 31

Heilbrigðisnefnd

Heilbrigðisnefnd

Ár 2010, 7. júní n.k. kl. 13.30 var haldinn 31. fundur Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur í fundarsal Hofi á 7. hæð, að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Kristján Guðmundsson, Þórunn Benný Birgisdóttir, Garðar Mýrdal, Dagbjört Hákonardóttir og Ólafur Jónsson. Enn fremur sátu fundinn Rósa Magnúsdóttir og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Úrskurður Umhverfisráðuneytis vegna starfsleyfis Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis og Skotfélags Reykjavíkur.
Lagt fram á ný bréf Umhverfisráðuneytis dags. 16. mars 2010 og úrskurður dags. 15. mars 2010. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 30. mai 2010.
Nefndin samþykkti samhljóða svohljóðandi bókun:
Með vísun til minnisblaðs skrifstofustjóra Umhverfis- og samgöngusviðs og niðurstaðna þess varðandi stjórnsýslulög og góða stjórnsýslu, mun heilbrigðisnefnd Reykjavíkur ekki freista þess að fá úrskurði umhverfisráðherra hnekkt. Þess í stað mun heilbrigðisnefnd vinna að því ásamt Skipulags- og byggingasviði Reykjavíkurborgar að finna skotvellinum nýjan stað og stefna að flutningi starfseminnar úr Álfsnesi svo fljótt sem auðið er. Með tilliti til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og vísun til niðurstaðna fundar með kæranda málsins og formanns íbúasamtaka Kjalarness mun heilbrigðisnefnd ekki stöðva starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis, þrátt fyrir að starfsleyfi þess hafi verið fellt úr gildi, þar sem fyrir liggur, að félagið sækir um að flytja starfsemi sína á nýjan stað og starfsemi þess mun hætta í Álfsnesi. Þá liggur fyrir, að Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis telur, að með því að nýtt starfsleyfi var fellt úr gildi, hafi eldra leyfi þess til starfseminnar tekið gildi á ný.
Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur gerir ráð fyrir að ráðuneytið geri ekki athugasemdir við afgreiðslu þessa.

2. Framkvæmdastjórn um vatnsvernd á höfðuðborgarsvæðinu.
Lögð fram til kynningar 84. fundargerð auk fundargagna og árskýrsla 2009.

- Ragnhildur Guðjónsdóttir kom á fundinn kl. 13.45.

3. Skotæfingasvæði – Lækjarbotnum í Kópavogi.
Lögð fram drög að umsögn Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur 7. júní 2010, drög að umsókn um starfsleyfi dags. 25. janúar 2007, bréf Vinnueftirlit ríkisins dags. 16. febrúar 2007, bréf Skotfélags Kópavogs dags. 11. mars 2010 og bréf Skipulags- og byggingarsviðs Kópavogs dags. 27. apríl 2010.
Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn.
Nefndin samþykkti samhljóða svohljóðandi bókun:
Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur tekur undir umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og leggur áherslu á þau atriði sem þar koma fram, einkum mikilvægi þess að ákvæði um vatnsverndarsvæði séu höfð í heiðri.

4. Breytingar á svæðisskipulagi vatnsverndar í landi Kópavogs – Vatnsenda.
Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu dags. 11. maí 2010.
Kristín Lóa Ólafsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn.
Frestað.

5. Íslenska gámafélagið – sértæk starfsleyfisskilyrði.
Lögð fram samþykkt um meðhöndlun úrgangs, almenn starfsleyfisskilyrði fyrir mengandi starfsemi og drög að sértækum starfsleyfisskilyrðum fyrir Íslenska gámafélagið.
Starfsleyfisskilyrðin voru samþykkt með 4 atkvæðum, 2 sátu hjá.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi bókun:
Æskilegt er að þróun og umsýsla með sorphirðu sé á hendi eins fyrirtækis í almannaeing og er hér með skorað á stjórnvöld Reykjavíkur að efla SORPU og meðal annars tryggja að umferð sorphirðubíla til flutnings á heimilissorpi fráíbúðagötum borgarinnar sé á hendi þess eina fyrirtækis.

6. Hverfaráð Hlíða – fyrirspurn.
Lagt fram erindi frá fundi Hverfisráðs Hlíða þann 13. apríl 2010 varðandi kvörtun um reykingar nemenda við Menntaskólans við Hamrahlíð.
Nefndin felur Heilbrigðiseftirlitinu að beita sér fyrir samvinnu hverfaráðsins, skólans og nemendafélags hans til lausnar á reykingavandanum.

7. Drög að deiliskipulagi Hlíðarenda – umsögn um hljóðvist.
Lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, kynnti málið.
Nefndin gerði ekki athugasemdir við umsögnina.

8. Samþykkt starfs- og tóbakssöluleyfi.
Lagðir fram listar dags. 7. júní 2010.

9. Samþykkt hundaleyfi.
Lagður fram listi dags. 7. júní 2010.

Fundi slitið kl. 14.20.

Kristján Guðmundsson
Þórunn Benný Birgisdóttir Garðar Mýrdal
Dagbjört Hákonardóttir Ólafur Jónsson
Ragnhildur Guðjónsdóttir