Heilbrigðisnefnd
Heilbrigðisnefnd
Ár 2018, 9. mars var haldinn 126. fundur heilbrigðisnefndar Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í fundarsal Hofi, 7. hæð austur að Borgartúni 12-14 og fundurinn hófst kl. 10.37. Viðstaddir voru: Sabine Leskopf, Diljá Ámundadóttir, Heimir Janusarson, Björn Birgir Þorláksson, Herdís Anna Þorvaldsdóttir, Ólafur Jónsson og Gréta Björg Egilsdóttir, áheyrnafulltrúi. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Árný Sigurðardóttir, Óskar Í. Sigurðsson, Örn Sigurðsson, og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Örn Sigurðsson.
Þetta gerðist:
1. Lagðar fram umsagnir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna breytinga á deiliskipulagi fyrir athafnasvæðið Esjumelar-Varmidalur, dags. 23. febrúar 2018, um breytingar á deiliskipulaginu, og 5. janúar 2018, vegna ofanvatnslausna fyrir svæðið.
Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava Svanborg Steinarsdóttir taka sér sæti undir þessum lið.
- Kl. 10.44 tekur Herdís Anna Þorvaldsdóttir sæti á fundinum.
2. Lagt fram erindi skipulagsfulltrúa um Aðalskipulag Reykjavíkur 2010 – 2030 varðandi efnisvinnslusvæðið í Álfsnesvík ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 19. febrúar 2018.
Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava Svanborg Steinarsdóttir taka sér sæti undir þessum lið.
3. Lagt fram að nýju bréf Landsnets, dags. 23. janúar 2018, varðandi endurnýjun á starfsleyfi fyrir byggingu Lyklafellslínu 1 sbr. 4. lið fundargerðar heilbrigðisnefndar frá 9. febrúar 2018. Einnig er lagt fram bréf fulltrúa Vinstri grænna í heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, dags. 25. febrúar 2018, varðandi málið..
Fulltrúar Vinstri Grænna, Samfylkingar, Bjartrar Framtíðar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Vinstri Grænna, Samfylkingar, Bjartrar Framtíðar og Pírata þakka René Biasone fulltrúa VG, fyrir góðar ábendingar í bréfi hans til Framkvæmdastjórnar um vatnsvernd höfuðborgarsvæðisins dagsett 25. febrúar 2018 og sem kynnt hefur verið fyrir heilbrigðisnefnd Reykjavíkur á fundi nefndarinnar þann 9. mars 2018 og óskar eftir að fylgjast með öllum skriflegum svörum sem berast. Fulltrúar Vinstri Grænna, Samfylkingar, Bjartrar Framtíðar og Pírata benda á að forsendur framkvæmda við styrkingu á dreifingu raforku hafi breyst talsvert frá því að umhverfismat framkvæmdarinnar fór fram árið 2009 auk þess sem Hæstiréttur hefur úrskurðað að ágallar eru á því mati. Breyttar forsendur felast m.a. í því að núverandi háspennulínur eru umtalsvert vannýttar og ljóst er að núverandi kerfi mun mæta þörf raforku á Suðvesturlandi í næsta áratuginn. Fulltrúar Vinstri Grænna, Samfylkingar, Bjartrar Framtíðar og Pírata lýsa yfir verulegum áhyggjum yfir hugsanlegum afleiðingum framkvæmdarinnar á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og leggja áherslu á að ítrustu kröfur verði gerðar til verndar grunnvatnsins. Hefja þarf á ný samráð við svæðisskipulagsnefnd með því markmiði að endurskoða svæðisskipulag þannig að fyrirhugað mannvirkjabelti verði skilgreint fyrir utan vatnsverndarsvæða og til samræmis við ákvæði samþykktar nr. 555/2015, 15. gr. 16. gr., 24. gr. og 25. gr. Lagt er til að beðið verði með afgreiðslu erindis Landsnets um leyfisveitingu á framkvæmdum á grannsvæði vatnsverndarsvæða, þar til nýtt heildstætt umhverfismat hefur farið fram um framkvæmdina og aðrar framkvæmdir á svæðinu. Umsóknir um framkvæmdir og mat á umhverfisáhrifum þeirra ættu síðan vera í samræmi við endurskoðað svæðisskipulag. Jafnframt tekur nefndin undir svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingar í bæjarstjórn Kópavogs:
Skýrsla Landsnets 2017-2019 er grundvöllur lögfræðiálits Kópavogs um að dómur Hæstaréttar eigi ekki við veitingu framkvæmdaleyfis til Landsnets vegna Lyklafellslínu. Það er því mikilvægt að sú skýrsla sé rýnd af þar til bærum aðila sem er Skipulagsstofnun. Slíkt mat ætti ekki að taka langan tíma og ekki verða til þess að tefja málið úr hófi. Undirrituð telja þetta í anda góðrar stjórnsýslu og mikilvægt að hafa vaðið fyrir neðan sig þegar ákvörðun er tekin.
Pétur Hrafn Sigurðsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Heilbrigðisnefnd leggur fram svohljóðandi bókun:
Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hvetur Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eindregið að framkvæma ítarlega skoðun og kortlagningu allra fyrirhugaðra framkvæmda og starfsemi á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins í heild sinni auk núverandi starfsemi með tilliti til vatnsverndarsjónarmiða sbr. ákvæði samþykktar um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarnesbæjar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar og Hafnarfjarðarkaupstaðar nr. 555/2015. Með þessu vill heilbrigðisnefnd Reykjavíkur verja rétt borgarbúa til ómengaðs og hreins neysluvatns. Slys eða óhöpp við framkvæmdir gætu valdið óafturkræfum eða mjög dýrkeyptum afleiðingum fyrir samfélagið. Það er á ábyrgð stjórnvalda, heilbrigðisnefndanna á höfuðborgarsvæðinu og allra stjórnsýsluaðila að standa saman vörð um grunnvatnið sem sér ríflega helmingi landsmanna fyrir neysluvatni og er í dag í hæsta gæðaflokki.
Nils Gústavsson og Þórarinn Björnsson frá Landsneti og Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava Svanborg Steinarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
4. Lögð er fram fundargerð framkvæmdarstjórnar um vatnsvernd höfuðborgarsvæðisins frá 7. mars 2018.
5. Lagt fram erindi Skipulagsstofnunar, dags. 26. janúar 2018, um gas- og jarðgerðarstöð Sorpu, dags. janúar 2018. Einnig lagðar fram umsagnir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi, dags. 9. febrúar 2018, og um mögulega matsskyldu gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi, dags. 15. janúar 2014.
Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur leggur fram svohljóðandi bókun:
Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur telur nauðsynlegt að sett verði viðmið fyrir efnainnhald jarðvegs og moltu í ljósi þess að fyrihuguð gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi mun framleiða moltu úr heimilisúrgangi. Slíkur úrgangur er enn það lítið flokkaður að hætta er á því að óæskileg efni geti borist inn í jarðgerðarferlið. Sé þungmálmainnihald hátt eða mikið af plastleifum eru notkunarmöguleikar takmarkaðir. Niðurbrotið plast í moltunni gæti verið uppspretta örplasts sem losnar út í umhverfið. Til þarf að vera farvegur fyrir þá moltu sem ekki uppfyllir gæðaviðmið.
Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava Svanborg Steinarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
6. Kynning á niðurstöðum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í leik- og grunnskólum og frístundaheimilum 2017.
Berglind Ósk Þ. Þórólfsdóttir og Helgi Guðjónson taka sér sæti á fundinum undir þessum lið.
7. Lagður fram listi, dags. 9. mars 2018, yfir samþykkt tóbaks- og starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Jafnframt lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur nr. 1274-1282.
8. Lagður fram listi, dags. 9. mars 2018, yfir samþykkt hundaleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
Fundi slitið 13.03
Sabine Leskopf
Diljá Ámundadóttir Heimir Janusarson
Björn Birgir Þorláksson Herdís Anna Þorvaldsd.
Ólafur Jónsson
PDF útgáfa fundargerðar
Heilbrigðisnefnd 3.9.2018 - Prentvæn útgáfa