Heilbrigðisnefnd
Heilbrigðisnefnd
Ár 2017, 16. júní var haldinn 117. fundur heilbrigðisnefndar Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í fundarsal: Arnarholti, 3. hæð austur, að Borgartúni 12-14 og fundurinn hófst kl. 10.37. Viðstödd voru: Sabine Leskopf, Diljá Ámundadóttir, René Biasone, Björn Birgir Þorláksson, Herdís Anna Þorvaldsdóttir, Ólafur Jónsson og Gréta Björg Egilsdóttir. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Árný Sigurðardóttir, Óskar Ísfeld Sigurðsson, Rósa Magnúsdóttir, Sigurjóna Guðnadóttir og Sigríður Jónína Jónsdóttir.
Fundarritari var Björgvin Rafn Sigurðarson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram á ný skýrsla atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um Matvælastofnun dags. 27. mars 2017.
Heilbrigðisnefnd leggur fram svohljóðandi bókun:
Nefndin gerir athugasemdir við efnistök skýrsluhöfunda og telur að mörg atriði í skýrslunni hefðu þurft að vinnast betur, t.d. varðandi val á samanburðarlöndum. Í skýrslunni eru gerðar athugasemdir við starfsemi Matvælastofnunar og fram kemur að stofnunin getur ekki sinnt fjölmörgum lögbundum verkefnum sem stofnuninni hefur verið falið. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fagnar því að skipuð hefur verið verkefnastjórn til að styðja við starfsemi Matvælastofnunar og vinna að nýjum lögum sem ætlað er að skilgreina betur hlutverk og heimildir stofnunarinnar. Ljóst er að til staðar eru tækifæri til að efla matvælaeftirlitið í landinu. Jafnframt leggur nefndin áherslu á að Matvælastofnun forgangsraði og verði gert kleift að sinna hlutverki sínu að gera leiðbeiningar, samræma og samþætta allt matvælaeftirlit í landinu, þar með talið matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Jafnframt ítrekar heilbrigðisnefnd Reykjavíkur þá skoðun sína að allt eftirlit þ.m.t. matvælaeftirlit sé best komið hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hvetur til aukins samtals og samráðs um málaflokkinn og felur framkvæmdastjóra að hafa samband við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Matvælastofnun og lýsa yfir áhuga á að koma að þessari vinnu sem stærsta heilbrigðiseftirlitssvæðið.
2. Lögð fram breyting frá 146. löggjafarþingi á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, mál nr. 376, samþykkt 1. júní 2017 og nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um breytinguna, 3. umræða, þingskjal nr. 1025.
3. Lagður fram úrskurður í máli nr. 163/2016 varðandi kæru á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 8. nóvember 2016 að gefa út starfsleyfi til reksturs alifuglabús að Brautarholti 5, Kjalarnesi.
4. Lagt fram frumvarp frá 146. löggjafarþingi um breytingu á lögum nr. 6/2002 um tóbaksvarnir (rafrettur), 431. mál á Alþingi og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 10. maí 2017 um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002 um tóbaksvarnir með síðari breytingum.
5. Gæludýrahald og löggjöf um gæludýrahald er varðar heilbrigðisnefndir sveitarfélaga.
Samþykkt.
Heilbrigðisnefnd leggur fram svohljóðandi bókun:
Á undanförnum árum hefur gæludýrahald aukist í Reykjavíkurborg auk þess sem kröfur um velferð dýra hafa aukist. Samkvæmt lögum um velferð dýra. nr. 55/2013 og reglugerð um velferð gæludýra nr. 80/2016 hvíla ákveðnar skyldur á sveitarfélögum s.s. vegna geymslu á handsömuðum dýrum. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur telur brýnt að Reykjavíkurborg bregðist við þessum skyldum. Mikilvægt er einnig að umhverfis- og auðlindaráðuneytið flýti endurskoðun reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 hvað varðar ákvæði um gæludýr þannig að hægt sé að fara í endurskoðun heilbrigðissamþykkta nefndarinnar er varða dýr og dýrahald. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hvetur jafnframt Borgarráð að hrinda af stað samræmingu og endurskoðun á málaflokknum með velferð dýra og hollustuhætti borgarbúa að leiðarljósi.
6. Lögð fram 117. fundargerð Framkvæmdastjórnar um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu.
- kl. 11.54 víkur Diljá Ámundadóttir af fundinum.
7. Lögð fram til afgreiðslu, umsókn dags. 4. maí 2017 um hænsnahald hjá ISAVIA Flugfjarskiptum að Sóleyjarima 4-6 fyrir 6 hænum.
Samþykkt að veita leyfi fyrir fjórum hænum að Sóleyjarima 6.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að í þessu tilfelli hefði verið eðlilegt að beita skynsemissjónarmiði og leyfa umsækjanda að halda 6 hænur á annarri lóðinni. Þar sem um tvær samliggjandi lóðir er að ræða og engar aðliggjandi lóðir.
- Kl. 12.45 tekur Diljá Ámundardóttir aftur sæti á fundinum.
8. Lagður fram listi dags. 16. júní 2017 yfir samþykkt tóbaks- og starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Jafnframt lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur nr. 1210 -1221.
Sabine Leskopf víkur af fundinum undir þessu máli.
9. Lagður fram listi, dags. 16. júní 2017, yfir samþykkt hundaleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
Fundi slitið kl. 12.53
Sabine Leskopf
Diljá Ámundadóttir René Biasone
Björn Birgir Þorláksson Ólafur Jónsson
Herdís Anna Þorvaldsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Heilbrigðisnefnd 16.6.2017 - Prentvæn útgáfa