Heilbrigðisnefnd
Heilbrigðisnefnd
Ár 2017, 12. maí var haldinn 116. fundur heilbrigðisnefndar Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í fundarsal: Hofi, 7. hæð austur, að Borgartúni 12-14 og fundurinn hófst kl. 11.52. Viðstödd voru: Sabine Leskopf, Diljá Ámundadóttir, Heimir Janusarson, Björn Birgir Þorláksson, Herdís Anna Þorvaldsdóttir, Ragnheiður Héðinsdóttir og Gréta Björg Egilsdóttir. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Árný Sigurðardóttir, Rósa Magnúsdóttir og Sigríður Jónína Jónsdóttir.
Fundarritari var Björgvin Rafn Sigurðarson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram að nýju að lokinni auglýsingu starfsleyfisumsókn Björgunar ehf., dags. 31. janúar 2017, ásamt fylgiskjölum, dags. 28. febrúar 2017, drög að sértækum starfsleyfisskilyrðum 2017, erindi íbúasamtaka Bryggjuhverfis, dags. 25. apríl 2017, og umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 27. mars 2017.
Samþykkt.
Herdís Anna Þorvaldsdóttir situr hjá við afgreiðslu málsins.
Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur leggur fram svohljóðandi bókun:
Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur ítrekar að starfsleyfi sem veitt hefur verið Björgun hf. gildir einungis í samræmi við hlutverk fyrirtækisins varðandi landfyllingu skv. samningi við Faxaflóahafnir og í samræmi við umsögn umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur dags. 9. desember 2016. Ekki eru leyfðar breytingar sem gætu leitt til aukinnar mengunar á svæðinu. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mun fylgjast náið með og hefur heimild að endurskoða starfsleyfisskilyrðin ef í ljós koma annmarkar á framkvæmd þeirra eða ef mengun er meiri en búast má við.
Guðjón Ingi Eggertsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
2. Lagður fram tölvupóstur nefndarsviðs Alþingis, dags. 11. apríl 2017, og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 28. apríl 2017, vegna umsagnarbeiðnar um frumvarp til laga um hollustuhætti og mengunarvarnir (EES-reglur, losun frá iðnaði og skráningarskylda), 376. mál.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartar framtíðar Vinstri grænna, Pírata, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins Herdís Anna Þorvaldsdóttir og áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur tekur heilshugar undir umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 28. apríl 2017, varðandi frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 með síðari breytingum. Það er skoðun nefndarinnar að með þessum breytingum skerðist aðkoma sveitarfélaga að starfsskilyrðum fyrirtækja með mengandi starfsemi á þeirra svæði og þar með skipulagsvald sveitarfélaga. Nefndin skorar á Alþingi að endurskoða frumvarpið með það í huga að meginmarkmið laganna sé að tryggja íbúum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, ekki að einfalda fyrirtækjum að hefja rekstur. Ekki er hægt að sjá hvernig sú breyting að fyrirtæki geti hafið starfsemi án þess að úttekt eða skoðun fari fram stuðli að meginmarkmiði laganna. Einnig ítrekar nefndin áður framkomna skoðun um að færa eigi sem mest eftirlit til Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og að þvingunarúrræði fylgi því eftirliti án undantekninga. Nefndin leggur auk þess ríka áherslu á að tekið sé tillit til skoðana sem fram koma í ofangreindri umsögn og hafa margoft komið fram áður, til dæmis í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 1. febrúar 2016.
3. Fram fer kynning á vorfundi Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis með heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga, haldinn á Breiðdalsvík 3. maí 2017.
4. Lögð fram drög að reglugerð um (5.) breytingu á reglugerð nr. 941/2002, um hollustuhætti (umh 16060108) ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 10. apríl 2017.
5. Lögð fram skýrsla atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um Matvælastofnun, dags. 27. mars 2017.
6. Lögð fram umsagnarbeiðni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis dags. 11. apríl 2017 og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 21. apríl 2017, um frumvarp til laga um meðhöndlun úrgangs og ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur (EES-reglur o.fl.), 333. mál.
Kristín Lóa Ólafsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
7. Lögð fram umsagnarbeiðni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, dags. 15. mars 2017, og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 4. apríl 2017, um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.
Kristín Lóa Ólafsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
8. Lagður fram tölvupóstur Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 24. mars 2017, og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 5. apríl 2017, um tillögu um uppsetningu á tveimur síritandi loftgæðamælistöðvum við austurenda byggðar í Breiðholti annars vegar og í Grafarholti-Úlfarsárdal hins vegar.
Kristín Lóa Ólafsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
9. Lagður fram listi, dags. 12. maí 2017, yfir samþykkt tóbaks- og starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Jafnframt lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur nr. 1201-1209.
10. Lagður fram listi, dags. 12. maí 2017, yfir samþykkt hundaleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
Fundi slitið kl. 13.26
Sabine Leskopf
Diljá Ámundadóttir Heimir Janusarson
Björn Birgir Þorláksson Ragnheiður Héðinsdóttir
Herdís Anna Þorvaldsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Heilbrigðisnefnd 12.5.2017 - Prentvæn útgáfa