Heilbrigðisnefnd - 95. fundur

Heilbrigðisnefnd

UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND

Ár 2002, fimmtdaginn 30. maí kl. 12.00 verður haldinn 95. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Kolbeinn Ó. Proppé, Jóhanna Þórdórsdóttir, Ragnheiður Héðinsdóttir, Ólafur F. Magnússon og Guðlaugur Þór Þórðarson. Hrannar B. Arnarsson kom á fundinn kl. 12.15. Enn fremur sátu fundinn Hjalti Guðmundsson, Þórólfur Jónsson, Lúðvík E. Gústafsson, Rósa Magnúsdóttir, Ellý K. J. Guðmundsdóttir og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð. Ólafur Bjarnason kom á fundinn kl. 12.25.

Þetta gerðist:

Heilbrigðismál:

1. Reglur um bakstur í verslunum. Lögð fram drög til samþykktar. Helga Guðrún Bjarnadóttir, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn. Reglurnar voru samþykktar með 6 samhljóða atkvæðum.

2. Örverufræðileg gæði íss úr vél. Lögð fram til kynningar úttektaráætlun. Helga Guðrún Bjarnadóttir, heilbrigðisfulltrúi, kynnti.

3. Förgun matvæla. Lagt fram til kynningar bréf Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 24. apríl 2002.

4. Samþykkt fyrir Umhverfis- og heilbrigðisnefnd. Lagt fram til kynningar bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 19. apríl 2002.

5. Samstarf Umhverfis- og heilbrigðisstofu við Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Kynnt samstarfs vegna staðsetningar bakgrunnsmælinga á andrúmslofti í garðinum. Lúðvík E. Gústafsson, deildarstjóri, kynnti.

6. Selásland og Baldurshagaland. – Byggingar og tilheyrandi lóðir á vatnsverndarsvæði. Lögð fram á ný skýrsla Umhverfis- og heilbrigðisstofu. Nefndin ítrekaði með 6 samhljóða atkvæðum bókun sína frá 65. fundi nefndarinnar hinn 8. mars 2001: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur felur Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að fylgja eftir þeim athugasemdum og tillögum um úrbætur, sem fram koma í skýrslunni “Hólmsland og Lækjarbotnar í Reykjavík – lóðir og byggingar.” Jafnframt beinir nefndin þeim tilmælum til byggingarfulltrúa að upplýsingar skýrslunnar verði nýttar til að kanna lögmæti þeirra mannvirkja, sem þar koma fram.”

7. Tölfræðilegar niðurstöður skýrslna um ástand lóða og lendna við Elliðavatn. Lagðar fram 3 skýrslur til kynningar.

8. Starfsleyfi Steypustöðvarinnar hf. Lagðar fram athugasemdir Steypustöðvarinnar hf. Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn. Nefndin samþykkti með 6 samhljóða atkvæðum, að ekki væri tilefni til breytinga á starfsleyfinu á grundvelli athugasemda Steypustöðvarinnar hf.

9. Frumvarp til laga um meðhöndlun úrgangs. Lögð fram til kynningar umsögn Umhverfis- og heilbrigðisstofu.

10. Aðild að “Fegurri sveitir”. Lagt fram bréf Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 29. maí 2002. Nefndin samþykkti erindið með 6 samhljóða atkvæðum.

11. Aflétting leigubanns. Lagt fram bréf Umhverfis- og heilbrigiðsstofu dags. 30. maí 2002. Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.

12. Leiðbeinandi reglur um húðgötun í eyrnasnepla. Lögð fram drög að reglum. Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.

13. Leiðbeinandi reglur fyrir dagsvistun 6-10 barna í heimahúsum. Lögð fram drög að reglum. Frestað. Samþykkt að leita umsagnar hagsmunaaðila.

14. Hreinsun lóðar að Laugavegi 21. Lagt fram bréf Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 30. maí 2002. Nefndin samþykkti erindið með 6 samhljóða atkvæðum.

15. Útgefin hundaleyfi.

16. Listar frá afgreiðslufundum.

Umhverfismál:

17. Skarfagarður og Skarfabakki í Sundahöfn. Ákvörðun um tillögu að matsáætlun. Lagt fram til kynningar afrit af bréfi Skipulagsstofnunar dags. 7. maí 2002.

18. Skólphreinsistöð við Ánanaust, Skólpa. Lagt fram bréf Gatnamálastofu dags. 26. apríl 2002 ásamt eftirtöldum skýrslum: a. Hegðun og samsetning fráveituvatns í Skólpu 2000 og 2001. Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins, Guðjón Atli Auðunsson, mars 2002. b. Hreinsitöðin Skólpa, Ánanaustum, yfirlit yfir mælingar og skráningar árið 2000. Línuhönnun September 2001. c. Hreinsitöðin Skólpa, Ánanaustum, yfirlit yfir mælingar og skráningar árið 2001. Línuhönnun mars 2002. Sigurður Skarphéðinsson, gatnamálastjóri kom á fundinn.

19. Staðardagskrá 21. Lögð fram eftirtalin skjöl: a. Sameiginleg umhverfisstefna fyrirtækja og stofnana borgarinnar, bréf dags. 17. maí 2002. Nefndin samþykkti erindið með 5 samhljóða atkvæðum. b. Vinnulag og rammi um grænt bókhald fyrir Reykjavík, bréf dags. 17. maí 2002. Nefndin samþykkti erindið með 5 samhljóða atkvæðum. c. Staða Staðardagskrárstarfsins í Reykjavík. Tölfræði og framgangur framvkæmdaáætlana. Maí 2002.

20. Námur. Efnistaka og frágangur. Lögð fram til kynningar skýrsla ýmissa stofnana, apríl 2002.

21. Úlfarsfell, deilskipulag. Kynning. Björn Axelsson, borgarskipulagi, kom á fundinn. Formaður lagði fram svohljóðandi tillögu: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd áréttar við Skipulags- og byggingasvið að þegar verði hafist handa við mótun skipulags fyrir útivistarsvæði í Úlfarsárdal og að það skipulag verði klárað áður en lokið verður við skipulag nýrra svæða dalsins.” Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

22. Suðurgötukirkjugarður, deiliskipulag. Kynning. Björn Axelsson, borgarskipulagi, kom á fundinn. Nefndin samþykkti með 5 samhljóða atkvæðum að gera ekki athugasemdir við tillöguna.

23. Kartöflugarðar við Korpúlfsstaði. Lögð fram á ný tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarráði 23. apríl 2002. Lögð fram umsögn Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 2. maí 2002. Nefndin samþykkti umsögnina með 5 samhljóða atkvæðum.

24. Umsjón og uppbygging svæða á Græna treflinum. Lögð fram umsögn Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 21. maí 2002. Frestað. 25. Tillaga að þingsályktun um óhreyfð skip í höfnum o.fl. Lögð fram til kynningar beiðni Umhverfisnefndar Alþingis dags. 2. maí 2002 um umsögn ásamt umsögn Umhverfis- og heilbrigðisstofu.

26. Skrúðgarður við Gufunesbæ. Lögð fram á ný tillaga Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, svohljóðandi: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Rekjavíkur samþykkir að beina því til borgarráðs að unnin verði tillaga að skrúðgarði á svæði við Gufunesbæinn gegnt Gylfaflöt.” Greinargerð fylgir tillögunni. Formaður lagði fram svohljóðandi tillögu um málsmeðferð: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd tekur undir nauðsyn þess að fallegum skrúðgarði verði fundinn staður í Grafarvogi og beinir því til Skipulags- og byggingarsviðs að tillaga að slíkum garði verði unnin hið fyrsta. Í þeirri vinnu komi til skoðunar meðfylgjandi tillaga Guðlaugs Þórs Þórðarsonar ásamt eldri tillögu Guðrúnar Erlu Geirsdóttur um sama málefni.” Tillaga formanns var samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum. Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram svohljóðandi bókun: “Um leið og ég vil þakka fyrir jákvæð viðbrögð við tillögu minni vil ég vekja athygli á að ekki er um sambærilegar tillögur að ræða. Ágæt tillaga Guðrúnar Erlu gerir ráð fyrir litlum skrúðgarði í tengslum við útilistaverk og hefur staðsetningin oftast verið miðuð við Spöngina. Tillaga mín felur í sér stóran útivistargarð ekki ósvipaðan Hljómskálagarðinum eða Miklatúninu og tel ég það vel koma til greina að tengja hann saman við íþróttasvæði sem gæti verið byggt upp samhliða. Grafarvogurinn er stórt hverfi og mun stækka mjög mikið á næstu árum. Það er nauðsynlegt að hafa þar til staðar stóran garð sem að fólk getur notað árið um kring. Ástæðan fyrir því að ég nefndi svæðið við Gufunesbæinn er að ég get ekki séð annað svæði sem er nógu stórt til að bera slíkan garð en sjálfsagt er að skoða önnur svæði og sömuleiðis að kanna með skipulegum hætti kosti og galla þessarar staðsetningar. T.d. þarf augljóslega að huga strax að samgöngum gangandi fólks við svæðið þar sem að öflugari umferðaræðar munu verða nálægt þessu svæði í framtíðinni.”

27. Tenging Brekkugarðs við umhverfið. Lögð fram á ný tillaga Guðlaugs Þórss Þórðarsonar, svohljóðandi: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd samþykkir að fela starfsmönnum Garðyrkjudeildar að koma fram með tillögur um betri tengingu Bakkagarðs við umhverfið í Grafarvogsbotni, með það að markmiði að nýta svæðið betur sem útivistarsvæði í þágu almennings.” Greinargerð fylgir tillögunni. Nefndin samþykkti tillöguna með 5 samhljóða atkvæðum.

28. Plöntun trjáa austast í Laugardalnum. Lögð fram á ný tillaga Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, svohljóðandi: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd samþykkir að fela Garðyrkjustjóra að planta trjám umhverfis opið svæði austast í Laugardalnum. Um er að ræða svæði þar sem R-listinn hugðist heimila byggingu stórhýsa í andstöðu við þorra Reykvíkinga.” Formaður lagði fram svohljóðandi frávísunartillögu: “Þar sem ekki liggur fyrir skipulag þessa svæðis telur nefndin ekki ráðlegt að svo stöddu að leggja til plöntun trjáa á því og er því tillögunni vísað frá.“ Frávísunartillaga formanns var samþykkt með 3 atkvæðum gegn 1. Einn sat hjá. Ólafur F. Magnússon lagði fram svohljóðandi bókun: “Tillaga Guðlaugs Þórs Þórðarsonar er að mínu mati ekki nógu heildstæð til að samþykkja hana án frekari athugunar á skipulagi svæðisins austast í Laugardalnum. Jafnframt vil ég minna á að sumarið 1999 fór fram undirskriftasöfnun gegn byggingarframkvæmdum í Laugardal undir heitinu “Verndum Laugardalinn”. Upphafsmaður þeirra undirskriftarsöfnunar var Stefán H. Aðalsteinsson, einn frambjóðenda F-lista frjálslyndra og óháðra við borgarstórnarkosningarnar 25. maí s.l.” Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram svohljóðandi bókun: “Ástæðan fyrir að tillagan er fram borin er einmitt sú að svæðið er ekki skipulagt og óvíst hvenær skipulagi á þessu svæði líkur. Nú þegar nýtir fólk sér þetta svæði til leikja og slík notkun myndi aukast til muna ef að svæðið yrði lokað af með trjám. Á góðvirðisdögum er Laugardalurinn fullur af fólki og það er tvímælalaust eftirspurn eftir opnu svæði þar sem að hægt er að leika sér t.d í boltaíþróttum, svifdiskum eða öðru sambærilegu. Hér er um að ræða ódýra leið til að gera lífið í borginni skemmtilegra.”

29. Fjarlæging stíflu í Úlfarsá. Formaður lagði fram svohljóðandi tillögu: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd beinir því til Umhverfis- og tæknisviðs að hefja undirbúning að því að fjarlægja stíflu- og vatnstökumannvirki Áburðarverksmiðjunnar við Úlfarsá og færa þar árfarveginn í upprunalegt horf. Náið samráð verði haft við Fiskiræktar- og veiðifélag Úlfarsár, Veiðimálastofnun og aðra þá hagsmunaðila, sem að málinu koma. Framkvæmdaáætlun ásamt upplýsingum um kostnað, skipulagsuppdráttum og umsögnum hagsmunaaðila óskast lögð fyrir nefndina á hausti komanda.” Nefndin samþykkti tillöguna með 5 samhljóða atkvæðum.

30. Norðlingaholt, - ákoma næringarefna. Lögð fram til kynningar skýrsla Hönnunar, apríl 2002: “Samanburður á ástandi nú og eftir þéttingu byggðar.”

31. Slys við Krosshamra, Grafarvogi. Lagt fram bréf Íbúasamtaka Grafarvogs, dags. 29. maí 2002. Nefndin samþykkti tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, með 5 samhljóða atkvæðum, að vísa erindinu til meðferðar Umhverfis- og heilbrigðisstofu.

32. Svæði skáta við Logafold. Guðlaugur Þór Þórðarson óskaði eftir greinargerð um frágang svæðisins á næsta fund nefndarinnar.

33. Notkun húsnæðis OR að Jaðri. Kolbeinn Ó. Proppé lagði fram svolhjóðandi tillögu: “Umhverfis- og heilbrigðisstofu er falið að kanna fyrirhugaða notkun, ef einhver er, á Jaðri, samkomuhúsi OR. Ráðamönnum OR verði gerð grein fyrir þeim takmörkunum sem starfseminni á Jaðri eru settar skv. samþykkt um vatnsverndarsvæði, ef þurfa þykir.” Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

Formaður gat þess, að þetta væri síðasti fundur þessarar nefndar. Hann þakkaði samnefndarmönnum og embættismönnum frábært og skemmtileg samstarf og samvinnu við afgreiðslu mála. Ólafur F. Magnússon og Guðlaugur Þór Þórðarson tóku undir þakkir formanns og þökkuðu honum góða og réttláta fundarstjórn. Fundarritari þakkaði nefndarmönnum samstarfið fyrir hönd embættismanna.

Fundi slitið kl. 14.55

Hrannar B. Arnarsson
Kolbeinn Ó. Proppé
Ólafur F. Magnússon
Jóhanna Þórdórsdóttir
Guðlaugur Þór Þórðarson
Ragnheiður Héðinsdóttir