Heilbrigðisnefnd - 90. fundur

Heilbrigðisnefnd

UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND

Ár 2002, fimmtudaginn 14. febrúar kl. 12.00 var haldinn 90. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Hrannar B. Arnarsson, Sólveig Jónasdóttir, Kolbeinn Proppé, Ragnheiður Héðinsdóttir,sem vék af fundi kl. 14.05, Ólafur F. Magnússon og Guðlaugur Þór Þórðarson. Enn fremur sátu fundinn Hjalti Guðmundsson, sem vék af fundi kl. 12.50, Þórólfur Jónsson, Rögnvaldur Ingólfsson, sem vék af fundi kl. 13.30, Lúðvík E. Gústafsson, sem vék af fundi kl. 14.20, Rósa Magnúsdóttir, sem vék af fundi kl. 13.35, Ellý K. Guðmundsdóttir, Stefán Hermannsson og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

Heilbrigðismál:

1. Gæði súrmatar á höfuðborgarsvæðinu. Lögð fram til kynningar skýrsla heilbrigðiseftirlitanna á höfuðborgarsvæðinu um gæði súrmatar 2002. Rögnvaldur Ingólfsson kynnti.

2. Könnun á sölu tóbaks. Lögð fram til kynningar niðurstaða könnunar á sölu tóbaks til yngri en 18 ára, sem framkvæmd var í janúar 2002. Rósa Magnúsdóttir kynnti. Svohljóðandi bókun var samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum: “Nefndin fagnar þeim mikla árangri, sem náðst hefur með minnkun tóbakssölu til barna yngri en 18 ára, úr 58% í nóvember árið 2000 niður í 14% í janúar á þessu ári. Nefndin þakkar starfsfólki Umhverfis- og heilbrigðisstofu, ÍTR og söluaðlum fyrir þeirra framlag í þessum árangri.”

3. Drög að skýrslu vinnuhóps um innra eftirlit og framkvæmdaáætlun um átak vegna innleiðingar innra eftirlits. Lagt fram bréf Hollustuverndar ríkisins dags. 25. janúar 2002. Enn fremur lagt fram bréf Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 12. febrúar 2002. Rögnvaldur Ingólfsson kynnti. Frestað.

4. Útgefin hundaleyfi.

5. Listar frá afgreiðslufundum.

Umhverfismál:

6. Aðalstræti 16. Kynning á deiliskipulagi. Anna Margrét Guðjónsdóttir, menningarfulltrúi, kynnti. Guðný Gerður Gunnarsdóttir, borgarminjavörður, kom á fundinn. Ólafur F. Magnússon lagði fram svohljóðandi bókun: “Þær tillögur, sem nú liggja fyrir eru til verulegra bóta miðað við fyrri tillögur. Þannig hefur verið rýmkað verulega í kring um fornminjarnar við Aðalstræti og komið til móts við gagnrýni mína á fyrri áætlanir, sbr. tillöguflutning minn í borgarstjórn 15. nóvember s.l. Framhald þessa máls hlýtur að ráðast af því, sem finnst við fornleifauppgröft í Víkurkirkjugarði.” Nefndin samþykkti svohljóðandi umsögn með 2 samhljóða atkvæðum. Kolbeinn Proppé sat hjá með vísun til efnisraka í bókun Ólafs F. Magnússonar og Guðlaugur Þór Þórðarsona sat hjá með tilvísun í fyrri bókanir Sjálfstæðismanna um málið: “Nefndin gerir ekki athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi Víkurgarðs, en ítrekar nauðsyn þess að allar framkvæmdir verði unnar í nánu samstarfi við Umhverfis- og heilbrigðisstofu.”

7. Mæling á mengun í Eiðsvík. Lögð fram á ný skýrsla gatnamálastjóra. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga Guðlaugs Þórs Þórðarsonar: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd samþykkir að setja upp merkingar á þeim fjörum, þar sem mengun er umfram viðmiðunarmörk. Einnig er hvatt til aukinna mælinga í Eiðsvík og Hamrahverfi í Grafarvogi.” Enn fremur lagt fram bréf gatnamálastjóra dags. 14. febrúar 2002 um meðferð málsins. Sigurður Skarphéðinsson, gatnamálastjóri kom á fundinn. Nefndin samþykkti tillöguna með 5 samhljóða atkvæðum og felur jafnframt Umhverfis- og heilbrigðisstofu framkvæmd hennar í samræmi við bréf gatnamálastjóra.

8. Umferð og geymsla kjarnorku, efna- og sýklavopna í Reykjavík. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga Kolbeins Proppé: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd vísar því til borgarstjórnar að samþykkt verði að borgarlandið verði friðlýst fyrir umferð og geymslu kjarnorku- efna- og sýklavopna, í samræmi við samþykktina Abolition 2000 fyrir sveitarfélög.” Tillögunni fylgir greinargerð. Tillagan, svo breytt, var samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd vísar því til borgarstjórnar að samþykkt verði að borgarlandið verði friðlýst fyrir umferð og geymslu kjarnorku- efna- og sýklavopna.” 9. Fyrirspurn – reiðvegur milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur. Lögð fram á ný svohljóðandi fyrirspurn Guðlaugus Þórs Þórðarsonar: “Er það rétt að reiðvegur á milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur, er lá í gegn um Grafarholt, hafi verið rofinn? Ef svo er, hvaða áætlanir eru uppi um reiðvegi á þessu svæði?” Lagt fram bréf gatnamálastjóra dags. 13. febrúar 2001 með svari við fyrirspurninni.

10. Tröllafoss í Leirvogsá – friðlýsing. Lagt fram til kynningar bréf borgarstjóra dags. 22. janúar 2002.

11. Strenglögn OR við Korpu. Lagt fram bréf Orkuveitu Reykjavíkur ódags. Nefndin samþykkti með 5 samhljóða atkvæðum, að gera ekki athugasemdir við erindið.

12. Bílastæðishús í Tjörninni. Umhverfisrannsóknir – kynning. Sigurður Ragnarsson, Línuhönnun, kom á fundinn og kynnti hugmyndir um framkvæmdina. Sólveig Jónasdóttir lagði fram svohljóðandi bókun: “Ég vara við tillögum um framkvæmd og röskun á Tjarnarsvæðinu vegna bílastæðishúss undir Tjörninni. Tillögurnar stangast algjörlega á við umræður um Tjarnarsvæðið í seinni tíð, s.s. hugmyndir um friðlýsingu vesturbakkans og verndun fuglalífs. Ég vil ennfremur mótmæla þeim vinnubrögðum, að umhverfismálin verði afgreidd með skipulagstillögunni, en ekki farið í sérstakt umhverfismat. Þá óska ég eftir upplýsingum um áhrif á fuglalíf á Tjörninni og lífríki hennar, hver voru áhrif byggingar Ráðhússins á sínum tíma og upplýsingum um nýtingu bílastæðahúsa í miðborginni.”

13. Framtíðarsýn um Viðey og aðrar eyjar á Sundum. Lögð fram til kynningar umsögn menningarmálanefndar.

14. Undir Esjunni – opið þing um vistvæna byggð. Lögð fram til kynningar greinargerð um þingið dags. 26. janúar 2002.

15. Bláfjallanefnd. Lögð fram til kynningar fundargerð Bláfjallanefndar dags. 11. febrúar 2002.

16. Umsjón grænna svæða. Lagt fram bréf Skógræktarfélags Reykjavíkur dags. 13. febrúar 2002. Erindinu var vísað til meðferðar Umhverfis- og heilbrigðisstofu.

Fundi slitið kl. 14.25.

Hrannar B. Arnarsson
Sólveig Jónasdóttir
Ólafur F. Magnússon
Kolbeinn Proppé
Guðlaugur Þór Þórðarson
Ragnheiður Héðinsdóttir