Heilbrigðisnefnd - 89. fundur

Heilbrigðisnefnd

UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND

Ár 2002, fimmtudaginn 24. janúar kl. 12.00 var haldinn 89. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Hrannar B. Arnarsson, Ragnheiður Héðinsdóttir, Ragnhildur Helgadóttir, Kolbeinn Proppé, sem kom á fundinn kl. 12.25, Guðlaugur Þór Þórðarson og Ólafur F. Magnússon. Enn fremur sátu fundinn Hjalti Guðmundsson, Einar B. Bjarnason, Þórólfur Jónsson, Ólafur Bjarnason, Rögnvaldur Ingólfsson, sem vék af fundi kl. 13.05, Stefán Hermannsson, sem vék af fundi kl. 12.35 og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Skipurit Umhverfis- og heilbrigðisstofu. Lagt fram bréf Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 22. janúar 2002 ásamt tillögu að skipuriti og fylgiskjali. Erindi Umhverfis- og heilbrigðisstofu var samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Heilbrigðismál:

2. Skýrsla ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur um matvælaeftirlit. Lagt fram á ný bréf forsætisráðuneytisins dags. 5. desember 2001 ásamt skýrslunni “Framtíðarskipan opinbers matvælaeftirlits”. Enn fremur lögð fram á ný umsögn Heilbrigðiseftirlitsins dags. 31. desember 2001 og ályktun Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi dags. 8. janúar 2002.

3. Könnun á örverufræðilegum gæðum matvæla úr salatbörum verslana. Lögð fram til kynningar skýrsla matvælaeftirlits, janúar 2002. Ágúst Thorstensen, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn og kynnti skýrsluna.

4. Leiðbeinandi reglur um klakavélar. Lagðar fram til kynningar. Helga Guðrún Bjarnadóttir, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn og skýrði reglurnar.

5. Úttekt á umgengnis- og sorpmálum veitinga- og kaffihúsa í miðbæ Reykjavíkur. Lögð fram til kynningar áætlun um verkefnið. Helga Guðrún Bjarnadóttir, heilbrigðisfulltrúi, kynnti verkefnið. Formaður lagði fram svohljóðandi tillögu, sem var samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum: “Í samræmi við starfsáætlun ársins samþykkir Umhverfis- og heilbrigðisnefnd að hefja átak til að bæta umgengni og meðhöndlun sorps við veitinga- og kaffihús í miðbæ Reykjavíkur. Átakið verði unnið í samræmi við meðfylgjandi erindi Umhverfis- og heilbrigðisstofu og framgangur þess kynntur með reglulegum hætti í nefndinni.”

6. Umhverfisviðurkenning Reykjavíkur 2002. Í undirbúningsnefnd voru kosin Helga Jóhannsdóttir, Kolbeinn Proppé og Ragnhildur Helgadóttir.

7. Mengunaróhöpp í Reykjavík árið 2001. Lögð fram skýrsla til kynningar. Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, kynnti skýrsluna.

8. Selásland og Baldurshagaland. – Byggingar og tilheyrandi lóðir á vatnsverndarsvæði. Lögð fram skýrsla mengunarvarna janúar 2002. Frestað.

9. Útgefin hundaleyfi.

10. Listar frá afgreiðslufundum.

Umhverfismál:

11. Umsjón og uppbygging svæða á Græna treflinum. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd samþykkir að Garðyrkjustjóra verði falið að kanna áhuga Skógræktarfélags Reykjavíkur á umsjón og uppbyggingu svæða á hinum svokallaða Græna trefli. Í framhaldinu yrði gerður samningur við félagið sem væri sambærilegur við samning Reykjavíkurborgar og félagsins um Heiðmörk.” Tillögunni fylgdi greinargerð. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Reykjavíkurlista: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd felur Umhverfis- og heilbrigðisstofu að kanna forsendur og möguleika þess að einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum verði falin frekari umsjón með grænum svæðum í borgarlandinu. Athugunin taki m.a. til reynslunnar af slíku samstarfi, fjárhagslegra og faglegra þátta auk þess sem áhugi á slíku samstarfi yrði kannaður. Niðurstöður verði lagðar fyrir nefndina ásamt tillögum um hvernig best verði staðið að uppbyggingu þess konar samstarfs í umhverfismálum milli Umhverfis- og heilbrigðisstofu og borgarbúa, reynist það fýsilegt. Eins og tillaga þessi ber með sér lýtur hún einnig að mögulegu auknu samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur og því er tillögu fulltrúa D-lista vísað frá.” Tillögunni fylgdi greinargerð. Frávísunartillagan var samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum. Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram svohljóðandi bókun, sem er samhljóða bókun hans á fundi nefndarinnar hinn 8. febrúar 2001: “Þetta er enn eitt dæmið um furðuleg vinnubrögð R-listans. Hér var lögð fram tillaga sem fulltrúar R-listans eru efnislega sammála, en geta ekki samþykkt tillöguna án þess að umorða hana. Undirritaður fagnar því að tillagan sé samþykkt, en lýsir yfir stakri furðu á þessum vinnubrögðum, sem því miður eru ekki einsdæmi.” “Kosturinn við barnaleg vinnubrögð meirihlutans er, að hægt er að nota sömu bókunina aftur og aftur.”

12. Öskjuhlíð-Leynimýri. Lagt fram á ný bréf borgarskipulags Reykjavíkur dags. 18. desember 2001. Björn Axelsson, borgarskipulagi, kom á fundinn. Formaður lagði fram svohljóðandi tillögu, sem var samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum: “Nefndin gerir ekki athugsemdir við umrædda landnotkunarbreytingu en áréttar að frekari útfærsla á deiliskipulagi duftgarðsins, þar em tekið verður á samspili hans við fyrirhugað votlendissvæði og hverfisvernd þess, þarf að bera undir nefndina sérstaklega.”

13. Norðlingaholt – deiliskipulag. Ólafur Bjarnason kynnti á ný tillögu að deiliskipulagi. Formaður lagði fram svohljóðandi umsögn, sem var samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum: Nefndin fagnar áorðnum breytingum, þar sem tekið er tillit til fyrri athugasemda nefndarinnar um aukið helgunarsvæði á flóðasvæðum Bugðu og færslu bensínstöðvar af vatnsverndarsvæði. Nefndin gerir ekki frekari athugasemdir við skipulagið en ítrekar að áfram verði leitast við að halda gatnamótum við Bugðu utan helgunarsvæðis árinnar.” Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram svohljóðandi bókun: “Undirritaður vill setja fyrirvara við umferðartengingar við hverfið.”

14. Aðalstræti 16. Ólafur Bjarnason kynnti tillögu að deiliskipulagi og varðveislu fornminja. Frestað.

15. Skólpdælustöð í Gufunesi. Kynning á skipulagi. Sigurður Skarphéðinsson, gatnamálastjóri, kom á fundinn. Nefndin samþykkti með 5 samhljóða atkvæðum að gera ekki athugasemd við tillöguna. Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram svohljóðandi bókun: “Þessi afgreiðsla sýnir, svo ekki verður um villst, að engin þörf var á að fresta framkvæmdum eins og ákveðið var af meirihluta nefndarinnar í haust. Mikið liggur á að bæta úr núverandi ástandi, ef marka má könnun mengunarvarna Umhverfis- og heilbrigðisstofu. Samkvæmt henni er mengun langt umfram skilgreind viðmiðunarmörk í fjörum á þessu svæði” Formaður lagði fram svohljóðandi bókun: “Frestunin var vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á skipulagi Gufunessvæðisins við mögulegt brotthvarf Áburðarverksmiðjunnar. Við þá endurskoðun var m.a. ákveðið að breyta legu útrásar dælustöðvarinnar. Þó tekið sé undir mikilvægi þess að hraða þessum síðasta þætti í hreinsun strandlengjunnar var umrædd frestun því óhjákvæmileg. Rétt er síðan að benda á að ef mark er takandi á tillöguflutningi sjálfstæðismanna um niðurskurð framkvæmda, andstöðu þeirra við holræsagjald og fyrri framistöðu þeirra við hreinsun strandlengjunnar, mætti vænta þess að þessi 20 ára gamla skolplögn, sem lögð var í tíð Sjálfstæðismanna, hefði legið óbreytt um ókomna áratugi.” Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram svohljóðandi bókun: “Sjálfstæðismenn stóðu myndarlega að hreinsun strandlengjunnar á sínum tíma og var Reykjavík þar með í forystu sveitarfélaga hér á landi á því sviði. Vegna umræddrar frestunar skal það tekið fram, að bæði í Umhverfis- og heilbrigðisnefnd og hverfisnefnd Grafarvogs var á það bent, að skynsamlegt væri að halda sig við upphaflega staðsetningu skólpdælustöðvarinnar. Nú liggur það fyrir, að sú er raunin, en þær ástæður, sem tilgreindar eru í bókun meirihlutans notaðar sem ástæður fyrir frestun. Niðurstaðan er sem sé sú, að ef áhugi hefi verið fyrir því að halda sig við upphaflega áætlun, hefði það verið gert.”

16. Friðun trjáa í Reykjavík. Lagt fram bréf byggingarfulltrúans í Reykjavík dags. 11. janúar 2002. Enn fremur lögð fram umsögn garðyrkjustjóra dags. 21. janúar 2002. Nefndin samþykkti umsögn garðyrkjustjóra með 5 samhljóða atkvæðum.

17. Ráðstefna um EES-samninginn og íslensk sveitarfélög. Lagt fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 11. janúar 2002.

18. Mæling á mengun í Eiðsvík. Lögð fram skýrsla gatnamálastjóra. Sigurður Skarphéðinsson, gatnamálastjóri, kynnti. Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram svohljóðandi tillögu: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd samþykkir að setja upp merkingar á þeim fjörum, þar sem mengun er umfram viðmiðunarmörk. Einnig er hvatt til aukinna mælinga í Eiðsvík og Hamrahverfi í Grafarvogi.” Frestað.

19. Íbúaþing á Kjalarnesi. Hjalti Guðmundsson kynnti dagskrá.

20. Ráðstefna um staðardagskrá. Hjalti Guðmundsson kynnt fyrirhugaða ráðstefnu.

21. Staðardagskrá 21. Hjalti Guðmundsson kynnti umhverfisvefinn, áætlanir um grænt bókhald og umhverfisáætlun stofnana og fyrirtækja borgarinnar. Lögð voru fram 3 bréf staðardagkrárfulltrúa dags. 24. janúar 2002 varðandi umhverfisáætlanir stofnana og fyrirtækja borgarinnar, drög að mælikvörðum um sjálfbæra þróun (grænt bókhald) fyrir Reykjavík og Umhverfisvef Reykjavíkur.

22. Sorpa, rekstraráætlun. Lögð fram til kynningar.

23. Umhverfisskýrsla Orkuveitu Reykjavíkur árið 2000. Lögð fram til kynningar.

24. Æfingasvæði Vélhjólaíþróttaklúbbsins. Lagt fram bréf Landssambands hestamanna dags. 17. janúar 2002. Nefndin samþykkti með 5 samhljóða atkvæðum að vísa erindinu til borgarskipulags og telur rétt að samráð verði haft við hestamenn um nánari afgreiðslu málsins.

25. ICLEI – aðild. Lagt fram til kynningar bréf borgarstjóra dags. 15. janúar 2002 þar sem fram kemur að aðild var samþykkt í borgarráði 15. janúar s.l.

26. Samþykkt um hundahald í Reykjavík. Lagt fram til kynningar afrit af bréfi Umhverfisráðuneytisins dags. 17. janúar 2002, þar sem fram kemur að ráðuneytið hefur staðfest nýja samþykkt.

27. Náttúrulífsmynd um lífríki Leirvogsár og Úlfarsár. Lagt fram bréf dags. 22. janúar 2002. Nefndin samþykkti með 5 samhljóða atkvæðum að vísa erindinu til borgarráðs.

28. Talning á notkun nagladekkja. Lagt fram yfirlit um talningar á árinu 2001. Sigurður Skarphéðinsson, gatnamálastjóri kynnti.

29. Ráðstefna ICLEI í Osló 9.-12. febrúar 2002. Lögð fram dagskrá til kynningar. Nefndin samþykkti að senda 2 fulltrúa á ráðstefnuna.

30. Umferð og geymsla kjarnorku, efna- og sýklavopna í Reykjavík. Kolbeinn Proppé lagði fram svohljóðandi tillögu: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd vísar því til borgarstjórnar að samþykkt verði að borgarlandið verði friðlýst fyrir umferð og geymslu kjarnorku- efna- og sýklavopna, í samræmi við samþykktina Abolition 2000 fyrir sveitarfélög.” Tillögunni fylgir greinargerð. Frestað.

31. Fyrirspurn – reiðvegur milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur. Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram svohljóðandi fyrirspurn: “Er það rétt að reiðvegur á milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur, er lá í gegn um Grafarholt, hafi verið rofinn? Ef svo er, hvaða áætlanir eru uppi um reiðvegi á þessu svæði?”

Fundi slitið kl. 14.35.
Hrannar B. Arnarsson
Kolbeinn Proppé
Ólafur F. Magnússon
Ragnhildur Helgadóttir
Guðlaugur Þór Þórðarson
Ragnheiður Héðinsdóttir