Heilbrigðisnefnd - 88. fundur

Heilbrigðisnefnd

UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND Ár 2002, fimmtudaginn 10. janúar kl. 12.00 var haldinn 88. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Hrannar B. Arnarsson, Sólveig Jónasdóttir, Kolbeinn Proppé, Ragnheiður Héðinsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Ólafur F. Magnússon, sem kom á fundinn kl. 12.30. Enn fremur sátu fundinn Ólafur Bjarnason, sem vék af fundi kl. 13.00, Stefán Hermannsson, sem vék af fundi kl. 12.40, Hjalti Guðmundsson, Þórólfur Jónsson, Ellý Guðmundsdóttir og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Umhverfis- og heilbrigðisstofa. Formaður bauð nýjan forstöðumann Umhverfis- og heilbrigðisstofu. Ellý Guðmundsdóttur, velkomna til starfa. Ellý gerði grein fyrir starfinu, sem framundan er. Umhverfismál:

2. Tröllafoss í Leirvogsá – friðlýsing. Lagt fram á ný bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 27. nóvember 2001. Enn fremur lagt fram bréf garðyrkjustjóra dags. 7. janúar 2002. Fulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram svohljóðandi tillögu: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd tekur undir umsögn garðyrkjustjóra og lýsir sig fylgjandi friðlýsingu Tröllafoss, eins og hún kemur fram í drögum að auglýsingu umhverfismálaráðherra. Nefndin bendir hins vegar á að enn á eftir að ná nauðsynlegri sátt við landeigendur um málið auk þess sem eðlilegt hefði verið að skoða friðlýsinguna í samræmi við tillögur Reykjavíkurborgar um stofnun fólkvangs á 100-250 m belti umhverfis Leirvogsá og Úlfarsá. Nefndin ítrekar af þessu tilefni óskir sínar um að Mosfellsbær taki afstöðu til þeirra tillagna hið fyrsta.” Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

3. Framtíðarsvæði Vélhjólaíþróttaklúbbs Reykjavíkur Lagt fram á ný bréf Vélhjólaíþróttaklúbbsins dags. 17. september 2001 ásamt umsögn garðyrkjustjóra dags. 7. desember 2001. Enn fremur lagt fram bréf Vélhjólaíþróttaklúbbsins, ódags. Formaður lagði fram svohljóðandi tillögu að umsögn: “Nefndin gerir ekki athugasemd við að VIK verði heimiluð notkun svæðisins til bráðabirgða og í samræmi við umsögn gatnamálastjóra og garðyrkjustjóra, en áfram verði leitað leiða til að finna eitt sameiginlegt svæði fyrir slíka starfsemi á Höfuðborgarsvæðinu.” Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

4. Göngustígaframkvæmdir í Víðidal. Lögð fram á ný tillaga fulltrúa D-lista svohljóðandi: “Fulltrúar Sjáflstæðisflokksins leggja til að endurskoðaðar verði strax göngustígaframkvæmdir í nálægð við hesthúsabyggð í Víðidal með það að markmiði að skilja í sundur eins og kostur er umferð hesta og fótgangandi/hjólandi. Við endurskoðun skal hafa samráð við Hestamannafélagið Fák og Íslenska fjallahjólaklúbbinn.” Enn fremur lagt fram bréf gatnamálastjóra, dags. 9. janúar 2002 ásamt fylgiskjölum og bréf gatnamálastjóra til borgarráðs, dags. 17. desember 2001 ásamt fylgiskjölum. Sigurður I. Skarphéðinsson, gatnamálastjóri, kom á fundinn. Fulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram svohljóðandi tillögu: “Eins og fram kemur í greinargerð gatnamálastjóra eru framkvæmdir við göngu- og hjólreiðarstíga í nálægð við hesthúsabyggð í Víðidal að mestu um garð gengnar og þær unnar í samræmi við samþykkt Aðalskipulag Reykjavíkur. Tillögu fulltrúa D-lista um tafarlausa endurskoðun framkvæmdanna er því vísað frá, en því beint til gatnamálastjóra að öllum öryggisráðstöfunum sem fram koma í greinargerð hans verði fylgt fast eftir og fullt samráð verði haft við hagsmunaaðila á svæðinu um mat á árangri þeirra og hugsanlegar betrumbætur. Hestamenn og göngu- og hjólreiðafólk verður að geta ferðast um stígana þannig að fyllsta öryggis sé gætt.” Samþykkt með 3 atkvæðum gegn 1. Ólafur F. Magnússon sat hjá.

5. Umsjón og uppbygging svæða á Græna treflinum. Lögð fram ná ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd samþykkir að Garðyrkjustjóra verði falið að kanna áhuga Skógræktarfélags Reykjavíkur á umsjón og uppbyggingu svæða á hinum svokallaða Græna trefli. Í framhaldinu yrði gerður samningur við félagið sem væri sambærilegur við samning Reykjavíkurborgar og félagsins um Heiðmörk.” Tillögunni fylgir greinargerð. Fulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram svohljóðandi tillögu: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd felur Umhverfis- og heilbrigðisstofu að kanna forsendur og möguleika þess að einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum verði falin frekari umsjón með grænum svæðum í borgarlandinu. Athugunin taki m.a. til reynslunnar af slíku samstarfi, fjárhagslegra og faglegra þátta auk þess sem áhugi á slíku samstarfi yrði kannaður. Niðurstöður verði lagðar fyrir nefndina ásamt tillögum um hvernig best verði staðið að uppbyggingu þess konar samstarfs í umhverfismálum milli Umhverfis- og heilbrigðisstofu og borgarbúa, reynist það fýsilegt. Eins og tillaga þessi ber með sér lýtur hún einnig að mögulegu auknu samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur og því er tillögu fulltrúa D-lista vísað frá.” Tillögunni fylgir greinargerð. Frestað.

6. Fundargerðir Bláfjallanefndar. Lagðar fram til kynningar fundargerðir Bláfjallanefndar 12. nóvember, 8. desember, 9. desember og 10. desember 2001.

7. Öskjuhlíð-Leynimýri. Lagt fram bréf borgarskipulags Reykjavíkur dags. 18. desember 2001. Björn Axelsson, borgarskipulagi, kom á fundinn og lagði fram uppdrætti. Frestað.

8. Norðlingaholt – deiliskipulag. Kynnt ný tillaga að deiliskipulagi. Ólafur Bjarnason og Stefán Hermannsson gerðu grein fyrir tillögunni. Frestað.

9. Alþjóðlegu umhverfissamtökin ICLEI. Lagt fram minnisblað staðardagskrárfulltrúa dags. 10. janúar 2001. Formaður lagði fram svohljóðandi tillögu: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd samþykkir að beina því til borgarráðs að Reykjavíkurborg gerist aðili að alþjóðlegu umhverfissamtökunum ICLEI (International Council for Local Einvironmetal Initatives”). Eins og fram kemur í minnisblaði staðardagskrárfulltrúa þá er það vel þekkt meðal sveitarstjórnarmanna og þeirra sem starfa að umhverfismálum sveitarfélaga í Evrópu, að aðild að ICLEI gefur sveitarfélögunum marvíslega möguleika og undirstrikar vilja þeirra til að stuðla að sjálfbærri þróun. Umhverfis- og heilbrigðisnefnd telur mikilvægt að Reykjavíkurborg og þar með nýstofnuð Umhverfis- og heilbrigðisstofa geti nýtt sér þá fjölmörgu kosti sem aðild að ICLEI fylgja, ekki síst í ljósi þeirra metnaðarfullu markmiða sem fram koma í Umhverfisáætlun borgarinnar – staðardagskrá 21.” Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

Heilbrigðismál:

10. Áminning skv. 26. gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Lögð fram til kynningar 1 áminning.

11. Starfsleyfi Reykjavíkurflugvallar. Lagðar fram athugsemdir við drög að starfsleyfi ásamt greinargerð og tillögum Heilbrigðiseftirlitsins. Lúðvík E. Gústafsson, sviðstjóri og Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, komu á fundinn og gerðu grein fyrir tillögu Heilbrigðiseftirlitsins. Tillagan var samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.

12. Skýrsla ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur um matvælaeftirlit. Lagt fram á ný bréf forsætisráðuneytisins dags. 5. desember 2001 ásamt skýrslunni “Framtíðarskipan opinbers matvælaeftirlits”. Enn fremur lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlitsins dags. 31. desember 2001. Rögnvaldur Ingólfsson, sviðstjóri, kom á fundinn. Hrannar B. Arnarsson, Kolbeinn Proppé, Sólveig Jónasdóttir og Ólafur F. Magnússon, lögðu fram svohljóðandi bókun: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur lýsir óánægju með að ekki var haft samráð við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna við gerð skýrslu ráðgjafanefndar um opinberar eftirlitsreglur um framtíðarskipan opinbers matvælaeftirlits sem gerð var opinber nýlega. Ekki var við gerð skýrslunnar leitað upplýsinga frá sveitarfélögunum um matvælaeftirlit þeirra og því koma fram fullyrðingar og skoðanir um matvælaeftirlitið sem eru rangar og illa rökstuddar. Nefndin telur óásættanlegt að leggja grunn að nýrri skipan matvælaeftirlits í landinu á grundvelli skýrslu ráðgjafanefndar um opinberar eftirlitsreglur vegna þess hve villandi þær upplýsingar eru sem fram koma í skýrslunni um núverandi framkvæmd eftirlits sveitarfélaganna. Nefndin telur að með því að skilja matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlitsins frá hollustuhátta- og umhverfiseftirliti muni eftirlitið verða dýrara í framkvæmd. Skörun muni aukast, þannig að flest matvælafyrirtæki myndu þurfa matvælaeftirlit frá ríkinu og hollustuhátta- og umhverfiseftirlit frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga ef af breytingunni verður. Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hvetur ríkið til að sameina stofnanir sínar á sviði matvælaeftirlits undir “hlutlausu ráðuneyti” þannig að stofnanirnar geti sem best gegnt hluverki sínu við samræmingu, yfirumsjón og rannsóknir.” Ragnheiður Héðinsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun: “Í greinargerð og tillögum ráðgjafarnefndar um framtíðarskipan opinbers matvælaeftirlits kemur fram það meginmarkmið að sameina og samræma allt matvælaeftirlit í landinu undir eitt ráðuneyti í þeim tilgangi að gera það sem skilvirkast og hagvkæmast. Einnig er lögð áhersla á mikilvægi þess að kröfur séu allst staðar á landinu túlkaðar á sama hátt. Þetta tel ég vera í samræmi við stefnu atvinnulífsins og þá kröfu að öll fyrirtæki búi við sambærilegar opinberar kröfur hvar sem þau eru á landinu. Þetta meginmarkmið styð ég en áskil mér jafnframt rétt til að taka afstöðu til framkvæmdar áætlunarinnar þegar það verður tímabært.” Frestað.

13. Innflutningur á nautakjöti árið 2001. Lagt fram minnisblað Heilbrigðiseftirlitsins dags. 8. janúar 2002. Rögnvaldur Ingólfsson, sviðstjóri, gerði grein fyrir málinu.

14. Ráðning heilbrigðisfulltrúa á umhverfissviði. Lögð fram tillaga Heilbrigðiseftirlitsins um ráðningu. Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum að ráða Magneu Karlsdóttur og Björgu Rós Guðjónsdóttur sem heilbrigðisfulltrúa á umhverfissviði.

15. Útgefin hundaleyfi.

16. Listar frá afgreiðslufundum.

Fundi slitið kl. 14.55.

Hrannar B. Arnarsson
Kolbeinn Proppé
Ólafur F. Magnússon
Solveig Jónasdóttir
Guðlaugur Þór Þórðarson
Ragnheiður Héðinsdóttir