Heilbrigðisnefnd
UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND
Ár 2001, fimmtudaginn 29. nóvember kl. 08.15 var haldinn 86. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Hrannar B. Arnarsson, Kolbeinn Proppé, Hildigunnur Friðjónsdóttir, Ragnheiður Héðinsdóttir, Helga Jóhannsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Enn fremur sátu fundinn Hjalti Guðmundsson, Þórólfur Jónsson og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
Heilbrigðismál:
1. Mengun af völdum þrávirkra efna. Lagt fram á ný bréf Lyfjafræðistofnunar Háskóla Íslands dags. 15. nóvember 2001 ásamt skýrslu “Þrávirk lífræn efni við nokkra sorphauga á Íslandi. Lúðvík E. Gústafsson, sviðsstjóri, kom á fundinn. Nefndin samþykkti með 6 samhljóða atkvæðum að senda skýrsluna Hverfissamtökum Grafarvogs til kynningar.
2. Áminning skv. 26. gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Lögð fram til kynningar.
3. Uppsögn úr starfi heilbrigðisfulltrúa. Lagt fram bréf Guðrúnar L. Pálmadóttur, heilbrigðisfulltrúa, dags. 19. nóvember 2001.
Umhverfismál:
4. Áætlun skv. 17. gr. reglug. nr. 798/1999. Sundaræsi. Lagt fram á ný bréf gatnamálastjóra dags. 22. nóvember 2001. Lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlitsins dags. 26. nóvember 2001. 5. Framtíðarsýn um Viðey og aðrar eyjar á Sundum. Lagðar fram á ný niðurstöður stýrihóps, “Framtíðarsýn um Viðey og aðrar eyjar á Sundum, 21. nóvember 2001. Frestað.
6. Reynisvatnsheiði, ljósleiðarastrengur. Lagt fram á ný bréf Borgarskipulags dags. 15. nóvember 2001. Lögð fram umsögn garðyrkjustjóra dags. 23. nóvember 2001. Nefndin samþykkti umsögnina með 5 samhljóða atkvæðum.
7. Breyting á sorphirðu. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 13. nóvember 2001.
8. Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024. Lagt fram bréf Borgarskipulags Reykjavíkur dags. 22. nóvember 2001.
Önnur mál:
9. Opnun Hafnarstrætis fyrir umferð í austur. Kolbeinn Ó. Proppé lagði fram svohljóðandi bókun: “Undirritaður mótmælir harðlega þeirri ákvörðun borgarráðs frá 27. þ.m. að opna Hafnarstræti fyrir bílaumferð á ný til austurs. Full ástæða var fyrir lokuninni á sínum tíma, mengun á svæðinu var óásættanleg og bílaumferðin hamlandi fyrir rekstur SVR, en vagnstjórar áttu erfitt með að halda áætlun. Auk þess eru gatnamót Hafnarstrætis og Lækjargötu þröng og aukin umferð dregur úr umferðaröryggi. Það skýtur skökku við að borgaryfirvöld skuli vinna þvert gegn þeirri stefnu, sem samþykkt var í Staðardagskrá 21 fyrr á þessu ári, en þar var skýrt kveðið á um að vinna ætti að því að strætisvagnar fengju forgang í umferðinni. Með umræddri ákvörðun borgarráðs er stefnt í þveröfuga átt. Það ber að harma að svo skammur taími hafi liðið frá því að borgaryfirvöld samþykktu metnaðarfulla áætlun í umhverfismálum þar til að þau brutu þvert gegn henni. Hér er verið að fórna hagsmunum umhverfis og umferðaröryggis fyrir lítt skilgreinda hagsmuni kaupmanna í miðbænum. Borgaryfirvöldum ber að sjá um að meiri hagsmunum sé ekki fórnað fyrir minni og vonandi verður sú raunin í framtíðinni.” Hrannar B. Arnarson lagði fram svohljóðandi bókun: “Það er fráleitt að mínu mati að líta þannig á að umrædd samþykkt sé í andstöðu við Staðardagskrá 21. Forgangur strætó er áfram tryggður með nýjum ljósum í Hafnarstræti, umferð er ekki leyfð um Hafnarstræti upp Hverfisgötu og því er umferðarálag þar, með tilheyrandi mengun, ekki aukið. Þvert á móti tel ég að með því að heimila hægri umferð um þessi gatnamót sé dregið úr óþarfa akstri og því dregið úr mengun og slysahættu í miðbænum. Þá er rétt að benda á að umrædd opnun er hugsuð í tilraunaskyni og verða áhrif hennar því metin að henni lokinni. Verði þau í líkingu við forspá Kolbeins verður að sjálfsögðu brugðist við til samræmis.” Fulltrúar D-lista lögðu fram svohljóðandi bókun: “Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna sinnaskiputum formanns Umhverfis-og heilbrigðisnefndar og R-listans í málefnum Hafnarstrætis.” Kolbeinn Ó. Proppé lagði fram svohljóðandi bókun: “Gatnamótin Hafnarstræti/Lækjargata eru nú lokuð fyrir umferð einkabíla og eingöngu opin fyrir umferð almenningsvagna. Tillaga borgarráðs opnar fyrir umferð einkabíla til hægri inn Lækjargötu. Augljóslega er því verið að skerða forgang strætisvagna, enda mótmælti stjórn Strætó bs. fyrirhugaðri opnun. Augljóslega eykst mengun í Hafnarstræti þegar bílaumferð verður leyfð þar í gegn á ný, þó hún verði sem betur fer minni en fyrir lokun þar sem umferð einkabíla er ekki leyfð upp Hverfisgötu.”
10. Göngustígaframkvæmdir í nálægð hesthúsabyggðar í Víðidal. Fulltrúar D-lista lögðu fram svohljóðandi tillögu: “Fulltrúar Sjáflstæðisflokksins leggja til að endurskoðaðar verði strax göngustígaframkvæmdir í nálægð við hesthúsabyggð í Víðidal með það að markmiði að skilja í sundur eins og kostur er umferð hesta og fótgangandi/hjólandi. Við endurskoðun skal hafa samráð við Hestamannafélagið Fák og Íslenska fjallahjólaklúbbinn.” Fulltrúar D-lista lögðu fram svohljóðandi bókun: “Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins undrast ummæli formanns, þar sem að hann telur að tillaga okkar sjálfstæðismanna sé fyrst og fremst gerð með tilliti til kosninga og þarna séum við að eltast við þrýstihópa úti í bæ. Það sjá allir sem að skoða þetta mál að mjög óskynsamlegt er að beina saman umferð hjólandi fólks og hestaumferð. Eins og kunnugt er þá eru hestar mjög hræddir við reiðhjól og einnig er erfitt fyrir þá að fóta sig á bundnu slitlagi. Þess vegna er mjög brýnt að leiðrétta þessi mistök áður en slys verða. Um þetta mál ætti að vera samstaða í nefndinni.” Formaður lagði fram svohljóðandi bókun: “Ummæli mín um kosningakrampa D-listans hafa ekkert með mögulegt réttmæti þessarar tillögu að gera. Þau ber að skoða í ljósi þess að á síðustu fundum Umhverfis- og heilbrigðisnefndar hefur nefndin samþykkt framkvæmdaáætlanir um stígagerðarframkvæmdir og umhverfi og útivist, án athugasemda D-lista. Skyndilegur vandlætingartónn í garð framkvæmdanna kemur því nokkuð á óvart.” Fulltrúar D-listans lögðu fram svohljóðandi bókun: “Ánægjulegt er að heyra mýkri tón í garð þessarar tillögu frá formanni. Sjálfstæðismenn hafa flutt fjölda tillagna í þessari nefnd og öðrum og munu gera það áfram. Það að pirrast yfir því hvenær tillagan kemur fram er vægast sagt nokkuð sérstakt.”
Fundi slitið kl. 10.10
Hrannar B. Arnarsson
Kolbeinn Ó. Proppé
Guðlaugur Þór Þórðarson
Hildigunnur Friðjónsdóttir
Helga Jóhannsdóttir
Ragnheiður Héðinsdóttir