Heilbrigðisnefnd
UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND
Ár 2001, fimmtudaginn 8. nóvember kl. 12.00 var haldinn 84. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Hrannar B. Arnarsson, Sólveig Jónasdóttir, Kolbeinn Ó. Proppé, Ragnheiður Héðinsdóttir, Helga Jóhannsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Enn fremur sátu fundinn Ólafur Bjarnason, Þórólfur Jónsson, Hjalti Guðmundsson og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist.
Heilbrigðismál:
1. Drög að nýjum gjaldskrám. Lögð fram á ný drög að nýrri gjaldskrá fyrir mengunar- og Heilbrigðiseftirlit í Reykjavík og drög að nýrri gjaldskrá fyrir hundahald í Reykjavík. Enn fremur voru lögð fram eftirtalin gögn: Eftirlitsáætlanir sviða Heilbrigðiseftirlitsins fyrir árið 2002, flokkun fyrirtækja í gjaldflokka, útreikningur tímagjalds, útreikningur hundagjalda og yfirlit um gjaldskrárbreytingar. Ragnheiður Héðinsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun: “Samtök atvinnulífsiins áttu á sínum tíma gott samstarf vð Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur um röðun eftirlitsskyldra fyrirtækja í eftirlitsflokka. Þá var gert ráð fyrir að fyrirtæki gætu flust milli flokka ef í ljós kæmi meiri eða minni eftirlitsþörf. Þetta er ítrekað í starfsáætlun Heilbrigðiseftirlitsins. Samtök atvinnulífsins taka ekki afstöðu til nýrrar gjaldskrár fyrir mengunar- og Heilbrigðiseftirlit í borginni á þessu stig en óska eftir viðræðum og samstarfi við Heilbrigðiseftirlitið um endurskoðun röðunar í eftirlitsflokka.” Drög að gjaldskrá fyrir mengunar- og Heilbrigðiseftirlit í Reykjavík voru samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum. 3 sátu hjá. Drög að gjaldskrá fyrir hundahald í Reykjavík voru samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum. 3 sátu hjá.
2. Fyrirspurn. Lögð fram á ný fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarson um framhald slátrunar í sláturhúsinu á Hellu í ljósi nýlegs úrskurðar Samkeppnisstofnunar um málefni Móa og Reykjagarðs. Rögnvaldur Ingólfsson, sviðstjóri kom á fundinn og svaraði fyrirspurninni. Svohljóðandi bókun var samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur lýsir furðu sinni á því að Samkeppnisstofnun úrskurði að slátrað skuli í húsi, sem að hefur verið lokað af heilbrigðisástæðum. Mikill árangur hefur náðst í baráttunni við sýkingu í kjöti á markaði. Lokun sláturhússins á Hellu er liður í að tryggja þann árangur, sem náðst hefur, enn frekar. Það að samkeppnisyfirvöld fari fram á að slátrun hefjist aftur í húsinu er vægast sagt sérkennileg ráðstöfun.”
3. Samkomuhús Orkuveitu Reykjavíkur við Jaðar. Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlitsins dags. 6. nóvember 2001 ásamt ályktun Framkvæmdastjórnar vatnsverndarsvæða dags. 5. nóvember 2001 varðandi safnþró við húsið. Lúðvík E. Gústafsson, sviðsstjóri, kom á fundinn. Kolbeinn Ó. Proppé lagði fram svohljóðandi bókun: “Undirritaður situr hjá í þessu máli. Ástæða þess er sú að ég er mótfallinn því að starfrækja hús af því tagi sem um ræðir inni á brunnsvæði. Á þessu svæði á ekki að vera nein starfsemi, sem hefur annan tilgang en þjónustu við dælingar. Það mun hafa aukna óþarfa umferð í för með sér með því sem tilheyrir, s.s. lausagöngu bifreiða. Í raun er verið að gegnisfella vatnstökustaðinn og senda röng skilaboð gegn ímynd vatnsverndarsvæðisins. Hér er því verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og í stað uppbyggingar ætti að draga úr starfsemi á vatnsverndarsvæðinu. Verði starfseminni hins vegar illu heilli haldið áfram, er nauðsynlegt að koma salernismálum á hreint.” Samþykkt að leita eftir nánari upplýsingum um notkun hússins hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Frestað.
Örn Sigurðsson, Lúðvík E. Gústafsson og Rögnvaldur Ingólfsson véku af fundi kl. 13.05. Ólafur Bjarnason tók við ritun fundargerðar.
4. Ráðning forstöðumanns Umhverfis- og heilbrigðisstofu. Lögð fram á ný umsögn Hrannars B. Arnarssonar, Helgu Jónsdóttur og Ólafs Bjarnasonar, dags. 29. október 2001 ásamt lista yfir umsækjendur og umsókn Ellýar K.J. Guðmundsdóttur. Lögð fram á ný eftirfarandi tillaga formanns: “Í samræmi við framlagða umsögn samþykkir Umhverfis- og heilbrigðisnefnd að leggja til við borgarráð að Elly K.J. Guðmundsdóttir verði ráðin forstöðumaður Umhverfis- og heilbrigðisstofu frá og með næstu áramótum og samþykkir nefndin ráðninguna fyrir sitt leyti.” Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum. Guðlaugur Þór Þórðarson og Helga Jóhannsdóttir lögðu fram svohljóðandi bókun: “Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sjá ekki nein rök fyrir því að gengið verði fram hjá Erni Sigurðssyni í þessa stöðu forstöðumanns Umhverfis- og heilbrigðisstofu. Engin rök hafa komið fram um að sá einstaklingur, sem að mælt er með, sé hæfari til að gegna þessari stöðu.”
5. Listar frá afgreiðslufundum
6. Útgefin hundaleyfi.
Umhverfismál:
Ragnheiður Héðinsdóttir vék af fundi kl. 13.25.
7. Aðalskipulag Reykjavíkur. Framhald kynningar. Ingibjörg Guðlaugsdóttir og Björn Axelsson komu á fundinn. Lögð fram drög að sveitarfélagsuppdrætti dags. 6. nóvember 2001 og blöð nr. AR9, AR14, AR16 og AR 23. Enn fremur lögð fram drög að umhverfismati Aðalskipulags Reykjavíkur, dags. nóvember 2001. Óskað var eftir drögum að umsögn frá Borgarverkfræðingi og Heilbrigðiseftirliti.
Helga Jóhannsdóttir vék af fundi kl. 14.05
8. Hádegismóar-deiliskipulag (breyting). Lagt fram á ný bréf Borgarskipulags Reykjavíkur, dags. 25. október 2001, samt uppdrætti. Nefndin samþykkti með 2 atkvæðum að gera ekki athugasemdir við skipulagið. Kolbeinn Ó. Proppé og Sólveig Jónasdóttir sátu hjá og lögðu fram svohljóðandi bókun: “Ítrekum bókun okkar frá 23. sept. 1999, þar sem varað er við áformum um byggð svo nálægt Rauðavatni, þar sem aukin byggð þrengir að útivistarfólki á svæðinu.”
9. Framkvæmdaáætlun vegna holræsa og göngustíga. Lögð fram á ný áætlun um framkvæmdir við gönguleiðir og holræsi árið 2002. Sigurður Skarphéðinsson, gatnamálastjóri, kom á fundinn. Samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum. Guðlaugur Þór Þórðarson sat hjá.
10. Niðurstöður rannsókna á viðtaka út af Ánanaustum og Klettagörðum. Lagt fram bréf gatnamálastjóra dags. 8. nóvember 2001. Enn fremur voru lagðar fram eftirfarandi skýrslur: Niðurstöður rannsókna á viðtaka út af Ánanaustum og Klettagörum. Ágrip vegna skilgreiningar á viðtaka. Kræklingarannsóknir út af Klettagörðum 1998. Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins, júní 2001. Guðjón Atli Auðunsson. Ánanausta og Klettagarðaræsi: Setflutningur við hafsbotn kannaður með ljósmyndun. Jarðfræðistofa Kjartans Thors, nóvember 2000. Klettagarðar. Aðalútræsi og Sundaræsi. Athugun á lausum jarðlögum. Almenna verkfræðistofan, nóvember 2000. Lífríki botns á fyrirhuguðum skólpútrásarstað út af Klettagörðum. Jörundur Svavarsson, 2000. Sjávarstraumar í Faxaflóa og dreifing mengunar frá meginútrásum frá Ánanaustum og Laugarnesi. Verkfræðistofan Vatnaskil, mars 1999. Ástand sjávar á losunarsvæði skolps undan Ánanaustum. Hafrannsóknarstofnun og Háskóli Íslands, maí 2000. Hegðun og samsetning fráveituvatns í hreinsistöðinni við Ánanaust. Guðjón Atli Auðunsson, 30. mars 2000. Dreifing mengunar frá útrás við Ánanaust. Verkfræðistofan Vatnaskil, apríl 2000. Sigurður Skarphéðinsson, gatnamálastjóri, kom á fundinn.
Frestað.
11. Viðaukasamningur um laxveiði í Elliðaánum árið 2002. Lagður fram á ný til kynningar samningur Orkuveitu Reykjavíkur og Stangveiðifélags Reykjavíkur dags. 4. október 2001. Óskað er eftir að fulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur komi á fund nefndarinnar.
12. Beiðni um upplýsingar. Sólveig Jónasdóttir óskar eftir upplýsingum um framgang vinnu starfshóps um stefnumótun á útivistarsvæðum.
Fundi slitið kl. 14.25
Hrannar B. Arnarsson
Sólveig Jónasdóttir
Guðlaugur Þór Þórðarson
Kolbeinn Proppé
Helga Jóhannsdóttir
Ragnheiður Héðinsdóttir