Heilbrigðisnefnd - 83. fundur

Heilbrigðisnefnd

UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND

Ár 2001, fimmtudaginn 1. nóvember kl. 08:15 var haldinn 83. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Hrannar B. Arnarsson, Kolbeinn Proppé, Ragnhildur Helgadóttir, Helga Jóhannsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Ragnheiður Héðinsdóttir. Enn fremur sátu fundinn Ólafur Bjarnason, Þórólfur Jónsson, Hjalti Guðmundsson, Einar B. Bjarnason, Lúðvík E. Gústafsson og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Starfsáætlun 2002. Lögð fram á ný starfsáætlun Heilbrigðiseftirlitsins. Samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum, 3 sátu hjá. Ragnheiður Héðinsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun: “Samtök atvinnulífsins geta ekki fallist á að hækkun launakostnaðar langt umfram almennar launabreytingar í landinu verði velt út í gjaldskrá fyrir eftirlit til fyrirtækja í Reykjavík. Óeðlilegt er að gjaldskrá fyrir mengunar- og heilbrigðiseftirlit hækki umfram breytingar á neysluverðs- eða launavísitölu á síðustu 12 mánuðum.”

2. Drög að nýjum gjaldskrám. Lögð fram drög að nýrri gjaldskrá fyrir mengunar- og Heilbrigðiseftirlit í Reykjavík og drög að nýrri gjaldskrá fyrir hundahald í Reykjavík. Frestað.

3. Skattlagning á nagladekk-mótmæli. Lagt fram á ný bréf skrifstofu borgarstjóra dags. 12. október 2001. Enn fremur lögð fram skýrsla Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins “Tilraun með hemlunarvegalengdir mismunandi vetrardekkja”. Lögð var fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Reykjavíkurlista: “Umhverfis- og heilbrigðisnefnd ítekar fyrri samþykktir sínar um nauðsyn þess að dregið verði úr notkun nagladekkja innan borgarmarkanna. Mælingar benda til að svifryk af völdum bifreiða, ekki síst þeim sem nota nagladekk, sé vaxandi vandamál á höfuðborgarsvæðinu. Við því verður að bregðast til að vernda heilsu almennings og ef standa á við alþjóðlegar skuldbindingar okkar um loftgæði. Nefndin felur Gatnamálastjóra að hefja nú þegar kynningarherferð þar sem bifreiðaeigendur verða hvattir til að velja umhverfisvæn vetrardekk án nagla og stuðla með þeim hætti að betri loftgæðum og heilnæmara borgarumhverfi.” Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

4. Fyrirspurn: Guðlaugur Þór Þórðason, lagði fram svohljóðandi fyrirspurn: “Er malarnám í Geldinganesi með starfsleyfi og hefur það farið í umhverfismat? Ef ekki, þá hvers vegna?” Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra Heilbrigðiseftirlitsins dags. 31. október 2001.

Örn Sigurðsson og Lúðvík E. Gústafsson véku af fundi.

5. Ráðning forstöðumanns Umhverfis- og heilbrigðisstofu. Lögð fram umsögn Hrannars B. Arnarssonar, Helgu Jónsdóttur og Ólafs Bjarnasonar, dags. 29. október 2001 ásamt lista yfir umsækjendur og umsókn Ellyar K.J. Guðmundsdóttur. Á fundinum var haft samband símleiðis við fulltrúa Mannafls ehf., Jón Birgi Guðmundsson. Formaður lagði fram eftirfarandi tillögu: “Í samræmi við framlagða umsögn samþykkir Umhverfis- og heilbrigðisnefnd að leggja til við borgarráð að Elly K.J. Guðmundsdóttir verði ráðin forstöðumaður Umhverfis- og heilbrigðisstofu frá og með næstu áramótum og samþykkir nefndin ráðninguna fyrir sitt leyti.” Frestað.

Fundi slitið kl. 09.45.

Hrannar B. Arnarsson
Kolbeinn Proppé
Guðlaugur Þór Þórðarson
Ragnhildur Helgadóttir
Helga Jóhannsdóttir
Ragnheiður Héðinsdóttir