Heilbrigðisnefnd - 78. fundur

Heilbrigðisnefnd

UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND

Ár 2001, fimmtudaginn 23. ágúst kl. 12.00 var haldinn 78. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Hrannar B. Arnarsson, Sólveig Jónasdóttir, Kolbeinn Proppé, Ragnheiður Héðinsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Ólafur F. Magnússon. Enn fremur sátu fundinn Þórólfur Jónsson, Ólafur Bjarnason og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

Heilbrigðismál:

1. Salmonella og Camphylobacter í ferskum kjúklingum júlí-ágúst 2001. Kynntar niðustöður könnunar. Rögnvaldur Ingólfsson, sviðstjóri, kom á fundinn.

2. Breytingar á samþykkt um hundahald. Lögð fram drög að breytingum á samþykkt um hundahald í Reykjavík ásamt greinargerð og bréfi starfshóps um endurskoðun hundasamþykktar dags. 23. ágúst 2001. Þá voru lagðar fram undirskriftir 2.378 einstaklinga undir áskorun um breytingar á samþykkt um hundahald í fjölbýli. Frestað.

3. Svínabúið Brautarholti. Lagt fram bréf Lög ehf. f.h. Páls Ólafssonar, dags. 10. ágúst 2001. Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn. Nefndin samþykkti að vísa málinu til umsagnar Heilbrigðiseftirlitsins.

4. Útgefin hundaleyfi.

5. Listar frá afgreiðslufundum.

Umhverfismál:

6. Kópavogur, breyting á aðal- og deiliskipulagi í Vatnsendahverfi. Breytingar kynntar. Björn Axelsson, borgarskipulagi, kom á fundinn. Nefndin samþykkti með 5 samhljóða atkvæðum svohljóðandi tillögu: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur lýsir áhyggjum sínum vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar athafnasvæðis við Vatnsendahvarf í landi Kópavogs. Umrætt svæði er þannig staðsett að öll uppbygging þarf að taka ríkt tillit til þeirra mikilvægu útivistarsvæða sem í nágrenninu eru og ekki síður lífríkis Elliðaánna. Umhverfis- og heilbrigðisnefnd telur ljóst að fyrirhuguð byggð á þessum stað sé of háreist með tilliti til útivistarsvæðisins í Elliðaárdal og skerði þann “Græna trefil”, sem umlykur borgarlandið og tengir upplandið við ströndina. Fullvíst má telja að þessi byggð muni auka mengunarálag í Elliðaánum, sem stríðir gegn þeim markmiðum, sem Reykjavíkurborg hefur sett um verndun ánna og lífríkis þeirra.

7. Brautarholt, Kjalarnesi, svínabú, hreinsimannvirki. Bygging dælustöðvar og mykjuskemmu. Lögð fram tillaga að umsögn dags. 20. ágúst 2001. Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi kom á fundinn. Umsögnin var samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

8. Viðurkenning SHH. Lögð fram tillaga Heilbrigðiseftirlitsins og garðyrkjudeildar dags. 20. ágúst 2001. Tillagan var samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

9. Norðlingaholt, deiliskipulag. Lagt fram á ný bréf Borgarskipulags Reykjavíkur dags. 26. júlí 2001. Enn fremur lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlitsins dags. 23. ágúst 2001. Lúðvík E. Gústafsson, sviðstjóri, kom á fundinn. Formaður lagði fram svohljóðandi tilllögu, sem var samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd lýsir ánægju sinni með meginþema þeirra skipulagstillögu, sem sett hefur verið fram og telur að þær áherslur, sem þar koma fram séu í góðu samræmi við stefnu borgarinnar um uppbyggingu sjálfbærs samfélags. Nefndin lýsir sérstakri ánægju sinni með að hægt sé að komast fótgangangandi um allt hverfið, án þess að þurfa að fara yfir umferðargötur og hversu vel græn svæði eru nýtt til að tengja hvefið saman og mynda heildstæð tengsl við útivistarsvæðin í nágrenninu. Nefndin vekur hins vegar athygli á eftirfarandi. 1. Samkvæmt samþykktri stefnumörkun Reykjavíkurborgar og sérstakri aðgerðaráætlun vegna Bugðu, Hólmsár, Suðurár og Elliðavatns er m.a. reiknað með eftirfarandi: “Leitað verði samkomulags við aðliggjandi sveitarfélög um að afmarkað verði 100-250 metra helgunarsvæði umhverfis vatnasvæði og það friðlýst sem Fólkvangur.” “Umhverfi vatnasvæðisins verði skipulagt heildstætt sem útivistarsvæði fyrir lok árs 2002.” “Gönguleiðir og útivistarmöguleikar verði lagaðir að hagsmunum vatnasvæðisins.” “Komið verði í veg fyrir rennsli skolps og mengaðs ofanvatns í vatnasvæðið.” “Komið verði í veg fyrir áburðarmengun frá aðliggjandi svæðum.” Nauðsynlegt er að skipulagið uppfylli ofangreind skilyrði. 2. Mislæg gatnamót, sem tengja hverfið við Suðurlandsveg eru óheppileg á þeim stað, sem þau eru sýnd, m.a. vegna nálægðar við Bugðu og viðkvæmra útivistarsvæða í nágrenninu. Heppilegri lausn þarf því að finna á umferðartengingum Suðurlandsvegar við hverfið. 3. Hluti af skipulagssvæðinu er á fjarsvæði B samkvæmt samþykktu svæðisskipulagi um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu frá 17.12.1997. Á þeim hluta svæðisins er fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðabyggð og verslunum. Einnig er á vatnsverndarsvæðinu gert ráð fyrir bensínstöð. Með vísan til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 22. ágúst 2001, telur nefndin að finna þurfi nýjan stað fyrir umrædda bensínstöð utan vatnsverndarsvæðisins og vekur sértaka athygli á þeim skilyrðum, sem gilda varðandi framkvæmdir og starfsemi á fjarsvæði B. Nefndin treystir því að endanlegar tilllögur að skipulaginu verði aftur lagðar fyrir Umhverfis- og heilbrigðisnefnd.

Kolbeinn Proppé lagði fram svohljóðandi bókun: Ég tel að frekari rannsókna sé þörf á Rauðavatni og lífríki þess áður en vegtenging er skipulögð út í vatnið. Auk þess væri rétt að gera frekari umhverfismat á svæðinu öllu áður en skipulag verður fullgert. Ólafur F. Magnússon óskaði bókað: Ég tek undir þau fjölmörgu jákvæðu atriði, sem fram koma í umsögn Umhverfis- og heilbrigðisnefndar um skipulag Norðlingaholts, en áskil mér allan rétt til athugasemda og bókana þegar ítarlegri kynning hefur farið fram á skipulaginu. Guðlaugur Þór Þórðarson óskaði bókað: Það er sérkennilegt að Umhverfis- og heilbrigðisnefnd er ætlað að gefa umsögn um skipulag Norðlingaholts án þess að nefndarmenn fái kort af svæðinu. Athygli vakti að í útsendum fundargögnum var kort af athafnasvæði í Kópavogi, en hvorki kort af Norðlingaholti né umsögn Heilbrigðiseftirlitsins um áðurnefnt skipulag, þrátt fyrir að beðið væri um slíkt á síðasta fundi. Því miður virðast vinnubrögð sem þessi vera orðin regla hjá nefndinni. Miðað við framlögð gögn þá er rétt að taka fram eftirfarandi: Ekki verður með nokkru móti séð, að bensínstöð geti verið staðsett á fyrirhuguðum stað, eins og sjá má af umsögn Heilbrigðiseftirlitsins. Ekki er hægt að taka afstöðu til gatnamóta miðað við fyrirliggjandi gögn. Ekkert liggur fyrir um fyrirkomulag frárennslismála. Miðað við fyrirliggjandi skipulagstillögu er gert ráð fyrir að samþykkt Reykjavíkurborgar um helgunarsvæði umhverfis vatnasvæði verði brotin og er það algerlega óásættanlegt.

10. Tíu sjónvarpsþættir um umhverfismál. Lagt fram bréf Hugsjónar dags. 22. ágúst 2001, þar sem leitað er eftir stuðningi við gerð sjónvarpsþátta um umhverfismál. Nefndin samþykkti með 5 samhljóða atkvæðum að mæla með erindinu og vísa því til afgreiðslu borgarráðs.

11. Almenningssalerni við göngustíga. Sólveig Jónasdóttir lagði fram svohljóðandi tillögu: Legg fram tillögu þess efnis, að Umhverfis- og heilbrigðisnefnd beiti sér fyrir því að sett verði upp almenningssalerni á lengstu gönguleiðum borgarinnar, t.d. Miðborg – Laugarnes, Ægissíða-Nauthólsvík, til hægðarauka fyrir borgarbúa. Leitast verði við að fella útlit þeirra að umhverfinu.

Nefndin samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum að vísa tillögunni til meðferðar hjá starfshópi um heildstæða stefnumörkun útivistarsvæða borgarinnar.

Fundi slitið kl. 13.55

Hrannar B. Arnasson
Kolbeinn Proppé
Ólafur F. Magnússon
Sólveig Jónasdóttir
Guðlaugur Þór Þórðarson
Ragnheiður Héðinsdóttir