Heilbrigðisnefnd - 75. fundur

Heilbrigðisnefnd

UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND

Ár 2001, fimmtudaginn 5. júlí kl. 12.00 var haldinn 75. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Hrannar B. Arnarsson, Kolbeinn Proppé, Hildigunnur Friðjónsdóttir, Ragnheiður Héðinsdóttir, Helga Jóhannsdóttir og Glúmur Björnsson. Enn fremur sátu fundinn Ólafur Bjarnason, Hjalti Guðmundsson og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð. Þórólfur Jónsson kom á fundinn kl. 12.45.

Þetta gerðist:

Heilbrigðismál:

1. Áminning skv. 26. gr. l. um hollustuhætti og mengunarvarnir. Lagðar fram til kynningar. Rósa Magnúsdóttir, sviðsstjóri, kom á fundinn.

2. Innkallanir. Lagt fram yfirlit um innkallanir á matvælasviði. Rögnvaldur Ingólfsson, sviðsstjóri, kom á fundinn.

3. Viðurkenning SHH. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 22. júní 2001 varðandi viðurkenningu SSH: Merkt framlag til umhverfis-, útivistar- og skipulagsmála árið 2001. Nefndin samþykkti með 6 samhljóða atkvæðum að fela garðyrkjustjóra og sviðsstjóra umhverfissviðs Heilbrigðiseftirlitsins að leggja fram tillögu fyrir nefndina.

4. Gjaldskrá vegna tóbakssölu. Lögð fram drög að gjaldskrá fyrir leyfi og eftirlit með tóbakssölu. Enn fremur lögð fram bréf Samtaka atvinnulífsins, dags. 5. júlí 2001 og bréf Samtaka aðila í ferðaþjónustu dags. 2. júlí 2001. Nefndin samþykkti drögin með 3 atkvæðum gegn 1 og tveir nefndarmanna sátu hjá.

5. Afgreiðsla tóbakssöluleyfa. Svohljóðandi tillaga var lögð fyrir fundinn: Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur er heimilt að gefa út tóbakssöluleyfi og undanþágur skv. 7.gr. l. nr. 95/2001, um br. á tóbaksvarnarlögum nr. 74/1984 sbr. l. nr. 101/1996 í stað Umhverfis- og heilbrigðisnefndar. Framangreindar afgreiðslur Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur skulu lagðar fram á næsta reglulega fundi Umhverfis- og heilbrigðisnefndar og bókaðar í fundargerð. Synji Heilbrigðiseftirlitið um leyfisveitingu skulu þó liða a.m.k. 14 dagar þar til málið er lagt fram í Umhverfis- og heilbrigðisnefnd. Nefndin samþykkti tillöguna með 6 samhljóða atkvæðum.

6. Listar frá afgreiðslufundum.

7. Afgreidd hundaleyfi.

Umhverfismál:

8. Skýrsla um notkun nagladekkja í Reykjavík. Lagðar fram á ný tillögur starfshóps gatnamálastjóra og Heilbrigðiseftirlits um aðgerðir vegna loftmengunar í samræmi við samþykkt nefndarinnar frá 21. desember 2000, ásamt greinargerð. Enn fremur lögð fram umsögn samgöngunefndar og svohljóðandi tillaga formanns: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti tillögur þær, sem Gatnamálastjóri og Heilbrigðiseftirlitið hafa lagt fyrir nefndina um aðgerðir til að minnka neikvæð áhrif svifryksmengunar. Nefndin áréttar þó að forsenda aukinna loftmælinga í Reykjavík er fjárhagsleg aðkoma Hollustverndar að því verkefni. Einnig samþykkir nefndin eftirfarandi: 1. Samhliða vinnu á grundvelli tillagnanna verði unnin heildstæð aðgerðaráætlun um þær skammtímaráðstafanir, sem grípa skal til skapist hætta á að farið verði yfir umhverfis- eða viðmiðunarmörk loftmengunar í borginni. 2. leitað verði samstarfs við heilbrigðisyfirvöld og hagsmunasamtök þeirra, sem helst líða fyrir loftmengun um almenna fræðslu á skaðsemi mengunarinnar. 3. á næsta vetri verði áfram markvisst unnið að minnkaðri notkun nagladekkja í bílaflota borgarinnar og hjá stofnunum á hennar vegum. Nefndin felur Gatnamálastjóra og Heilbrigðiseftirlitinu að fylgja tillögunum eftir og beinir þeim til staðfestingar Borgarráðs í þeim efnum, sem það á við. Sigurður Skarphéðinsson, gatnamálastjóri og Lúðvík E. Gústafsson, sviðsstjóri, komu á fundinn. Nefndin samþykkti tillöguna með 3 atkvæðum gegn 2.

9. Notkun nagladekkja í Reykjavík. Lögð fram til kynningar skýrsla Línuhönnunar hf. um notkun nagladekkja í Reykjavík.

Ragnheiður Héðinsdóttir vék af fundi kl. 13.15.

10. Skýrsla um tilraun við jarðgerðarhús. Lögð fram skýrsla um tilraun við jarðgerðarhús. Kjartan Valgarðsson, Vistmönnum ehf. kom á fundinn.

11. Upplýsingar um göngu- og hjólreiðarstíga. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins: Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að kort af göngu- og hjólreiðastígum í landi borgarinnar verði sett á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Einnig verði merktar inn sérstaklega leiðir, sem eru ekki hefðbundnir göngu- og hjólreiðastígar, en nýtast ágætlega sem slíkir. Dæmi um slíkt eru stígar á milli Heiðmerkur og Grafarholts. Nefndin samþykkti með 5 samhljóða atkvæðum að vísa tillögunni til frekari úrvinnslu staðardagskrárfulltrúa í yfirstandandi vinnu við gerð heimasíðu borgarinnar um umhverfismál.

12. Þjónustusamningar við starfsfólk Heilbrigðiseftirlitsins. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd felur framkvæmdastjóra að skoða, hvort hagkvæmt sé að gera þjónustusamninga við starfsfólk Heilbrigðiseftirlitsins um ýmsa þjónustu og eftirlit, sem stofnunin veitir, eins og t.d. hundaeftirlit. Nefndin samþykkti tillöguna með 4 atkvæðum gegn 1.

13. Botndýr í Úlfarsá. Lögð fram til kynningar skýrsla Líffræðistofnunar Háskólans, 2001.

14. Staðardagskrá 21. Lagt fram til kynningar minnisblað staðardagskrárfulltrúa dags. 5. júlí 2001 um verkefnið “Forsendur sjálfbærrar þróunar í íslensku samfélagi.”

15. Athafnasvæði í Norðanverðu Vatnsendasvæði. Formaður vakti athygli á auglýsingu um skipulag athafnasvæðis í landi Kópavogs í nálægð við Elliðaár og óskaði óska eftir kynningu á skipulaginu á næsta fundi nefndarinnar ásamt upplýsingum um störf samstarfsnefndar Kópavogs og Reykjavíkur um skipulag og rannsóknir við Elliðavatnssvæðið. Fundi slitið kl. 13.45.

Hrannar B. Arnarsson
Kolbeinn Proppé
Helga Jóhannsdóttir
Hildigunnur Friðjónsdóttir
Glúmur Jón Björnsson
Ragnheiður Héðinsdóttir