Heilbrigðisnefnd - 71. fundur

Heilbrigðisnefnd

3

UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND REYKJAVÍKUR

Ár 2001, föstudaginn 1. júní kl. 08.00 var haldinn 71. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Suðurlandsbraut 14, 2. hæð. Fundinn sátu Hrannar B. Arnarsson, Hildigunnur Friðjónsdóttir, Ragnheiður Héðinsdóttir, Kolbeinn Proppé, Ólafur F. Magnússon og Guðlaugur Þór Þórðarson. Enn fremur sátu fundinn Rósa Magnúsdóttir og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Heilbrigðismál:

1. Sala tóbaks til barna og unglinga. Lagt fram á ný álit Borgarlögmanns dags. 21. maí 2001 og fréttatilkynning um könnun á sölu tóbaks. Enn fremur lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa atvinnulífsins: Nefndin samþykkti á síðasta fundi sínum að leita umsagnar borgarlögmanns um framkvæmd sölubannsins. Niðurstaða hans er að beiting sölubanns á þá aðila, sem samkvæmt síðustu könnun hafa gerst brotlegir í þriðja sinn við gr. 8.1 í tóbaksvarnarlögum sé ólögmæt þar sem ákvæðum stórnsýslulaga hafi ekki verið fylgt að öllu leyti. Ekki hafi farið fram sjálfstæð rannsókn hjá nefndinni í hverju einstöku máli né andmælaréttur verið veittur áður en viðkomandi aðilar voru áminntir. Þriggja mánaða sölubanni verði heldur ekki beitt sem þvingunarúrræði nema sýnt sé fram á að nefndin nái ekki markmiðum tóbaksvarnarlaga með öðru og vægar móti. Þá sé óheimilt að beita sölubanni sem einskonar refsingu fyrir þegar framin brot.

Er því lagt til að leiðbeiningum borgarlögmanns verði fylgt við meðferð mála. Brotlegir aðilar verði krafðir um áætlun þar em fram komi hvaða aðgerða þeir hyggjast grípa til í því skyni að koma í veg fyrir að starfsmenn selji eða afhendi ungmennun undir 18 ára aldri tóbak. Heilbrigðiseftirliti verði jafnframt falið að semja leiðbeiningar til söluaðila. Þá voru lagt fram kynningarefni átaksins “Ekkert tóbak undir 18” og “Leiðbeiningar til afgreiðslufólks um sölu tóbaks” Svohljóðandi tillaga var lögð fram: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd hefur kynnt sér álit Borgarlögmanns sem sker úr um álitamál sem upp hafa komið varðandi meðferð brota á reglum um sölu tóbaks og staðfestir heimildir nefndarinnar til beitingar þvingunarúrræða skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Borgarlögmaður kemst að þeirri niðurstöðu að ákvæðum stjórnsýslulaga hafi ekki verið fylgt að öllu leyti við framkvæmd samþykktar Umhverfis- og heilbrigðisnefndar vegna brota gegn lögum um tóbaksvarnir.

Nefndin fagnar því að samfara tóbaksvarnarátaki hefur þeim útsölustöðum sem selja börnum og unglingum tóbak fækkað verulega eða um tæp 40%. Í framhaldi af nýjustu könnun ÍTR hafa þó borist kvartanir vegna 42% útsölustaða tóbaks sem er með öllu óviðunandi. Nefndin felur Heilbrigðiseftirlitinu að fara að leiðbeiningum borgarlögmanns, fyrri samþykktum nefndarinnar og tóbaksvarnarlögum við meðferð þeirra mála. Ber því að gefa þeim aðilum, sem fyrirhugað er að setja sölubann á kost á andmælum og athugsemdum áður en sölubann kemur til framkvæmda. Brotlegir aðilar verði krafðir um áætlun þar sem fram komi hvaða aðgerða þeir hyggjast grípa til í því skyni að koma í veg fyrir að starfsmenn selji eða afhendi ungmennum undir 18 ára aldri tóbak. Heilbrigðiseftirlitinu er jafnframt falið að ítreka leiðbeiningar sínar gagnvart söluaðilum. Jafnframt er heilbrigðiseftirlitinu heimilað að aflétta sölubanni þegar í stað, sýni söluaðili fram á sértækar aðgerðir og úrbætur varðandi sölu tóbaks til barna og unglinga undir 18 ára aldri. Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1. Ragnheiður Héðinsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun: Í umsögn borgarlögmanns til umhverfis- og heilbrigðisnefndar, dags. 21. maí 2001, er skýrt tekið fram að það samrýmist ekki stjórnsýslulögum að beiting þvingunarúrræða á grundvelli 26. gr. laga 7/1998 sé heimil einungis á grundvelli könnunar ÍTR og kvörtunar í kjölfar hennar. Tillaga sem lögð var fram á fundi umhverfis- og heilbrigðisnefndar í dag brýtur gegn þessu áliti. Mikilvægt er að áður en til þess kemur að nefndin beiti söluaðila tóbaks sölubanni sé þess vandlega gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga sé fullnægt, sbr.ofangreinda umsögn borgarlögmanns. Vísast þá sérstaklega til þess sem þar kemur fram varðandi rannsóknarreglu, andmælarétt og meðalhóf.

Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram svohljóðandi bókanir: Bókun I. Í áliti borgarlögmanns koma fram alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð eftirlitsaðila í tengslum við umrætt átak. Ekki verður séð að í framkominni tillögu hafi verið tekið tillit til athugasemda sem að koma fram í áliti borgarlögmanns ef undan eru skildar athugasemdir varðandi andmælarétt. Því treystir undirritaður sér ekki til að styðja framkomna tillögu.

Bókun II Að gefnu tilefni vill undirritaður lýsa yfir óánægju með fullyrðingar formanns nefndarinnar í fjölmiðlum í tengslum við þetta mál. Formaður lýsti því meðal annars yfir á meðan að borgarlögmaður var að vinna sitt álit að nefndin; væri í fullum lagalegum rétti og eftir að álitið kemur fram þar sem að gerðar eru alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð og m.a. kemur fram í álitinu að ,,ákvæðum stjórnsýslulaga hefur ekki verið fylgt eftir að öllu leyti”, þá fagnar formaður álitinu sérstaklega í viðtölum við fjölmiðla. Þessi vinnubrögð formanns eru í besta falli óskynsamleg og ekki góðum málstað til framdráttar.

Hrannar B. Arnarsson lagði fram svohljóðandi bókun: Bókanir Guðlaugs Þórs Þórðarsonar koma á óvart í ljósi þess, að allar aðgerðir nefndarinnnar hafa notið stuðnings og samþykkis hans hingað til. Ég vænti þess að hann eins og aðrir nefndrmenn hafi talið sig í fullum lagalegum rétti enda tel ég að álit borgarlögmanns staðfesti að svo hafi verið, þótt fundið sé að starfsaðferðum Heibrigðiseftirlitsins sem hingað til hafa talist sjálfsagðar og eðlilegar.

Fundi slitið kl. 09.45

Hrannar B. Arnasson
Kolbeinn Ó. Proppé
Ólafur F. Magnússon
Hildigunnur Friðjónsdóttir
Guðlaugur Þór Þórðarson
Ragnheiður Héðinsdóttir