Heilbrigðisnefnd - 70. fundur

Heilbrigðisnefnd

3

UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND REYKJAVÍKUR

Ár 2001, fimmtudaginn 10. maí kl. 12.00 var haldinn 69. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Hrannar B. Arnarsson, Kolbeinn Proppé, Hildigunnur Friðjónsdóttir, Ólafur Jónsson og Helga Jóhannsdóttir. Ólafur F. Magnússon kom á fundinn kl. 12.25. Enn fremur sátu fundinn Ólafur Bjarnason, Þórólfur Jónsson, Oddur R. Hjartarson og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð. Í upphafi fundar færði formaður Oddi R. Hjartarsyni árnaðaróskir og gjöf nefndarinnar í tilefni af sjötugsafmæli hans 8. maí s.l.

Þetta gerðist:

Umhverfismál:

1. Aðstaða kajakklúbbs í Eiðsvík. Lögð fram samþykkt skipulags- og bygginganefndar ásamt fylgiskjölum. Björn Axelsson, borgarskipulagi, kom á fundinn. Nefndin samþykkti með 5 samhljóða atkvæðum að gera ekki athugasemdir við erindið.

2. Fjallahjólabraut í Öskjuhlíð. Lagt fram á ný bréf Borgarstjórans í Reykjavík, dags. 30. mars 2001, ásamt fylgiskjölum. Enn fremur lögð fram umsögn garðyrkjustjóra dags. 8. maí 2001. Nefndin samþykkti umsögn garðyrkjustjóra með 5 samhljóða atkvæðum.

3. Nations in bloom 2001. Lagður fram á ný bæklingur um “Lífræn samfélög”, alþjóðasamkeppni sveitarfélaga ásamt minnisblaði staðardagskrárfulltrúa dags. 26. apríl 2001. Nefndin samþykkti með 5 samhljóða atkvæðum að taka ekki þátt í samkeppninni að þessu sinni.

4. Skýrsla um notkun nagladekkja í Reykjavík. Lagðar fram tillögur starfshóps gatnamálastjóra og Heilbrigðiseftirlits um aðgerðir vegna loftmengunar í samræmi við samþykkt nefndarinnar frá 21. desember 2000, ásamt greinargerð. Sigurður Skarphéðinsson, gatnamálastjóri, og Lúðvík E. Gústafsson, sviðsstjóri, komu á fundinn. Nefndin samþykkti með 5 samhljóða atkvæðum að óska eftir umsögn samgöngunefndar um tillögurnar.

5. Rekstrarniðurstöður janúar til mars 2001. Lagt fram til kynningar yfirlit um rekstrarniðurstöður janúar til mars 2001 fyrir Hreinsunardeild, Garðyrkjudeild, Vinnuskóla, Kirkjugarða og Staðardagskrá.

6. Endurskoðun á reglum um styrk vegna hljóðvistar. Lagt fram afrit af bréfi borgarverkfræðings til borgarráðs dags. 3. maí 2001 ásamt tillögum að reglum um styrki vegna hljóðvistar. Frestað. Heilbrigðismál:

7. Starfsleyfi fyrir Mjölnisholt 12. Lagðar fram athugsemdir við starfsleyfistillögu ásamt bréfi Heilbrigðiseftirlitsins dags. 9. maí 2001. Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn. Nefndin samþykkti tillögu Heilbrigðiseftirlitsins að starfsleyfi með 6 samhljóða atkvæðum.

8. Rekstrarniðurstöður janúar til mars 2001. Lagt fram til kynningar yfirlit um rekstrarniðurstöður janúar til mars 2001 fyrir Heilbrigðiseftirlit, hundaeftirlit og umhverfis- og heilbrigðisnefnd.

9. Fyrirspurn. Lagt fram svar við fyrirspurn Guðlaugs Þ. Þórðarsonar.

10. Listar frá afgreiðslufundum.

11. Útgefin hundaleyfi

- Helga Jóhannsdóttir vék af fundi kl. 13.55

12. Brot á reglum um sölu tóbaks. Lögð fram á ný tillaga fulltrúa atvinnulífsins, svohljóðandi: Í framhaldi af samþykkt tillögu um meðferð mála varðandi brot á reglum um sölu tóbaks þann 5. apríl s.l. þykir rétt að benda á eftirfarandi: Fjallað hefur verið um málið af hálfu SVÞ og SA. Ljóst þykir að margvíslegar athugasemdir má gera við þau viðurlög, sem þar voru ákveðin og er lögmæti þeirra dregið í efa. Er því lagt til að ákvarðanir um beitingu þeirra viðurlaga verði ekki teknar að svo stöddu. Rósa Magnúsdóttir, sviðsstjóri, kom á fundinn. Fulltrúi atvinnulífsins dró framangreinda tillögu til baka og lagði fram svohljóðandi tillögu: Lagt er til að áður en þvingunaraðgerðir í formi sölubanns komi til framkvæmda verði söluaðila veittur a.m.k. tveggja vikna frestur til að sýna fram á ákveðnar úrbætur. Sölubann sem sett hefur verið á fellur niður þegar settum skilyrðum hefur verið fullnægt. Jafnfram er lagt til að samdar verði leiðbeiningar fyrir söluaðila um það hvernig framfylgja eigi banni tóbaksvarnarlaga við sölu tóbaks til einstaklinga yngri en 18 ára. Við þá vinnu verði haft samráð við SVÞ og SAF. Formaður lagði fram svohljóðandi frávísunartillögu: Á fundi nefndarinnar þann 5. apríl sl. samþykkti Umhverfis- og heilbrigðisnefnd verklagsreglur við beitingu þvingunarúrræða vegna ítrekaðra brota á tóbaksvarnarlögum. Verklagsreglurnar eru í fullu samræmi við fyrri yfirlýsingar og samþykktir nefndarinnar í tengslum við yfirstandandi eftirlitsátak með sölu tóbaks til barna og unglinga. Full samstaða hefur ríkt í nefndinni um eftirlitsátakið og verklagsreglurnar og voru samþykktir hennar gerðar einróma, m.a. með þátttöku fulltrúa atvinnulífsins. Það er ljóst að til að framfylgja eftirlitshlutverki sínu samkvæmt lögum um tóbaksvarnir hefur nefndin fulla heimild til að beita þvingunarúrræðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Tillaga fulltrúa atvinnulífsins veitir því ekkert tilefni til stefnubreytingar af hálfu nefndarinnar. Hún mun því halda sínu striki þó stefnubreyting fulltrúa atvinnulífsins veki vissulega vonbrigði nefndarinnar.

Nefndin minnir á eftirfarandi staðreyndir:

1. Heilbrigðiseftirlitinu hafa borist staðfestar kvartanir um ólögmæta sölu tóbaks. 2. Viðkomandi aðila hefur verið tilkynnt um brot hans og hann beðinn um að bæta úr sínum málum. 3. Viðkomandi aðila hefur verið gerð sérstaklega grein fyrir þeim þvingunarúrræðum, sem nefndin mun beita. 4. Sölubann verður einungis sett á þá aðila, sem þrisvar hafa gerst brotlegir samkvæmt staðfestri kvörtun, að undangenginni viðvörun og áminningu, þar sem skýrt er tekið fram, hvaða úrræðum verður beitt verði viðkomandi staðinn að frekari brotum. 5. Enginn hefur mótmælt tilkynningu um brot á tóbakslögum, þrátt fyrir áskorun þar um. 6. Enginn hefur mótmælt áminningu fyrir brot á tóbakslögum, þrátt fyrir áskorun þar um. 7. Ítrekað hefur verið vakin athygli á því í fjölmiðlum, að þeir, sem gerist brotlegir við reglur um sölu tóbaks verði áminntir skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og að ítrekuð brot geti leitt til sölubanns á tóbaki. Því er lagt til að tillögu atvinnulífsins verði vísað frá. Frávísunartillagan var samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1. Fulltrúi atvinnulífsins lagði fram svohljóðandi tillögu: Vegna ágreinings sem uppi er um framkvæmd sölubannsins, er lagt til að málinu verði vísað til borgarlögmanns til umsagnar. Tillagan var samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

Fundi slitið kl. 14.05.

Hrannar B. Arnarsson
Kolbeinn Ó. Proppé
Helga Jóhannsdóttir
Hildigunnur Friðjónsdóttir
Ólafur F. Magnússon
Ólafur Jónsson