Heilbrigðisnefnd - 65. fundur

Heilbrigðisnefnd

4

UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND REYKJAVÍKUR

Ár 2001, fimmtudaginn 8. mars kl. 12.00 var haldinn 65. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Hrannar B. Arnarsson, Sólveig Jónasdóttir, Kolbeinn Proppé, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ólafur F. Magnússon og Ragnheiður Héðinsdóttir. Enn fremur sátu fundinn Þórólfur Jónsson, Hjalti Guðmundsson, Oddur R. Hjartarson og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

Heilbrigðismál:

1. Hólmsland og Lækjarbotnar í Reykjavík. Lögð fram á ný skýrsla Heilbrigðiseftirlitsins um ástand sumarhúsa og lóða í Hólmslandi og Lækjarbotnum, janúar 2001. Jón Benjamínsson, heilbrigðisfulltrúi kom á fundinn. Nefndin samþykkir svohljóðandi tillögu formanns með 6 samhljóða atkvæðum: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur felur Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að fylgja eftir þeim athugasemdum og tillögum um úrbætur, sem fram koma í skýrslunni “Hólmsland og Lækjarbotnar í Reykjavík – lóðir og byggingar.” Jafnframt beinir nefndin þeim tilmælum til byggingarfulltrúa að upplýsingar skýrslunnar verði nýttar til að kanna lögmæti þeirra mannvirkja, sem þar koma fram.

2. Drög að samþykkt um rotþrær. Lögð fram drög að samþykkt um rotþrær í Reykjavík ásamt greinargerð. Jón Benjamínsson, heilbrigðisfulltrúi kom á fundinn. Nefndin samþykkir drögin með 6 samhljóða atkvæðum og vísar þeim til meðferðar borgarstjórnar.

3. Frumv. til l. um lax- og silungsveiði. Lagt fram bréf nefndasviðs Alþingis dags. 21. febrúar 2001. Lúðvík E. Gústafsson, sviðsstjóri, kom á fundinn. Nefndin samþykkir svohljóðandi umsögn með 5 samhljóða atkvæðum: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur vill benda á að allar fiskeldis- og hafbeitarstöðvar þurfa starfsleyfi Hollustuverndar ríkisins eða heilbrigðisnefndar viðkomandi svæðis, eftir því sem við á, og eru undir mengunarvarnaeftirliti Hollustuverndar ríkisins og viðkomandi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Starfsleyfisútgáfa og eftirlit ofangreindra stofnanna er í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit. Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur sýnist að með frumvörpum þessum sé verið að auka leyfisveitingar og eftirlit frá því sem nú er án þess að það sé skýrt afmarkað hver fari með hvaða eftirlit. Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði nr. 76/1970, með síðari breytingum, er kveðið á um eftirlit veiðimálastjóra með starfsemi fiskeldis-og hafbeitarstöðva (5. gr.). Í athugasemdum við frumvarpið er gert ráð fyrir að það sé á valdi veiðimálastjóra hversu víðtækt eftirlit verður. Ekki er fjallað í athugasemdum við frumvarpið um hugsanlegt samráð milli veiðimálastjóra og eftirlitsaðila sem fer með eftirlit vegna mengandi starfsemi skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Umhverfis- og heilbrigðisnefnd telur að það þurfi að afmarka með skýrari hætti þá þætti sem hver eftirlitsaðili hefur undir höndum.

Ólafur F. Magnússon sat hjá.

4. Frumv. til l. um eiturefni og hættuleg efni. Lagt fram bréf nefndasviðs Alþingis dags. 21. febrúar 2001. Rósa Magnúsdóttir, sviðsstjóri, kom á fundinn. Nefndin samþykkir svohljóðandi umsögn með 6 samhljóða atkvæðum: Breytingar á 23. gr. laganna eru í 3. gr. frumvarpsins. Þar er heimild til gjaldtöku fyrir Hollustuvernd rikisins. Heilbrigðiseftirlitið telur eðlilegt og rétt að þar komi fram að gjaldtaka fyrir eftirlit sem unnið er af heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna sé samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

5. Frumv. til l. um eldi nytjastofna sjávar. Lagt fram bréf nefndasviðs Alþingis dags. 23. febrúar 2001. Nefndin vísar til umsagnar um br. á l. um lax- og silungsveiði.

6. Uppsögn starfsmanns. Lagt fram bréf Sigurðar Ásbjörnssonar dags. 28. febrúar 2001. Sigurði var þakkað fyrir gott samstarf.

7. Olíuslys í Örfirisey. Lögð fram á ný greinargerð Heilbrigðiseftirlitsins um olíuslys í Örfirisey og öryggis- og eftirlitsmál í olíubirgðastöðinni í Örfirisey. Enn fremur lagðar fram leiðréttingar við greinargerðina ásamt viðbótarupplýsingum. Sigurður Ásbjörnsson og Guðmundur B. Friðriksson, heilbrigðisfulltrúar, komu á fundinn. Nefndin óskar eftir frekari upplýsingum. Frestað.

8. Könnun á gæðum súrmatar. Lögð fram skýrsla heilbrigðiseftirlitanna á Höfuðborgarsvæðinu.

9. Könnun á nitritinnihaldi saltkjöts. Lögð fram skýrsla heilbrigðiseftirlitanna á Höfuðborgarsvæðinu.

10. Reglubundið eftirlit í framhaldsskólum. Lögð fram skýrsla Heilbrigðiseftirlitsins. Gunnar Kristinsson, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn.

11. Listar frá afgreiðslufundum.

12. Bréf Heilbrigðiseftirlitsins um útgáfu leyfa til hundahalds.

13. Starfsleyfisskilyrði fyrir húsnæði, sem leigt er út til hljómsveitaræfinga. Lögð fram drög að starfsleyfisskilyrðum fyrir húsnæði, sem leigt er út til hljómsveitaræfinga, ásamt greingargerð. Nefndin samþykkti drögin með 6 samhljóða atkvæðum.

Ólafur Bjarnason kom á fundinn kl. 13.00.

Umhverfismál:

14. Víkurvegur-Reynisvatnsvegur, breyting á aðalskipulagi. Sigurður Skarphéðinsson kom á fundinn. Nefndin samþykkir með 5 samhljóða atkvæðum fyrirliggjandi tillögu um breytingu á aðalskipulagi. Fulltrúar R-listans lögðu fram svohljóðandi bókun: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd harmar að við byggingu mislægra gatnamóta Víkurvegar, Reynisvatnsvegar og Vesturlandsvegar þurfi að ganga á áður ætlað útivistarsvæði og ákjósanlegt helgunarsvæði Úlfarsár. Í ljósi þeirra gagna, sem lögð hafa verið fram við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, getur nefndin þó fallist á þá breytingu á aðalskipulagi sem hér er til afgreiðslu. Ferill þessa máls sýnir hins vegar glöggt, að áður en ráðist er í skipulagningu og framkvæmdir á uppbyggingarsvæðum borgarinnar, er nauðsynlegt að afmarka æskilegt helgunarsvæði umhverfis fyrirhuguð útivistarsvæði og laga síðan annað skipulag að því. Nýleg samþykkt borgarstjórnar um mögulega friðun helgunarsvæða umhverfis mikilvægustu búsvæði laxa og silunga inna borgarlandsins er mikilvægt skref í þá átt. Ólafur F. Magnússon lagði fram svohljóðandi bókun: Ég tel að eina leiðin til að komast hjá því að leggja vegrampa svo nærri Úlfarsá sem gert er í skipulaginu væri að gera á því stórtækar breytingar. Úr því sem komið er tel ég að tekist hafi með viðunandi hætti að samræma öryggis-, nýtingar-, hljóðvistar-, og náttúrverndarsjónarmið. Guðlagur Þ. Þórðarson lagði fram svohljóðandi bókun: Undirritaður fagnar þeirri breytingu, sem hefur orðið á gatnamótunum frá því að fyrstu tillögur voru kynntar í nefndinni. Tekið hefur verið tillit til gagnrýni fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og fleiri aðila á umferðartæknileg atriði og verður umferð um þessi gatnamót augljóslega greiðfærari en leit út fyrir í fyrstu. Undirritaður harmar hins vegar að gatnamótin séu færð á samþykkt helgunarsvæði Úlfarsár og er það kaldhæðnislegt að það sé gert rúmlega tveimur mánuðum eftir að helgunarsvæðið er samþykkt í borgarstjórn. Eins og málið er lagt fyrir er ekki nein leið fær til að færa gatnamótin og sér undirritaður sér ekki fært annað en að samþykkja þessa breytingu á aðalskipulagi.

15. Vöktun á mengun í Úlfarsá. Lögð fram á ný 1. áfangaskýrsla Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis um mælingar 1999 og 2000, janúar 2001. Lúðvík E. Gústafsson kynnti.

16. Samningur við Mosfellsbæ um breytt staðarmörk. Lagður fram til kynningar samningur Mosfellsbæjar og Reykjavíkur dags. 28. febrúar 2001. Nefndin samþykkir með 5 samhljóða atkvæðum svohljóðandi umsögn: Nefndin fagnar samningi Mosfellsbæjar og Reykjavíkur um breytt staðarmörk. Sérstaklega fagnar nefndin þeim lausnum, sem áformuð eru í skolpmálum Mosfellsbæjar og þeim möguleikum, sem nú opnast við uppbyggingu heildstæðs útivistarsvæðis Reykvíkinga í Úlfarsárdal, beggja vegna Úlfarsárinnar.

17. Staðardagskrá 21. Næstu skref. Hjalti Guðmundsson kynnti.

18. Losunarstaður fyrir jarðveg á Austurheiðum. Lagt fram bréf gatnamálastjóra, dags. 5. mars 2001, og minnisblað garðyrkjustjóra dags. 16. febrúar 2001. Sigurður Skarphéðinsson kom á fundinn. Nefndin samþykkir svohljóðandi tillögu með 5 samhljóða atkvæðum: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd getur fallist á fyrirhugaða notkun jarðefna sem til falla vegna byggingarframkvæmda, til landmótunar á Hólmsheiði, með eftirfarandi skilyrðum: 1. Jarðefni, sem fyrirhugað er að nota séu hrein og ómenguð af mannavöldum. 2. Tryggt verði að losun annarra efna eigi sér ekki stað, t.d. með því að takmarka umferð að svæðinu, sem á að taka við jarðefnunum. 3. Dreifing efnanna verði þar sem enginn eða lítill gróður er fyrir. 4. Uppgræðsla landmótunarsvæðis hefjist eins fljótt og kostur er. 5. Ef fyrirhugað er að nota önnur efni til dreifingar á svæðinu, svo sem lífrænan landbúnaðarúrgang (svína- eða hænsnaskít), verði fyrst leitað eftir samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Sólveig Jónasdótir lagði fram svohljóðandi bókun: Samþykki með þeim fyrirvara að tryggt sé að reiðleiðir hestamanna takmarkist ekki við framkvæmdirnar.

Fundi slitið kl. 14.45.

Hrannar B. Arnarsson Sólveig Jónasdóttir Kolbeinn Ó. Proppé Guðlaugur Þór Þórðarson Ólafur F. Magnússon Ragnheiður Héðinsdóttir