Heilbrigðisnefnd - 63. fundur

Heilbrigðisnefnd

4

UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND REYKJAVÍKUR

Ár 2001, fimmtudaginn 22. febrúar kl. 12.00 var haldinn 64. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Hrannar B. Arnarsson, Sólveig Jónasdóttir, Kolbeinn Ó. Proppé, Ragnheiður Héðinsdóttir, Helga Jóhannsdóttir og Ólafur F. Magnússon. Enn fremur sátu fundinn Jóhann Pálsson, Þórólfur Jónsson, Ólafur Bjarnason, Lúðvík E. Gústafsson, Oddur R. Hjartarson og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

Heilbrigðismál:

1. Beiðni um afléttingu leigubanns íbúðar að Hringbraut 86. Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlitsins dags. 13. febrúar 2001. Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.

2. Svínalykt á Kjalarnesi. Kynnt könnun Heilbrigðiseftirlitsins á umfangi svínalyktar á Kjalarnesi. Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn.

3. Umhverfisáhrif hrossa í Reykjavík. Lögð fram á ný skýrsla Heilbrigðiseftirlitsins um umhverfisáhrif hrossa í Reykjavík. Jón Benjamínsson, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn.

4. Hólmsland og Lækjarbotnar í Reykjavík. Lögð fram skýrsla Heilbrigðiseftirlitsins um ástand sumarhúsa og lóða í Hólmslandi og Lækjarbotnum, janúar 2001. Jón Benjamínsson kynnti skýrsluna. Frestað.

5. Ekkert tóbak undir 18. Kynnt ósk um samstarf í átaki gegn sölu tóbaks til yngri en 18 ára og lagt fram ódags. bréf Jóns. H. Magnússonar, verkefnisstjóra. Nefndin samþykkti með 6 samhljóða atkvæðum að taka þátt í verkefninu.

6. Reglubundið eftirlit í leikskólum. Kynntar niðurstöður heilbrigðiseftirlits í leikskólum borgarinnar. Gunnar Kristinsson, heilbrigðisfulltrúi, kynnti. Formaður bauð Gunnar velkominn á hans fyrsta fund í nefndinni.

7. Áminningar skv. l. um hollustuhætti og mengunarvarnir. Lagður fram til kynningar listi um 49 áminningar vegna brota á reglum um sölu tóbaks o.fl.

8. Frumvarp til laga um br. á l. um dýrasjúkdóma o.s.frv. Lagt fram bréf landbúnaðarnefndar Alþingis, dags. 19. febrúar 2001, ásamt tillögu að umsögn um lagabreytingarnar. Nefndin samþykkti með 6 samhljóða atkvæðum svohljóðandi umsögn: Vísað er til bréfs nefndasviðs Alþingis, dags. 19. febrúar s.l., þar sem óskað er umsagnar Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um frumvarp til laga um br. á l. um dýrasjúkdóma, 291. mál, sjúkraskrá o.fl. - Nefndin gerir ekki athugasemdir við frumvarpið.

9. Listar frá afgreiðslufundum.

10. Bréf Heilbrigðiseftirlitsins varðandi útgáfu leyfa til hundahalds.

Önnur mál:

11. Olíuslys í Örfirisey. Lögð fram greinargerð Heilbrigðiseftirlitsins um olíuslys í Örfirisey og öryggis- og eftirlitsmál í olíubirgðastöðinni í Örfirisey. Guðmundur B. Friðriksson og Sigurður Ásbjörnsson, heilbrigðisfulltrúar, komu á fundinn. Frestað.

Umhverfismál:

12. Breyting á aðalskipulagi Kópavogs. Lagt fram á ný til kynningar bréf Skipulagsstofnunar dags. 19. janúar 2001. Enn fremur lögð fram til kynningar bréf Hönnunar hf. og Fiski-Rannsókna og ráðgjafar, ódags., og bréf Náttúrverndar ríkisins. 8. janúar 2001. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Reykjavíkurlistans að bókun: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fagnar þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar að staðfesta ekki umdeildar breytingar á Aðalskipulagi Kópavogs 1992-2012 varðandi svæðið milli vatns og vegar við Vatnsenda. Nefndin hvetur umhverfisráðherra til að staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar. Nefndin samþykkti bókunina með 5 samhljóða atkvæðum. Fulltrúar D-listans lögðu fram svohljóðandi bókun: Við fögnum þeirri gagnrýni, sem fram kemur í umfjöllun Skipulagsstofnunar á vinnubrögð Kópavogsbæjar vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga við Elliðavatn. Við minnum jafnframt á andstöðu þúsunda íbúa á höfuðborgarsvæðinu við áform um að reist verði fjölbýlishús milli Vatnsendavegar og Elliðavatns eins og m.a. kom fram í undirskriftasöfnun samtakanna “Sveit í borg” og í samhljóða samþykkt á aðalfundi Stangaveiðifélags Reykjavíkur. – Við leggjumst eindregið gegn þessum áformum Kópavogsbæjar, sem sýna vel þörfina á samræmdu skipulagi á höfuðborgarsvæðinu. Það næst best fram með sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Kolbeinn Proppé lagði fram svohljóðandi bókun: Ég lýsi furðu minni á vinnubrögðum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í þessu mikilvæga máli. Á síðasta fundi nefndarinnar, þann 8. febrúar, var samstaða allra annarra nefndarmanna um að standa að þeirri bókun, sem nú hefur verið samþykkt. Guðlaugur Þór taldi sig hins vegar ekki geta tekið þátt í afgreiðslu málsins að svo stöddu og bað því um frestun á milli funda. Nú er málið tekið aftur upp að beiðni Guðlaugs, en þá sér hann sér ekki fært að mæta. Þessi vinnubrögð hafa því ekkert haft í för með sér annað en að fresta málinu um hálfan mánuð. Engar athugasemdir hafa borist frá Guðlaugi Þór, hvorki til stuðnings bókuninni né gegn henni. Ég átel slík vinnubrögð í jafn mikilvægu máli og hér er á ferð.

13. Ofanvatnsræsi í Elliðaár. Lagt fram á ný bréf Gatnamálastjórans í Reykjavík, dags. 8. febrúar 2001, ásamt tillögu að framkvæmdaáætlun og bréf Orkuveitu Reykjavíkur dags. 5. febrúar 2001. Sigurður Skarphéðinsson, gatnamálastjóri, kom á fundinn. Nefndin samþykkti með 5 samhljóða atkvæðum tillögu gatnamálastjóra um forgangsröðun og viðbrögð við þeim athugasemdum, sem borist hafa og felur gatnamálastjóra að hefja undirbúning framkvæmda á grundvelli tillögunnar. 14. Framtíðarnýting Vatnsmýrar og staðsetning Reykjavíkurflugvallaar. Lagt fram bréf Borgarstjórans í Reykjavík dags. 13. febrúar 2001.

- Ragnheiður Héðinsdóttir vék af fundi kl. 13.30.

15. Könnun á friðlýsingu Tröllafoss. Lagt fram bréf Náttúruverndar ríkisins dags. 14. febrúar 2001. Formaður lagði fram svohljóðandi tillögu, sem var samþykkt var með 5 samhljóða atkvæðum: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd fagnar áhuga Mosfellsbæjar á friðlýsingu fossa innan marka sveitarfélagsins. Hugmyndir Mosfellsbæjar eru í góðu samræmi við nýsamþykkta stefnumótun Reykjavíkur um friðlýsingu 100-250 m helgunarsvæðis umhverfis m.a. Leirvogsá, Úlfarsá og Suðurá. Áður en afstaða er tekin til efnis og innihalds friðlýsingar einstakra fossa innan þess svæðis, sem Reykjavíkurborg hefur lagt til að verði friðað sem fólkvangur, samþykkir nefndin að óska eftir afstöðu Mosfellsbæjar og annarra aðila máls til tillagna Reykjavíkurborgar.

16. Matsáætlun um færslu Hringbrautar. Lagt fram til kynningar afrit af bréfi Náttúrverndaar ríkisins dags. 7. febrúar 2001.

17. Víkurvegur-Reynisvatnsvegur, breyting á aðalskipulagi. Kynnt svör við athugasemdum við aðalskipulagstillögu. Lagt fram bréf borgarverkfræðings, dags. 21. febrúar 2001, ásamt afriti af bréfi borgarverkfræðings til borgarráðs dags. 15. febrúar 2001. Frestað.

18. Áhættumat á svæði almannavarna – skýrsla. Lögð fram til kynningar skýrsla um “áhættumat á svæði almannavarna –KMRS. Umsagnar nefndarinnar er óskað. Frestað.

19. Landlistasýning við Rauðavatn. Lagt fram bréf Borgarstjórans í Reykjavík dags. 6. febrúar 2001.

20. Samvinna umhverfis- og heilbrigðisnefndar og menningarmálanefndar. Lagt fram bréf menningarmálastjóra dags. 8. febrúar 2001.

21. Staðardagskrá 21. Lagt fram bréf Borgarstjórans í Reykjavík dags. 6. febrúar 2001.

Önnur mál:

22. Vöktun á mengun í Úlfarsá. Lögð fram 1. áfangaskýrsla Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis um mælingar 1999 og 2000, janúar 2001. Frestað.

Fundi slitið kl. 14.15.

Hrannar B. Arnarsson
Sólveig Jónasdóttir
Kolbeinn Ó. Proppé
Ragnheiður Héðinsdóttir
Ólafur F. Magnússon
Helga Jóhannsdóttir