Heilbrigðisnefnd - 62. fundur

Heilbrigðisnefnd

UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND REYKJAVÍKUR

Ár 2001, fimmtudaginn 1. febrúar kl. 11:00 var haldinn 62. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Hrannar B. Arnarsson, Kolbeinn Ó. Proppé, Ragnhildur Helgadóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Ólafur F. Magnússon. Ragnheiður Héðinsdóttir boðaði forföll. Enn fremur sátu fundinn Jóhann Pálsson, Hjalti Guðmundsson og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Staðardagskrá 21. Lagt fram á ný bréf Landverndar, dags. 2. janúar 2001 og drög að breytingum með hliðsjón af umræðum í Borgarstjórn á texta Staðardagskrár. Drögin voru samþykkt samhljóða. Nefndin samþykkti samhljóða að vísa Umhverfisáætlun Reykjavíkur – leiðin til sjálfbærs samfélags – Staðardagskrá 21 að nýju til staðfestingar borgaráðs, með áorðnum breytingum. Ólafur F. Magnússon og Guðlaugur Þór Þórðarson fögnuðu þeim jákvæðu breytingum, sem orðið hafa á Staðardagskrá 21, en vísa að öðru leyti til fyrri bókunar sinnar um málið.

- Hjalti Guðmundsson vék af fundi kl. 11.45. - Ólafur Bjarnason kom á fundinn kl. 11.50.

2. Ofanvatnsræsi í Elliðaár. Lögð fram á ný skýrsla gatnamálastjóra ásamt bréfi dags. 12. desember 2000. Einnig lagðar fram á ný umsagnir garðyrkjustjóra, dags. 18. janúar 2001, umsögn Veiðimálastofnunar, dags. 15. janúar 2001, og umsögn Heilbrigðiseftirlitsins dags. 23. janúar 2001. Lagðar voru fram umsagnir Náttúrverndar ríkisins dags. 30. janúaar 2001 og umsögn Stangveiðifélags Reykjavíkur dags. 1. febrúar 2001. Sigurður Skarphéðinsson, gatnamálstjóri kom á fundinn. Svohljóðandi tillaga formanns var samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd felur Gatnamálastjóra að vinna tillögu að framkvæmdaáætlun á grundvelli skýrslu Línuhönnunar hf. um ofanvatnsræsi í Elliðaár, þess tímaramma sem fram kemur í samþykktum tillögum starfshóps um lax- og silungsvatnasvæði í borgarlandinu og þeirra athguasemda, sem fram hafa komið og leggja fyrir næsta fund nefndarinnar.”

Önnur mál:

3. Ólafur F. Magnússon lagði fram svohljóðandi tillögu: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur styður hugmyndir Kópavogsbæjar um að nágrannasveitarfélög Reykjavíkur taki þátt í atkvæðagreiðslu um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar og minnir á nauðsyn þess, að litið sé á höfuðborgarsvæðið sem eina skipulagslega heild. Framkomnar óskir Kópavogsbæjar í þessu sambandi eru sjálfsagðar og eðlilegar en eru engu að síður í fullkominni mótsögn við þá afstöðu bæjarfélagsins að skipulagsmál á Vatnsendasvæðinu við Elliðavatn séu einkamál Kópavogsbæjar. Umhverfis- og heilbrigðisnefnd leggur til að samhliða þátttöku Kópavogsbúa í atkvæðagreiðslu um Reykjavíkurflugvöll fái Reykvíkingar að greiða atkvæði um fyrirhugað skipulag á Vatnsenda í landi Kópavogs þar sem m.a. er fyrirhuguð fjölbýlishúsaabyggð nálægt bökkum Elliðavatns. Frestað.

4. Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram svohljóðandi tillögu: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fer þess á leit við borgarráð að settur verði á fót vinnuhópur, sem að hefur það að markmiði að koma fram með hugmyndir um að styrkja og efla útivistarsvæði borgarinnar og stuðla að aukinni notkun þeirra meðal borgarbúa. Sérstaklega verði horft til svæða eins og Miklatúns og Hljómskálagarðsins. Vinnuhópurinn verði þriggja manna, tveir frá meirihluta og einn frá minnihluta. Hópurinn skili niðurstöðum fyrir 1. október 2001.

Fundi slitið kl. 12.05

Hrannar B. Arnarsson
Kolbeinn Ó. Proppé
Ragnhildur Helgadóttir
Guðlaugur Þór Þórðarson
Ólafur F. Magnússon.