Heilbrigðisnefnd - 61. fundur

Heilbrigðisnefnd

Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur

Ár 2001, fimmtudaginn 25. janúar kl. 12.00 var haldinn 61. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Sólveig Jónasdóttir, Kolbeinn Proppé, Ragnhildur Helgadóttir, Ragnheiður Héðinsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Ólafur F. Magnússon. Enn fremur sátu fundinn Ólafur Bjarnason, Þórólfur Jónsson, Oddur R. Hjartarson og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

Heilbrigðismál: 1. Svínabúið Brautarholti. Lögð fram á ný tvö bréf Svínabúsins í Brautarholti, dags. 10. janúar 2001, varðandi starfsleyfi svínabúsins. Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn. Svohljóðandi bókun var samþykkt samhljóða: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur samþykkir beiðni Svínabúsins að Brautarholti um að ekki verði framfylgt, tímabundið, ákvæðum starfsleyfis um byggingu hauggeymslu til 1. nóvember n.k. gegn eftirtöldum skilyrðum: 1. Nú þegar verði byggð öryggishauggeymsla, er rúmi a.m.k. þriggja mánaða úrgang frá fyrirtækinu. 2. Aðilar málsins hefji nú þegar viðræður um aðra ásættanlega kosti við förgun mykjunnar. 3. Finnist ekki aðrir ásættanlegir kostir, skal byggingu sex mánaða hauggeymslu lokið eigi síðar en 1. nóvember 2001. 4. Fyrirtækið fari í einu og öllu eftir öðrum ákvæðum starfsleyfisins og öllum ákvæðum og reglum varðandi meðferð úrgangs frá búinu. 5. Ekki verða veittir frekari frestir á ákvæðum starfsleyfis. 6. Standi starfsleyfishafi ekki við ofangreind skilyrði, fellur samþykki nefndarinnar úr gildi. Greinargerð fylgdi bókuninni.

2. Hringrás ehf. Lagt fram á ný til kynningar bréf Umhverfisráðuneytisins, dags. 20. desember 2000, varðandi erindi Hringrásar ehf., dags. 19. desember 2000, um framlengingu tímamarka fyrir undanþágu frá starfsleyfi. Umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 24. janúar 2001, lögð fram. Sigurður Ásbjörnsson, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn. Nefndin gerir ekki athugasemdir við umsögnina.

3. Eftirlit með innflutningi matvæla. Kynnt staða mála. Rögnvaldur Ingólfsson, sviðsstjóri, kom á fundinn. Ólafur F. Magnússon lagði fram svohljóðandi bókun: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur lýsir þungum áhyggjum yfir því að eftirlit með innflutningi á nautgripaafurðum frá löndum þar sem kúariða hefur greinst virðist ekki vera í lagi, en endurtekin dæmi um það hafa komið í ljós að undanförnu. Umhverfis- og heilbrigðisnefnd ítrekar því andstöðu sína við innflutning á nautakjöti frá löndum þar sem kúariða finnst og telur að heilbrigðissjónarmið eigi ekki að vikja fyrir viðskiptasamningum og verslunarhagsmunum. Umhverfis- og heilbrigðisnefnd varar við þeim sjónarmiðum, sem m.a. koma fram í yfirlýsingu stjórnar matvöruhóps Samtaka verslunarinnar. Þar má finna fullyrðingar um “öruggar afurðir” sem ekki standast, þar sem enn finnast ekki rannsóknaraðferðir sem taka af allan vafa um heilbrigði sláturafurða frá kúariðusýktum löndum. Jafnframt er gefið í skyn að kröfur um innflutningsbann séu byggðar á “sértækum hagsmunum og vanþekkingu” og að eftirlit sé í lagi með sláturafurðum. Það var Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur sem fyrst gagnrýndi opinberlega innflutning á nautlundum frá Írlandi og vinnubrögð eftirlitsaðila tengd þeim innflutningi. Umhverfis- og heilbrigðisnefnd stjórnast ekki af “sértækum hagsmunum” heldur hefur heilbrigðissjónarmið og almannaheill að leiðarljósi. Samþykkt með 4 atkvæðum. Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram svohljóðandi bókun: Ég er sammála fyrstu málsgrein þessarar ályktunar. Ragnheiður Héðinsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun: Ég tek undir þau sjónarmið að heilbrigðissjónarmið eigi ekki að víkja fyrir viðskipta- og verslunarhagsmunum, ef þau stangast á. Hins vegar tel ég ekki rétt að nefndin blandi sér frekar í opinber skoðanaskipti um málið á meðan stofnanir, sem fara með heilbrigðiseftirlit vinna að úttekt á innflutningi á afurðum unnum úr nautgripum.

4. Áminningar skv. 26. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kynntar 4 áminningar.

5. Listar frá afgreiðslufundum.

6. Bréf Heilbrigðiseftirlitsins um útgáfu leyfa til hundahalds.

Umhverfismál:

7. Mislæg gatnamót Hringvegar og Víkurvegar. Lögð fram á ný skýrsla um mat á umhverfisáhrifum vegna mislægra gatnamóta Hringvegar og Víkurvegar - Reynisvatnsvegar að Reynisvatni. Enn fremur lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 24. janúar 2001, bréf Fuglaverndunarfélags Íslands, dags. 20. janúar 2001, og bréf Íbúasamtaka Grafarvogs dags. 17. janúar 2001. Sigurður Ásbjörnsson, heilbrigðisfulltrúi, kynnti umsögn Heilbrigðiseftirlitsins. Guðlaugur Þór Þórðarson lagðir fram svohljóðandi bókun, sem samþykkt var samhljóða: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd vekur athygli á því að veglagning mislægra gatnamóta Víkurvegar og Hringbrautar eru vel innan þess helgunarsvæðis sem borgarstjórn samþykkti þann 18. janúar s.l. Helgunarsvæðið er 100-250 m, en fyrirhugaður vegur er 50 metra frá bakka. Hugmyndir um helgunarsvæði eru settar fram til að vernda lífríki ánna og nauðsynlegt er að framfylgja þessu.

8. Nýting á hrossataði frá hesthúsum í Reykjavík. Lagt fram bréf Ólafs Bjarnasonar, yfirverkfræðings, dags. 18. janúar 2001, ásamt minnisblaði Þórólfs Jónssonar, deildarstjóra hjá Garðyrkjudeild. Nefndin gerir ekki athugsemdir við umsagnirnar.

9. Sundabraut, straumlíkan af Elliðavogi og ósasvæði Elliðáa. Lagður fram til kynningar útdráttur Verkfærðistofunnar Línauhönnunar hf. af straumlíkani af Elliðavogi og ósasvæði Elliðaánna dags. í október 2000. Ólafur Bjarnason kynnti.

10. Gufuneshaugar, urðunarsaga, gasmælingar og öryggi á framkvæmdatíma Sundabrautar. Lögð fram til kynningar skýrsla Línuhönnunar, unnin fyrir Vegagerðina og Borgarverkfræðinginn í Reykjavík, um urðunarsögu Gufunesshauga, gasmælingar og öryggi á framkvæmdatíma Sundabrauta dags. í september 2000. Ólafur Bjarnason kynnti. Nefndin samþykkti að óska eftur umsögn Heilbrigðiseftirlitsins um skýrsluna.

11. Flugvöllur í Vatnsmýri. Lögð fram til kynningar greinargerð samvinnunefndar um svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið um flugvallarhugmyndir á höfuðborgarsvæðinu dags. í janúar 2001. Ólafur Bjarnason kynnti.

12. Umsagnir um tillögur að matsáætlunum. Lögð fram til kynningar 2 afrit af bréfum Skipulagsstofnunar varðandi umsögn um tillögu að matsáætlun Sundabrautar, 1. áfanga, og borun tveggja rannsóknarhola á Hengilssvæðinu í Ölfusi.

13. Nefnd um samstarfsverkefni Kópavogs og Reykjavíkur. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 3. janúar 2001.

14. Landlistarsýning við Rauðavatn. Lögð fram orðsending skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 11. janúar 2001, varðandi erindi skólastjóra Vinnuskólans. Nefndin samþykkti svohljóðandi bókun samhljóða: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd telur hugmyndir Vinnuskólans afar áhugaverðar og vel til þess fallnar að auka útivistargildi svæðisins, enda verði þess gætt að umhverfisröskun verði í lágmarki og að fullt samráð verði haft við Umhverfis- og heilbrigðisnefnd um framkvæmdir á svæðinu.

15. Viðey og aðrar eyjar í Kollafirði. Lagt fram að nýju bréf menningarmálastjóra, dags. 5. janúar 2001, ásamt umsögn garðyrkjustjóra dags. 17. janúar 2001. Nefndin samþykkti umsögnina.

16. Ofanvatnsræsi í Elliðaár. Lögð fram á ný skýrsla gatnamálastjóra ásamt bréfi dags. 12.desember 2000. Einnig lagðar fram umsagnir garðyrkjustjóra, dags. 18. janúar 2001, umsögn Veiðimálastofnunar, dags. 15. janúar 2001, og umsögn Heilbrigðiseftirlitsins dags. 23. janúar 2001. Frestað.

17. Tilraunaverkefni í sorphirðu í Breiðholti. Lögð fram drög að skýrslu hreinsunardeildar gatnamálastjóra. Einar B. Bjarnason kom á fundinn. Nefndin fagnar þeim góða árangri sem náðst hefur í tilraunaverkefni með sorphirðu í Breiðholti.

18. Staðardagskrá 21. Lagt fram bréf Landverndar, dags. 2. janúar 2001, og drög að breytingum með hliðsjón af umræðum í Borgarstjórn á texta Staðardagskrár. Frestað.

Önnur mál:

19. Nefnd um endurskoðun á samþykkt um hundahald í Reykjavík. Umhverfis – og heilbrigðisnefnd samþykkir að skipa nefnd til að endurskoða gildandi samþykkt um hundahald í Reykjavík og vinna að tillögum um aðrar aðgerðir, sem stuðlað geta að aukinni sátt um hundahald í borginni. Nefndina skipi tveir fulltrúar R-lista og einn fulltrúi D-lista. Auk þess verði Húseigendafélaginu og Hundaræktunarfélagi Íslands gefinn kostur á að tilnefnda sinn hvorn aðilann í nefndina. Nefndin skal skila niðurstöðum til Umhverfis- og heilbrigðisnefndar fyrir 1. september 2001.

Nefndin samþykkti að halda aukafund n.k. fimmtudag kl. 11.00, þar sem fjallað verði um Staðardagskrá 21 og skýrslu um ofanvatnsræsi í Elliðaárdal.

Fundi slitið kl. 14.35.

Sólveig Jónasdóttir
Kolbeinn Proppé
Ragnhildur Helgadóttir
Ragnheiður Héðinsdóttir
Guðlaugur Þór Þórðarson
Ólafur F. Magnússon