Heilbrigðisnefnd
UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND REYKJAVÍKUR
Ár 2001 fimmtudaginn 11. janúar var haldinn 60. fundur Umhverfis- og Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Hrannar B. Arnarsson, Kolbeinn Proppé, Ragnhildur Helgadóttir, Ragnheiður Héðinsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Ólafur F. Magnússon. Enn fremur sátu fundinn Jóhann Pálsson, Þórólfur Jónsson, Lúðvík E. Gústafsson, Oddur R. Hjartarson og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
Heilbrigðismál:
1. Campylobactermengun og matarsýkingar árið 2000. Kynning. Rögnvaldur Ingólfsson, sviðstjóri matvælasviðs, kynnti málið. Nefndin samþykkti svohljóðandi bókun samhljóða: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur lýsir ánægju með þann árangur sem náðst hefur gegn Campylobacter mengun í ferskum kjúklingum og þeirri fækkun sýkinga í mönnum sem kemur fram í skýrslu Heilbrigðiseftirlitsins til nefndarinar í dag. Árangurinn sýnir með skýrum hætti að þær hertu kröfur um sýnatökur og frystingu sem Heilbrigðiseftirlitið gerði og kjúklingabændur unnu eftir í góðu samstarfi við heilbrigðisyfirvöld voru réttmætar og raunhæfar. Nefndin leggur á það áherslu að Heilbrigðiseftirlitið fylgi þessum árangri eftir á árinu 2001 og haldi áfram að kanna með reglubundnum hætti ástandið hvað varðar Campylobacter og Salmonella í kjúklingum á markaði og fylgist með að farið sé að reglum um sýnatöku, merkingar og rekjanleika kjúklinga.
2. Innflutningur og sala á írsku nautakjöti. Rögnvaldur Ingólfsson, sviðstjóri matvælasviðs kom á fundinn. Lögð var fram auglýsing nr. 324/1999 um innflutning á sláturafurðum, sem ekki hafa fengið hitameðferð, yfirlit um tilkynnt tilfelli kúariðu í ýmsum löndum, og listi um flokkun dýrasjúkdóma. Nefndin samþykkti samhljóða svohljóðandi bókun. Bókuninni fylgir greinargerð. Umhverfis - og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur mótmælir því harðlega að leyft hafi verið að flytja inn nautakjöt frá Írlandi, þar sem greinst hefur kúariða og bendir á að innflutningurinn virðist í andstöðu við þær reglur, sem í gildi eru. Ekki þarf að fjölyrða um varnarleysi neytenda gagnvart slíkum innflutningi. Íslenskir neytendur verða að geta treyst því að á borðum þeirra sé ekki kjöt, sem sýkt er kúariðu. Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur leggst því alfarið gegn innflutningi á nautakjöti frá löndum, þar sem kúariða hefur greinst. Nefndin felur því matvælasviði Heilbrigðiseftirlitsins að kanna ítarlega hvernig eftirlit með innfluttum matvælum er framkvæmt og gera nefndinni grein fyrir hugsanlegum leiðum til að tryggja neytendum í Reykjavík öruggari vernd gegn erlendum sýkingarhættum.
3. Heilbrigðiseftirlit á húðflúrstofum. Kynning. Árný Sigurðardóttir, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn. Nefndin óskar eftir tillögum Heilbrigðiseftirlitsins um endurskoðun á reglum um húðflúr og húðflúrstofur.
- Ragnhildur Helgadóttir vék af fundi kl. 13.40. - Jóhanna Þórdórsdóttir kom á fundinn kl. 13.45.
4. Áminning skv. 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Lögð fram til kynningar. Rósa Magnúsdóttir, sviðstjóri heilbrigðissviðs, kom á fundinn.
5. Tillaga að matsáætlun Sundabrautar, 1. áfangi. Lögð fram til kynningar umsögn Heilbrigðiseftirlitsins. Nefndin gerir ekki athugasemdir við umsögnina.
6. Faxamjöl, starfsleyfi. Lagt fram til kynningar bréf Heilbrigðiseftirlitsins dags. 4. janúar 2000. Sigurður Ásbjörnsson, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn. Nefndin gerir ekki athugasemdir.
7. Heilbrigðisfulltrúar. Ráðning tveggja heilbrigðisfulltrúa á heilbrigðissvið. Lagður fram listi yfir umsækjendur. Nefndin samþykkti ráðningu Einars Oddssonar og Ingibjargar H. Elíasdóttur í stöðurnar.
8. Listar frá afgreiðslufundum.
9. Bréf Heilbrigðiseftirlitsins varðandi útgáfu leyfa til hundahalds. Umhverfismál:
10. Starfshópur um stefnu í umhverfismálum. Lagt fram á ný bréf starfshóps um stefnu í umhverfismálum, dags. 21. desember 2000, ásamt greinargerð og tillögum meirihluta starfshópsins, þeirra Hrannars B. Arnarssonar og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Enn fremur lögð fram bókun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Nefndin samþykkti svohljóðandi bókun með 3 atkvæðum: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fagnar framkomnum tillögum um heildarstefnumótun í málefnum vatnasvæða laxa og silunga innan Reykjavíkur. Nefndin tekur undir þær tillögur, sem þar koma fram og telur þær traustan grunn undir það mikilvæga starf, sem framundan er í uppbyggingu og verndun þessara nátturperlna borgarlandsins. Nefndin er reiðubúin að axla þá miklu ábyrgð, sem tillögurnar gera ráð fyrir að henni sé falin og áréttar mikilvægi þess að forræði hennar nái til allra vatnasviða innan borgarinnar. Þó að Elliðaárnar falli þar undir, telur nefndin brýnt að nýta þá miklu reynslu og þekkingu innan Orkuveitunnar á málefnum ánna með samkomulagi um áframhaldandi aðild hennar að umsjón ánna. Guðlaugur Þór Þórðarson og Ólafur F. Magnússon lögðu fram svohljóðandi bókun: Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að starfshópurinn hafi ekki nýtt tækifærið til að taka á vanda Elliðaánna. Við viljum einnig vekja athygli á því, að formaður nefndarinnar er nú þegar kominn á flótta frá sínum eigin tillögum. Í tillögum starfshópsins kemur fram að: “ekki er þörf á breytingu vegna Elliðaánna”, og “Árnar verði áfram í umsjón Orkuveitunnar”. Í greinargerð er það síðan sérstaklega áréttað að Elliðaárnar skuli vera á forræði Orkuveitunnar. Nú bóka fulltrúar R-listans og formaðurinn, að þeir árétti mikilvægi þess að forræði nefndarinnar nái til allra vatnasviða innan borgarinnar. Að öðru leyti vísum við í bókun Guðlaugs Þórs, sem fram kemur í niðurstöðum hópsins. Formaður lagði fram svohljóðandi bókun: Öllum, sem lesa tillögur starfshópsins ætti að vera ljóst, að því fer fjarri að ekki sé tekið á málefnum Elliðaánna. Bókun Sjáfstæðismanna er því hreinn útúrsnúningur. Guðlaugur Þór Þórðarson bókaði: Formaður ætti að kynna sér viðhorf forystu Stangveiðfélags Reykjavíkur til niðurstöðu starfshópsins áður en hann afgreiðir gagnrýni á tillögurnar sem útúrsnúning. Í bókun GÞÞ með niðurstöðu starfshópsins kemur einnig fram málefnaleg gagnrýni á niðurstöðu hópsins og formanni er frjálst að vera ósammála þeirri gagnrýni, sem og annarri, en það er nokkuð hrokafullt að afgreiða alla gagnrýni á eigin verk sem útúrsnúning.
11. Mislæg gatnamót Hringvegar og Víkurvegar. Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum vegna mislægra gatnamóta Hringvegar og Víkurvegar - Reynisvatnsvegar að Reynisvatni. Sigurður Skarphéðinsson, gatnamálastjóri, kom á fundinn. Frestað.
12. Þróunaráætlun miðborgar og mótun umhverfis. Lagt fram til kynningar. Nefndin átelur, að tillögurnar hafi ekki verið lagðar fyrir hana áður en þær voru samþykktar í borgarráði og treystir því, að slík málsmeðferð endurtaki sig ekki.
13. Viðey og aðrar eyjar á Kollafirði. Lagt fram bréf menningarmálastjóra Reykjavíkurborgar, dags. 5. janúar 2001, varðandi tillögu menningarmálanefndar. Nefndin samþykkti að vísa erindinu til umsagnar garðyrkjustjóra.
Önnur mál: 14. Svínabúið Brautarholti. Lögð fram tvö bréf Svínabúsins í Brautarholti, dags. 10. janúar 2001, varðandi starfsleyfi svínabúsins. Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn. Frestað. 15. Fyrirspurn á endurskoðun hundasamþykktar. Guðlaugur Þór Þórðarson spurðist fyrir um endurskoðun hundasamþykktar fyrir Reykjavík. Fram kom að málið verður tekið upp á næsta fundi nefnarinnar.
Fundi slitið kl. 14.30.
Hrannar B. Arnarsson
Kolbeinn Proppé
Ragnhildur Helgadóttir
Ragnheiður Héðinsdóttir
Guðlaugur Þór Þórðarson
Ólafur F. Magnússon