Forsætisnefnd - Fundur nr. 344

Forsætisnefnd

Ár 2024, föstudaginn 14. júní, var haldinn 344. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í fjarfundi og hófst kl. 10:06. Eftirtaldir fulltrúar og áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Alexandra Briem, Einar Sveinbjörn Guðmundsson Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir . Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal, Ólöf Magnúsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 18. júní 2024.
    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:
    a) Umræða um árangur af flokkun og þróun í sorphirðuþjónustu. (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar)
    b) Umræða um stöðu samgöngumála í Reykjavík ( að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins)
    c) Umræða um mál Flokks fólksins á fundum borgarstjórnar veturinn 2023 til 2024 (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)
    d) Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks um að hækka hlutfall íbúða Félagsbústaða í Reykjavík
    e) Umræða um Viðey ( að beiðni borgarfulltrúa Vinstri grænna)
    f) Umræða um gjaldskyld bílastæði í Reykjavík (að beiðni borgarfulltrúa  Sjálfstæðisflokksins)
    g) Tillaga Flokks fólksins um breytt skipulag og fyrirkomulag á vinnu skólasálfræðinga
    h) Umræða um starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)
    j) Kosning forseta borgarstjórnar til eins árs og fjögurra varaforseta
    k) Kosning tveggja skrifara til eins árs og tveggja til vara
    l) Kosning sjö borgarráðsfulltrúa til eins árs og sjö til vara, formannskjör
    m) Kosning í forsætisnefnd
    n) Kosning fjögurra fulltrúa í stjórn Faxaflóahafna sf. til eins árs og fjögurra til vara, formannskjör MSS24010053

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgastjórnar, dags. 12. júní 2024, varðandi breytingar á samþykkt öldungaráðs.
    Vísað til borgarstjórnar MSS23010279

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins mótmælti fækkun fulltrúa í ráðinu á sínum tíma og taldi að fækkun þeirra í öldungaráði úr níu fulltrúum í sjö væri ekki til góðs. Samtök aldraðra og Korpúlfar, samtök eldri borgara í Grafarvogi, áttu samkvæmt því ekki sérstaka fulltrúa í öldungaráði eftir þá breytingu. Öldungaráðið er borgarstjórn, nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni borgarbúa sem eru 67 ára og eldri og þess vegna mikilvægt að sem flestir hagsmunaaðilar hafi aðkomu að þessu ráði. Telur fulltrúinn því það vera til bóta að vikið hafi verið frá því sem upphaflega hafði verið lagt til.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 29. apríl 2024, varðandi tillögur á útfærslu á aðgerðaráætlun lýðræðisstefnu - skólaheimsóknir í Ráðhús Reykjavíkur
    Samþykkt með þeirri breytingu að gera skal ráð fyrir að lágmarki tveimur borgarfulltrúum í hverri heimsókn. MSS24040172

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun.

    Lögð er fram tillaga um skipulagðar skólaheimsóknir í Ráðhús Reykjavíkur. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem einungis 9. bekk er boðið að koma í Ráðhúsið og þiggja þar fræðslu um borgarstjórn. Verið er að velta vöngum yfir tveimur mis kostnaðarsömum útfærslum. Flokkur fólksins vill í þessu sambandi minna á tillögu Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarstjórn 12. desember 2023 að marka árlegan heimsóknardag fyrir börn að heimsækja ráðhúsið og hafa eins konar opið hús. Þessi tillaga er einföld í útfærslu og útilokar engan. Hugsunin er sú að borgarfulltrúar og starfsfólk muni taka á móti börnum, sýna þeim húsið og segja frá starfinu í ráðhúsinu. Foreldrar og kennarar eru vissulega velkomnir líka. Þessi tillaga mun ekki leiða af sér háan kostnað. Markmiðið er að dýpka þekkingu barna á hlutverki borgarstjórnar og veita börnum innsýn í ólík störf hjá Reykjavíkurborg. Yngri börnin kæmu í fylgd foreldra og fá tækifæri til að ganga um húsið, skoða rýmin og máta sig í sæti í sal borgarstjórnar. Flokkur fólksins er þó ekki andvígur hugmyndum meirihlutans í þessu sambandi en bendir á að flækjustig tillögu meirihlutans er hærra en í tillögu Flokks fólksins. 

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. júní 2024, varðandi nýja samþykkt fyrir áfrýjunarnefnd velferðarráðs.
    Vísað til borgarstjórnar VEL24050016

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins telur að ekki sé gott að fulltrúar velferðarráðs í minnihluta verði skikkaðir til að sitja í áfrýjunarnefnd án nokkurrar umbunar/launa. Hér er um töluverða viðbótar vinnu að ræða fyrir vikulega fundi sem krefjast góðs undirbúnings vegna þeirrar ábyrgðar og mikilvægi þeirra ákvarðana sem þar eru teknar - þrátt fyrir upplegg um hið gagnstæða. Á sama tíma og áfrýjunarnefnd fundar þarf fulltrúi Flokks fólksins einnig að vera tilbúinn sem varamaður í umhverfis- og skipulagsráði. Fulltrúi Flokks fólksins getur þess vegna ekki sótt alla fundi áfrýjunarnefndarinnar. Sú nefnd sem hér um ræðir ætti í raun að vera alfarið á ábyrgð meirihlutans sem stýrir henni og með heildarsýn á það hverjir fá jákvætt svar við sínum umsóknum og hverjir ekki.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. júní 2024, varðandi sumarleyfi borgarstjórnar.
    Vísað til borgarstjórnar. MSS23010287

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 11:28

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Líf Magneudóttir

Magnea Gná Jóhannsdóttir Marta Guðjónsdóttir

Sara Björg Sigurðardóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Forsætisnefnd 14.5.2024 - prentvæn útgáfa