Forsætisnefnd - Fundur nr. 334

Forsætisnefnd

Ár 2023, föstudaginn 5. janúar, var haldinn 334. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:01. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar og áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Líf Magneudóttir og Sabine Leskopf. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal, Ólöf Magnúsdóttir og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 9. janúar 2024.

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    a) Umræða um þjóðarhöll (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar)

    b) Umræða um gjaldskrárhækkanir Reykjavíkurborgar (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins)

    c) Umræða um stöðu Strætó bs. (að beiðni borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands)

    d) Umræða um skertan opnunartíma sundlauga á frídögum og hátíðardögum (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)

    e) Tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna um kosti þess að stofna til vinaborgasamstarfs við borg eða svæði í Palestínu

    f) Umræða um álit innviðaráðuneytisins, dags. 13. nóvember 2023, varðandi rétt borgarfulltrúa að setja málefni Ljósleiðarans ehf. á dagskrá borgarstjórnar (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins) MSS24010053

     

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 3. janúar 2023, þar sem drög að reglum um opinberar heimsóknir Reykjavíkur eru send forsætisnefnd til samþykktar.

    Frestað.

    Dagný Ingadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23120037

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á stöðu verkefna í aðgerðaáætlun atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar.

    -    Kl. 10:50 víkur Líf Magneudóttir af fundinum.

    Kamma Thordarson og Óli Örn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS22010337

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins gerir athugasemdir við að oddvitum minnihluta var ekki boðið að taka þátt í atvinnulífsfundi sem haldinn var með oddvitum meirihlutans og framáfólki í atvinnulífinu. Flokkur fólksins hefur ávallt lagt áherslu á að forgangsraða verkefnum. Þegar horft er til aðgerðaáætlunar atvinnu- og nýsköpunarstefnu sveitarfélagsins Reykjavíkur þarf að leggja áherslu á skilvirkni og að koma sem fyrst á fót nýsköpunarlausnum sem raunverulega létta á þjónustu og auka aðgengi borgarbúa að borgarkerfinu. Taka þarf mið af stöðu borgarsjóðs á hverjum tíma og láta á einkageiranum alfarið eftir þá tilraunastarfsemi og vöruþróun sem fyrirbærið nýsköpun í rauninni er. Allar áætlanir Reykjavíkurborgar varðandi atvinnuuppbyggingu og umbætur almennt verða þess vegna að vera með markvissri árangurstengingu frekar en ákveðinni áhættusækni og þeirri óvissu sem henni fylgir. Flokki fólksins finnst allt of mikið púður, tími og fé hafa farið í sköpun á alls konar mælaborðum, viðburðadagatölum og kortum.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um meðferð fyrirspurna, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 21. nóvember 2023 og 4. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 1. desember 2023.

    Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga forseta:

    Forsætisnefnd samþykkir að svohljóðandi málsgrein bætist við 2. gr. verklagsreglna um fyrirspurnir og tillögur í ráðum og nefndum Reykjavíkurborgar: „Svara skal fyrirspurn innan 30 virkra daga frá því að henni hefur verið vísað til umsagnar. Takist ekki að svara fyrirspurninni innan þess frests skal gera viðkomandi ráði skriflega grein fyrir ástæðunni.“

    Samþykkt.

    Tillagan er samþykkt svo breytt. MSS23040017

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er alveg kýrskýrt í huga Flokks fólksins að kominn er tími til að stjórnsýsla borgarinnar sé í takt við stjórnsýslulög. Sá tími sem farið hefur í að svara fyrirspurnum eða afgreiða mál minnihlutans ef því er að skipta hefur verið síðustu ár hreint hlægilegur. Skemmst er að minnast þess að rétt fyrir áramót kom loks svar við fyrirspurn Miðflokksins um ársreikning sem lögð var fram 2019. Þetta er ekki eina dæmið um sein svör og ekki eina dæmið um að svar berist mörgum árum eftir að fyrirspurn er lögð fram eða að tillaga er afgreidd mörgum misserum eftir hún er lögð fram. Þetta á aðeins við um mál sem minnihlutinn leggur fram. Í þessari tillögu er miðað við að fyrirspurn sé svarað eigi síðar en fjórum vikum eftir að hún er lögð fram og bókuð í fundargerð. Ef það tekst ekki skal skýra ástæður þess. Þessi tímafrestur er viðunandi að mati fulltrúa Flokks fólksins.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 29. nóvember 2023, varðandi drög að verklagsreglum fyrir meðferð fyrirspurna og tillagna í ráðum og nefndum Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum, sbr. 3. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 1. desember 2023.

    Frestað. MSS23090170

    Fylgigögn

  6. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 5. desember 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hæfi borgarfulltrúans Magnúsar Davíðs Norðdahl, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. september 2023. MSS22060124

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Niðurstaða þessa máls er sú að talið er að lögmannsstörf borgarfulltrúans Magnúsar Davíðs Norðdahl hafi ekki í för með sér að hann sé vanhæfur til að taka sæti og fjalla um málefni flóttamanna á vettvangi velferðarráðs/mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Fulltrúi Flokks fólksins treystir þessu mati enda er það gert af sérfræðingum en vill á hinn bóginn nefna að starf borgarfulltrúa er fullt starf. Starf borgarfulltrúa er krefjandi starf, þ.e. ætli borgarfulltrúi að gefa sig allan í það. Það er mat Flokks fólksins að ef borgarfulltrúi ætlar að sinna starfi borgarfulltrúa af heilindum og einurð, halda úti aðhaldi og eftirliti og sinna tilheyrandi undirbúningi, lestri gagna fyrir fundi sem iðulega hafa langa dagskrá, útbúa mál, s.s. fyrirspurnir og tillögur og skrifa bókanir, þá sé varla hægt að vera í öðru starfi samhliða nema að takmörkuðu leyti.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 5. desember 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um ákvarðanir og bókanir vegna flóttafólks, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. september 2023. MSS22060124

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga forseta:

    Lagt er til að forsætisnefnd samþykki að fela skrifstofu borgarstjórnar að vinna tillögu að verklagi þegar upp koma álitamál vegna hæfis kjörins fulltrúa hjá Reykjavíkurborg. Tillagan kemur til skoðunar á vettvangi forsætisnefndar og til endanlegrar afgreiðslu eftir rýni nefndarinnar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12:24

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir

Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
Forsætisnefnd 5.1.2023 - Prentvæn útgáfa