Forsætisnefnd - Fundur nr. 328

Forsætisnefnd

Ár 2023, föstudaginn 1. september, var haldinn 328. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:05. Viðstödd voru Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek og Sabine Leskopf. Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar og áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Líf Magneudóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Bjarni Þóroddsson, Helga Björk Laxdal og Ólöf Magnúsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 5. september 2023.
    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:
    a) Umræða um kynnisferferð borgarráðs til Portland og Seattle 20.-24. ágúst 2023
    b) Umræða um stöðu samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar)
    c) Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að borgarbúum verði gert kleift að ávarpa borgarstjórn
    d) Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um skaðabætur vegna myglu í skólahúsnæði
    e) Umræða um leikskólamál (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins)
    f) Umræða um snjallsímanotkun í grunnskólum og hugsanlegt bann (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)
    g) Umræða um kostnað Reykjavíkurborgar við ráðgjafarkaup (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)
    h) Kosning í borgarráð
    j) Kosning í menningar-, íþrótta- og tómstundaráð
    k) Kosning í umhverfis- og skipulagsráð
    l) Kosning í innkaupa- og framkvæmdaráð
    m) Kosning í íbúaráð Laugardals MSS23010044

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 30. ágúst 2023, varðandi veikindaleyfi Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur. MSS23080114

    Fylgigögn

  3. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar dags. 30. ágúst 2023, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um ósvararðar fyrirspurnir Sjálfstæðisflokksins, sbr. 8. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 3. febrúar 2023. MSS23020023

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það ber ekki vott um gagnsæja og skilvirka stjórnsýslu að fyrirspurnum sem lagðar voru fram á síðasta kjörtímabili og eru taldar hér upp hafi enn ekki verið svarað og þær tillögur sem lagðar voru fram á þeim tíma hafa enn ekki komið til afgreiðslu. Slíkur dráttur á vinnslu og afgreiðslu mála gerir kjörnum fulltrúum erfitt um vik að rækja sitt eftirlitshlutverk sem engan veginn er ásættanlegt.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs dags. 28. júní 2023, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs frá 26. júní 2023, á tillögu fulltrúa í ungmennaráði Grafarvogs um kennslu í fjármálalæsi í grunnskólum Reykjavíkur, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 14. febrúar 2023. MSS23020093

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ungmennaráð Grafarvogs lagði fram tillögu um kennslu í fjármálalæsi sem hljóðaði á þá leið að skóla- og frístundaráð hefji vinnu við innleiðingu skyldunáms í fjármálalæsi í samstarfi við grunnskóla Reykjavíkurborgar. Þetta er fín tillaga og mjög nauðsynleg að mati fulltrúa Flokks fólksins. Tillögunni hefur verið breytt af meirihlutanum í þá átt að hún hefur verið gerð minna afgerandi og beinskeyttari. Talað er um í breytingatillögunni „að efla kennslu og nýta öll tækifæri til að sinna þessum þætti“ o.s.frv. Hugtakið „skyldunám“ í fjármálalæsi hefur verið fjarlægt úr breytingatillögunni. Fulltrúi Flokks fólksins telur tillögu ungmennarás Grafarvogs afar góða, skýra og afgerandi eins og hún var lögð fram og hefði hún e.t.v. mátt halda kjarnamerkingu sinni meira þótt talið hafi verið nauðsynlegt að breyta henni eitthvað.

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um vinnuaðstöðu borgarfulltrúa. MSS23010284

Fundi slitið kl. 10:53

Magnea Gná Jóhannsdóttir Líf Magneudóttir

Marta Guðjónsdóttir Pawel Bartoszek

Sabine Leskopf