Forsætisnefnd - Fundur nr. 326

Forsætisnefnd

Ár 2023, föstudaginn 2. júní, var haldinn 326. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:01. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sara Björg Sigurðardóttir og Stefán Pálsson. Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum: Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Kristinn Jón Ólafsson. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal, Ívar Vincent Smárason og Ólöf Magnúsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 30. maí 2023, varðandi lausnarbeiðni Þórdísar Jónu Sigurðardóttur.

    Vísað til borgarstjórnar. MSS22080201

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 31. maí 2023, varðandi lausnarbeiðni Geirs Finnssonar.

    Vísað til borgarstjórnar.

    -    Kl. 10:05 tekur Magnea Gná Jóhannsdóttir sæti á fundinum. MSS23050188

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 31. maí 2023, varðandi hjónavígslur í Ráðhúsi. MSS23040216

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 6. júní 2023.

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    a) Umræða um stafræna húsnæðisáætlun Reykjavíkur til ársins 2023 (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar)

    b) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um umhverfismat vegna mengaðs jarðvegs á fyrirhuguðu byggingarsvæði í Skerjafirði

    c) Umræða um ályktun svæðisskipulagsnefndar SSH og SSS um greiðar, vistvænar og öruggar samgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar)

    d) Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að borgarstjórn bjóði Leigjendasamtökunum stuðning vegna kaupa á íbúðum Heimstaden

    e) Umræða um Árbæjarsafn og tækifæri því tengd sem útivistarsvæði í Elliðaárdal (að beiðni borgarfulltrúa Vinstri grænna)

    f) Umræða um húsaleigumarkaðinn í Reykjavík (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)

    g) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aukið umferðaröryggi á Vesturlandsvegi

    h) Umræða um þróunarverkefnið kveikjum neistann í Reykjavík (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)

    j)     Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að borgarstjórinn í Reykjavík verði kjörinn í beinni kosningu

    k) Umræða um málefni Ljósleiðarans ehf. (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins)

    l) Kosning í borgarráð

    m) Kosning í forsætisnefnd

    n) Kosning í skóla- og frístundaráð

    o) Kosning í stafrænt ráð

    p) Kosning í umhverfis- og skipulagsráð

    q) Kosning í innkaupa- og framkvæmdaráð

    s) Kosning í stefnuráð SSH

    t)     Kosning í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins

    u) Kosning í stjórn Strætó bs. MSS23010044

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 29. maí 2023, varðandi breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna funda borgarstjórnar.

    Samþykkt að vísa tillögu um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar til borgarstjórnar með fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Viðreisnar, Samfylkingar, Framsóknar og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. MSS23010279

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins getur ekki samþykkt að klipnar séu tvær mínútur af ræðutíma þannig að í stað 10 mínútna verður tíminn 8 mínútur sbr. breytingartillögu á 1. mgr. 23. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Í raun er 10 mínútur stuttur ræðutími, ef borið er saman við tímalengd á ræðum á Alþingi munar miklu. Ræðutími á Alþingi er fyrir almennan þingmann t.d. 15 mínútur í fyrstu ræðu. Í umræðunni um breytingar á fundarsköpum og öðru fyrirkomulagi funda hefur meiri- og minnihluti einmitt viljað nálgast starfshætti Alþingis frekar en víkja enn lengra frá þeim. Alþingi er að öllu leyti til fyrirmyndar þegar kemur að fagmennsku, einnig varðandi rými til að fylgja málum eftir, þ.m.t. fyrirspurnum, munnlega og skriflega. Síðast en ekki síst heldur Alþingi úti góðri vefsíðu þar sem finna má öll mál þingmanna bæði í ræðuformi og riti. Ekkert af þessu er í boði hjá Reykjavíkurborg enda þótt fjármagn hafi verið sett í að gera slíkar viðbætur á vef Reykjavíkurborgar fyrir nokkrum árum.

    Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks geta með engu móti samþykkt andlýðræðislegar tillögur sem takmarka rétt þeirra til að koma sínum sjónarmiðum og málum á framfæri. Gæta þarf þess að farið sé að lögum og réttindum borgarfulltrúa og jafnræðis sé gætt milli þeirra. Borgarstjórn er málstofa borgarfulltrúa og með því að setja þak á lok borgarstjórnarfunda, stytta ræðutíma í fyrstu ræðu úr 10 mínútum í átta, fækka ræðum borgarfulltrúa úr þremur við hverja umræðu í tvær og að hvert andsvar fari úr tveimur mínútum í eina er verið að ganga á rétt borgarfulltrúa, málfrelsi þeirra og tillögurétt.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarstjórn er málstofa borgarfulltrúa og mikilvægt að gefa nægan tíma til að ræða málin til dýptar. Erfitt er að sjá að því verði náð fram með því að stytta fyrsta ræðutíma úr tíu mínútum í átta mínútur.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 25. maí 2023, varðandi drög að siglingakorti um aukið samstarf í alþjóðlegum rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum.

    Samþykkt.

    Jafnframt vísað til kynningar í stafrænt ráð.

    Óli Örn Eiríksson, Kamma Thordarson, Kristrún Th. Gunnarsdóttir og Harpa Sif Eyjólfsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23050179

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 30. maí 2023, varðandi Reykjavík Science City – alþjóðlegt markaðssamstarf með Íslandsstofu.

    Óli Örn Eiríksson og Kamma Thordarson taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23050180

    Fylgigögn

  8. Fram fer umræða um meðferð fyrirspurna kjörinna fulltrúa í ráðum og nefndum Reykjavíkurborgar. MSS23050176

  9. Lagt fram erindisbréf starfhóps um gerð regla um aðgang og starfsemi í stjórnsýsluhúsum, ódagsett. MSS23020172

    Fylgigögn

  10. Lögð fram ályktun svæðisskipulagsnefndar SSH og SSS, dags. 12. maí 2023, um greiðar, vistvænar og öruggar samgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. MSS23050048

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 10. maí 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 24. apríl 2023 á breytingartillögu vegna tillögu fulltrúa ungmennaráðs Breiðholts um að lífgað verði upp á skólaumhverfi í grunnskólum Reykjavíkur. MSS23020092

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi ungmennaráðs Breiðholts lagði fram tillögu á fundi borgarstjórnar 14. febrúar 2023. Í tillögunni er lagt til að borgarstjórn feli skóla- og frístundaráði að beita sér fyrir því að ákveðnu fjármagni verði veitt til nemendaráða árlega í hverjum grunnskóla frá árinu 2024 og að það verði notað til að lífga upp á skólaumhverfið. Flokkur fólksins telur að þetta sé mjög góð tillaga frá ungmennaráði Breiðholts. Flokkur fólksins telur jafnframt að skóla- og frístundaráð hefði átt að samþykkja tillöguna óbreytta og sýna þannig ungmennunum virðingu og traust.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 10. maí 2023, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 26. apríl 2023 á breytingartillögu vegna tillögu fulltrúa ungmennaráðs Breiðholts um bætt aðgengi að viðtalsmeðferð fyrir nemendur í grunnskólum Reykjavíkur. MSS23020090

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ungmennaráð Laugardals leggur til að velferðarsvið í samstarfi við skóla- og frístundasvið finni leiðir til að bæta aðgengi grunnskólanema að ráðgjöf innan grunnskólanna í Reykjavík og að tillaga um úrbætur liggi fyrir eigi síðar en haustið 2023. Ungmenni í skólum Reykjavíkur hafa áður kallað eftir auknu aðgengi að sálfræðingum skólans og að þeir hafi fasta starfsstöð í skólum borgarinnar. Ástandið í þessum málum er sorglegra en tárum taki. Fyrir mánuði biðu 2.450 börn á biðlista eftir aðstoð fagfólks Skólaþjónustunnar. Nú bíða 2.498 börn. Um helmingur barna á þessum lista hefur aldrei fengið neina íhlutun fagfólks en reynt er að sinna þeim af bestu getu af kennara og námsráðgjafa. Í fjölda tilfella er ósk foreldra og barnanna sem bíða aðstoðar að barnið fái tækifæri til ræða við sálfræðing, aðila sem þau geta treyst og sem veit hvernig vinna á áfram í málinu. Eitt til þrjú viðtöl geta skipt sköpum og nægir til að barn opni sig um hluti sem á því liggja. Samtal við sálfræðinginn er því lykilatriði og stundum getur fátt annað komið í staðinn.

     

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12:14

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir

Marta Guðjónsdóttir Sara Björg Sigurðardóttir

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Forsætisnefnd 2.6.2023 - Prentvæn útgáfa