Forsætisnefnd - Fundur nr. 320

Forsætisnefnd

Ár 2023, föstudaginn 3. mars, var haldinn 320. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:01. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf, Stefán Pálsson. Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum: Andrea Helgadóttir, Helga Þórðardóttir og Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir. Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Magnea Gná Jóhannsdóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal, Ólöf Magnúsdóttir og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 7. mars 2023. MSS23010044

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    a) Umræða um hvernig borgarstjórn endurheimti traust almennings (að beiðni borgarfulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar)

    b) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um þróun og uppbyggingu á lífsgæðakjörnum fyrir eldri Reykvíkinga

    c) Tillaga um framtíðarhögun á starfsemi Borgarskjalasafns, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. mars

    d) Umræða um verkefnið Betri borg fyrir börn og skilvirkni þess (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)

    e) Umræða um hlutverk Borgarskjalasafns Reykjavíkur (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna)

    f) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um upphituð biðskýli

    g) Kosning í menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

    h) Kosning í stafrænt ráð MSS23010044

  2. Fram fer umræða um fyrirkomulag á fundum borgarstjórnar. MSS23010044

    -    Kl. 10:50 tekur Sanna Magdalena Mörtudóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti og Andrea Helgadóttir víkur af fundi.

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 28. febrúar 2023, varðandi tillögu að breytingu á samþykkt fyrir öldungaráð, ásamt fylgiskjölum.

    Vísað til borgarstjórnar. MSS23010279

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að forsætisnefnd vinni að útfærslu á öldungaráði þannig að tryggja megi setu fulltrúa úr ólíkum samtökum og félögum sem láta sig málefni eldri borgara varða. Mikill munur er á því að koma inn á fundinn til ráðgjafar og að eiga sæti í ráðinu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að fækka fulltrúum í öldungaráði úr níu fulltrúum í sjö. Samtök aldraðra og Korpúlfar, samtök eldri borgara í Grafarvogi munu því ekki eiga sérstaka fulltrúa í öldungaráði eftir breytinguna. Öldungaráðið er borgarstjórn, nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni borgarbúa sem eru 67 ára og eldri. Flokkur fólksins mótmælir þessari fækkun fulltrúa harðlega. Öldungaráðið er mjög mikilvægt ráð og sérstaklega í ljósi þess að eldri borgurum er að fjölga mikið í borginni.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á drögum að húsreglum í Ráðhúsi Reykjavíkur.

  5. Fram fer umræða um könnun Gallup á trausti til borgarstjórnar. MSS23020139

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt könnuninni nýtur Reykjavíkurborg minnsta trausts allra stofnana í þjóðarpúlsi Gallups. Ár eftir ár hefur Reykjavíkurborg skrapað botninn í könnunum. Sú ítrekaða falleinkunn sem Reykjavíkurborg hefur fengið um árabil hefur ekki orðið hvatning til að bæta þjónustu við borgarbúa, auka gagnsæi og samráð við íbúa í mikilvægum málum. Borgarbúar fá seint svör við erindum sínum og hafa átt erfitt með að fá viðtal við borgarstjóra sem ekki hefur fetað í fótspor forvera sinna sem buðu upp á vikulega viðtalstíma fyrir borgarbúa. Það er ekki skrýtið að það litla traust sem borgarbúar hafa haft til borgarstjórnar heldur áfram að minnka þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kannanir sýna að traust til borgarráðs er nánast ekki neitt. Hér er vissulega verið að tala um meirihlutann í borgarstjórn sem hefur öll völd og fellir eða vísar frá tillögum sem koma frá minnihlutanum. Borgarstjórn Reykjavíkur nýtur jafnframt minnst trausts þeirra stofnana sem mældar eru í þjóðarpúlsinum – 13 prósent landsmanna bera mikið traust til hennar, sem er átta prósentustigum minna en í fyrra. Fréttir af samskiptum, samráðsleysi og óheilindum hafa skemmt mikið. Braggamálið og fleiri mál af svipuðum toga skemmdu mikið fyrir meirihlutanum á síðasta kjörtímabili. Borgarbúar eru orðnir langþreyttir á slæmum samgöngum í borginni og ótryggum almenningssamgöngum. Svikin vegna leikskólamála og manneklan í leikskólum borgarinnar hefur valdið barnafjölskyldum miklum erfiðleikum. Það er ekki skrítið að traustið sé ekki meira.

    -    Kl. 11:25 víkur Magnea Gná Jóhannsdóttir af fundinum.

Fundi slitið kl. 11:37

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Marta Guðjónsdóttir

Sabine Leskopf Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Forsætisnefnd 3.3.2023 - Prentvæn útgáfa