Forsætisnefnd
Ár 2022, föstudaginn 4. nóvember, var haldinn 312. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í fundarherberginu Tjarnarbúð og hófst kl. 10:39. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Líf Magneudóttir, Sabine Leskopf og Marta Guðjónsdóttir. Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum: Rannveig Ernudóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal, Ólöf Magnúsdóttir og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga forseta borgarstjórnar, dags. 14. september 2022, um tilraunaverkefni um breytt fyrirkomulag funda borgarstjórnar, sbr. 2. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 14. október 2022:
Lagt er til að forsætisnefnd samþykki tilraunaverkefni vegna funda borgarstjórnar veturinn 2022-2023 með það að markmiði að gera fundina skilvirkari, fjölskylduvænni, sveigjanlegri og fyrirsjáanlegri í allri umgjörð ásamt því að draga úr kostnaði og álagi. Frá og með fyrsta fundi borgarstjórnar í október og til lokafundar í júní verði eftirfarandi fyrirkomulag viðhaft við fundarsköp og boðun funda borgarstjórnar:
- Fundir borgarstjórnar munu hefjast kl. 12:30. Allri umræðu og afgreiðslu tillagna skal vera lokið kl. 18. Frá kl. 18-19 verða fundargerðir lagðar fram og kosningar í ráð og nefndir afgreiddar eftir því sem við á. Stefna skal að því að fundum borgarstjórnar verði alla jafna lokið ekki seinna en kl. 19.
- Almennur ræðutími helst óbreyttur en andsvör verði stytt í 1,5 mínútu og 1 mínútu þegar tveir/þrír eða fleiri hafa óskað eftir að veita andsvar í samræmi við 3. mgr. 24. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
- Forsætisnefnd útbýr starfsáætlun fyrir fundi borgarstjórnar veturinn 2022-2023 með þemafundum bæði fyrir og eftir áramót.
- Umræða um hvert mál skal vera að hámarki tvær klukkustundir nema þegar um þemafundi borgarstjórnar er að ræða.
- Gert verður samkomulag um að á hverjum fundi verði meirihlutaflokkarnir með fyrsta mál á dagskrá, Sjálfstæðisflokkurinn með annað mál á dagskrá og aðrir flokkar skiptast á að vera með 3. og 4. mál í samræmi við það sem tíðkast hefur.
- Forsætisnefnd verður falið að vinna tillögu að breytingu á fyrirkomulagi við mælendaskrá á fundum borgarstjórnar og hvernig beðið er um orðið. MSS22010060
Greinargerð fylgir tillögunni.Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Viðreisnar og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins:
Lagt er til að forsætisnefnd samþykki tilraunaverkefni vegna funda borgarstjórnar veturinn 2022-2023 með það að markmiði að gera fundina skilvirkari, fjölskylduvænni, sveigjanlegri og fyrirsjáanlegri í allri umgjörð ásamt að draga úr kostnaði og álagi. Frá og með öðrum fundi í nóvember 2022 og til lokafundar í júní 2023 verði eftirfarandi fyrirkomulag viðhaft við fundarsköp og boðun funda borgarstjórnar:
- Fundir borgarstjórnar munu hefjast kl. 12:00. Miðað skal við að umræðu og afgreiðslu tillagna skuli vera lokið kl. 18:30. Frá kl. 18:30-19:30 verða fundargerðir lagðar fram og kosningar í ráð og nefndir afgreiddar eftir því sem við á. Stefnt skal að því að fundum borgarstjórnar verði alla jafna lokið kl. 19:30.
- Forsætisnefnd útbýr starfsáætlun fyrir fundi borgarstjórnar veturinn 2022-2023 með 2-3 þemafundum á tímabilinu.
- Á þemafundum skal hlutkesti ráða röðun mála á dagskrá.
- Stefnt er að því að umræða um hvert mál sé ekki lengri en 2 klukkustundir nema þegar um þemafundi borgarstjórnar er að ræða.
- Dagskrá borgarstjórnar er á þann hátt að meirihlutaflokkarnir eru með fyrsta mál á dagskrá, Sjálfstæðisflokkurinn með annað mál á dagskrá og aðrir flokkar skiptast á að vera með 3. og 4. mál í samræmi við það sem tíðkast hefur þó þannig að tekið verði tillit til stærðar Sósíalistaflokks Íslands.
- Forsætisnefnd verður falið að vinna tillögu að breytingu á fyrirkomulagi við mælendaskrá á fundum borgarstjórnar og hvernig beðið er um orðið.Samþykkt með 4 atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að fundir borgarstjórnar hefjist kl. 9:00 1. og 3. þriðjudag hvers mánaðar í stað þess að þeir hefjist kl. 14:00.
Tillagan er felld með 4 atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Greinargerð fylgir tillögunni.Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að röð mála á dagskrá borgarstjórnar fari eftir stærð flokka en ekki að það sé bundið í samkomulagi að meirihlutinn hafi ávallt 1. mál á dagskrá.
Tillagan er felld með með 4 atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Greinargerð fylgir tillögunni.Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að þegar borgarfulltrúar eru í andsvari við borgarstjóra eða svara andsvörum hans þá séu andsvörin tekin úr pontu en ekki sæti.
Frestað.
Greinargerð fylgir tillögunni.Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að tveir þemafundir verði í borgarstjórn veturinn 2022-2023. Efni þemafundanna verði ákveðið í samkomulagi allra flokka í borgarstjórn. Slíkir fundir komi þó ekki í veg fyrir að hægt verði að setja önnur mál á dagskrá ef svo ber undir.
Samþykkt.
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt til að 5. mgr. breytist og verði svohljóðandi: Umræða um hvert mál skal vera að hámarki 1,5 klukkustund nema þegar um þemafundi borgarstjórnar er að ræða.
Tillagan er felld með 4 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Framsóknar.
Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að ræðutími verði ekki takmarkaður við 2 klukkustundir.
Samþykkt að vísa tillögunni frá með 4 atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Greinargerð fylgir tillögunni.Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að fundir borgarstjórnar verði skipulagðir með þeim hætti að fyrri hluta fundar verði afgreiðslumálum lokið en síðari hluti fundar fari undir umræður. Ekki verði gerð krafa um viðveru borgarfulltrúa í Ráðhúsi meðan á umræðum stendur. Umræður um einstök málefni eru gjarnan fyrirferðarmiklar í borgarstjórn. Ekki er skylda fyrir borgarfulltrúa að taka þátt í slíkum umræðum. Það gæti reynst hagræði og tímasparnaður fyrir borgarfulltrúa að geta vikið úr húsi meðan fram fara umræður sem þeir hyggjast ekki taka þátt í. Í þessu samhengi má vísa til starfshátta á Alþingi þar sem þingsalur er síður en svo alltaf fullur.
Tillagan er felld með með 4 atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsókn, Viðreisn, og Vinstri grænna gegn atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Tillaga forseta borgarstjórnar er samþykkt svo breytt með 4 atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Viðreisnar ásamt áheyrnarfulltrúa Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan Sjálfstæðisflokksins um að fundir borgarstjórnar hefjist kl. 9:00 er felld á grundvelli þess að ekki er hægt að byrja fund borgarstjórnar klukkan níu nema að farið verði í miklar kerfisbreytingar á tímasetningu annarra funda innan borgarkerfisins eða fjölga starfsfólki á skrifstofu borgarstjórnar. Vert er þó að skoða slíkar kerfisbreytingar í framtíðinni innan forsætisnefndar með það að markmiði að gera fundi borgarstjórnar fjölskylduvænni.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks geta með engu móti samþykkt andlýðræðislegar tillögur sem takmarka rétt þeirra til að koma sínum sjónarmiðum og málum á framfæri. Gæta þarf þess að farið sé að lögum og réttindum borgarfulltrúa og jafnræðis sé gætt milli þeirra. Borgarstjórn er málstofa borgarfulltrúa og með því að setja þak á lok borgarstjórnarfunda og takmarka tíma umræðna og tillagna í borgarstjórn er gengið á rétt borgarfulltrúa, málfrelsi þeirra og tillögurétt.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til eftirfarandi: Að umræða um hvert mál í borgarstjórn skuli vera að hámark 1,5 klukkustundir í stað 2 klukkustunda nema þegar um þemafundi borgarstjórnar er að ræða. Tillaga er felld með hjásetu VG. Fulltrúar Flokks fólksins og Sósíalista hafa ekki atkvæðarétt. Rökin fyrir tillögu Flokks fólksins er sú að ef mál allra flokka sem eru stærri en Flokkur fólksins og þar af leiðandi ofar á dagskrá borgarstórnar taka fulla 2 tíma þá mun mál Flokks fólksins ekki komast að heldur verða frestað. Það mun fulltrúi Flokks fólksins ekki sætta sig við.
Fylgigögn
-
Lagt fram að nýju bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. október, varðandi Tjarnargötu 12 og breytingu á starfsaðstöðu borgarfulltrúa, sbr. 8. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 14. október 2022.
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að Reykjavíkurborg leggi hverjum borgarfulltrúa til sér skrifstofu og almennan skrifstofubúnað. Þannig yrði jafnræðis gætt milli borgarfulltrúa þar sem nokkrir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúi hafa nú þegar sér skrifstofur. Ósk um skrifstofu fyrir hvern og einn borgarfulltrúa samrýmist auk þess samþykktum um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg. MSS22010060
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan er felld með 4 atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Viðreisnar og Vinstri grænna:
Bætt verður við rými á jarðhæð til vinstri í Tjarnargötu 12 þar sem gert verður ráð fyrir bókanlegum vinnuherbergjum borgarfulltrúa. Um verður að ræða þrjú aflokuð vinnurými sem verða einungis bókanlegar af borgarfulltrúum og unnt verður að bóka í hálfan dag í senn. Með þessari viðbót verður unnt að koma til móts við óskir um næðisrými borgarfulltrúa til að vinna að afmörkuðum verkefnum í einrúmi. Jafnframt verður unnt að bóka óformlegt hópvinnuherbergi á jarðhæðinni fyrir minni fundi borgarstjórnarflokka og/eða starfs- og stýrihópa. Kostnaður á ári myndi hækka í kr. 13.560.000 og þarf að gera ráð fyrir auknum fjárheimildum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2023.
Samþykkt með 4 atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Vísað til meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar.Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að starfsaðstaðan sé algjörlega óásættanleg og hvorki í samræmi við samþykktir um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg né lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum nr. 581/1995, um húsnæði. Ljóst er að ekki gætir jafnræðis milli borgarfulltrúa þar sem nokkrir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúi hafa sér skrifstofur á meðan borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokks er úthlutað rými sem hýsir ekki alla fulltrúa flokksins.
Fylgigögn
-
Lögð fram beiðni Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa, um að fá skrifstofu til afnota. MSS22010060
- Kl. 12:26 víkur Líf Magneudóttir af fundinum.
Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Framsóknar ásamt áheyrnarfulltrúa Pírata:
Samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar hafa borgarfulltrúar nú aðgang að skrifstofum í Tjarnargötu 12. Hver og einn flokkur hefur þar aðgang að herbergi og hefur tiltölulegar frjálsar hendur með innra fyrirkomulag starfsstöðva og hvernig það er innréttað. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa allir aðgang að skrifstofuherbergi flokksins í samræmi við það fyrirkomulag sem flokkurinn setur sér um afnot af því. Að sama skapi má benda á að borgarfulltrúar hafa aðgang að móttökuherbergi og fundarherbergi í Tjarnargötunni. Þá er unnið að skrifstofurými sem borgarfulltrúar geta bókað nokkra tíma í senn til einkanota. Er því litið svo á að borgarfulltrúinn hafi þegar aðgang að skrifstofuaðstöðu í samræmi við ákvæði samþykktar um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að starfsaðstaðan sé algjörlega óásættanleg og hvorki í samræmi við samþykktir um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg né lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum nr. 581/1995 um húsnæði. Ljóst er að ekki gætir jafnræðis milli borgarfulltrúa þar sem nokkrir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúi hafa sér skrifstofur á meðan borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokks er úthlutað rými sem hýsir ekki alla fulltrúa flokksins.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 4. nóvember 2022, þar sem tilkynnt er að Trausti Breiðfjörð Magnússon taki sæti sem áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og skipulagsráði í stað Ástu Þórdísar Skjalddal Guðjónsdóttur. MSS22060046
Fylgigögn
Fundi slitið kl. 12:40
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Sabine Leskopf
Magnea Gná Jóhannsdóttir Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
FG_0411_nr_312.pdf