Forsætisnefnd - Fundur nr. 305

Forsætisnefnd

Ár 2022, föstudaginn 1. apríl, var haldinn 305. fundur Forsætisnefnd. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð og hófst klukkan 15:16. Viðstödd voru . Fundarritari:

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 5. apríl 2022. MSS22010058

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    a)    Atvinnu- og nýsköpunarstefna Reykjavíkurborgar til 2030, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. mars (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna)
    b)    Ályktunartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um könnun á virkjanamöguleikum á starfssvæði Orkuveitu Reykjavíkur
    c)    Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að borgin hætti notkun á starfsemi innheimtufyrirtækja
    d)    Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um úttekt á eftirliti með skólaforðun
    e)    Umræða um vaxtagreiðslur Reykjavíkurborgar (að beiðni borgarfulltrúa Miðflokksins)

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 18. mars 2022, þar sem tilkynnt er að á fundi borgarstjórnar þann 15. mars 2022 hafi verið samþykkt að Líf Magneudóttir taki sæti sem varamaður í forsætisnefnd í stað Elínar Oddnýjar Sigurðardóttur. MSS22020041

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 30. mars 2022, þar sem tilkynnt er að Ásgerður Jóna Flosadóttir varaborgarfulltrúi Flokks fólksins sé komin aftur til starfa eftir veikindaleyfi. MSS22020110

    Fylgigögn

  4. Lögð fram skýrsla Háskóla Íslands, dags. 28. febrúar 2022, um reynslu og viðhorf kjörinna fulltrúa í bæjar- og sveitarstjórnum á Íslandi. MSS21120185

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Niðurstöður staðfesta margt sem fulltrúi Flokks fólksins upplifir sem borgarfulltrúi í minnihluta. Ef minnihlutafulltrúi ætlar að láta að sér kveða þarf að leggja dag við nótt. Álagið er mikið. Starfið er gefandi enda þótt minnihlutafulltrúi nái nánast engum málum í gegn. Umbunin felst í tækifærinu til að vera í nálægð við borgarbúa, hlusta á raddir þeirra og ræða ítrekað um hvernig hægt er að bæta og auka þjónustuna. Dropinn holar jú steininn. Í Reykjavík sérstaklega eiga margir um sárt að binda aðallega vegna þess að þeir fá ekki fullnægjandi þjónustu sem þeir eiga rétt á. Fátækt hefur farið vaxandi. Verkefnin eru því ærin. Menning og starfshættir sveitarstjórna eru án efa mismunandi og kemur stærðin þar m.a. til. Meiri- og minnihlutar alla vega einhverra sveitarfélaga, vonandi sem flestra, eiga án efa gott og farsælt samstarf sem grundvallast þá m.a. á að bjóða hinum síðari að ákvörðunarborðinu, hlusta á það sem þeir hafa fram að færa, leyfa þeim að tjá sig, ýmist hrósa eða gagnrýna eftir atvikum eins og gengur í stjórnmálum. Þokkalegt til gott samstarf meiri- og minnihluta sveitarstjórnar er lykilatriði ef starfið á að geta verið farsælt og án átaka og skilað sér sem best til borgar-/bæjarbúa.

    -    Kl. 10:55 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum.

    Eva Marín Hlynsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram yfirlit, ódags., yfir opinberar móttökur Reykjavíkurborgar. MSS21120135

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er beinlínis ógeðfellt hvernig borgarstjóri hagar sér á kosningaári. Í yfirliti yfir móttökur þá kemur fram að borgarstjóri er nú – korter í kosningar – að bjóða til móttöku 70 ára Reykvíkingum sem áttu/eiga afmæli 2020, 2021 og 2022. Kostar hver viðburður 1,6 milljóna króna og er því heildarkostnaður tæpar 5 milljónir. Borgarstjóri lítur á borgarsjóð sem sinn eigin kosningasjóð.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar og Pírata ásamt áheyrnarfulltrúum Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Síðastliðna áratugi, eða frá 1970, hefur embætti borgarstjóra heiðrað 70 ára Reykvíkinga með móttöku í Ráðhúsi Reykjavíkur. Móttakan hefur verið árleg en féll niður árin 2020 og 2021 vegna heimsfaraldurs. Þarna er um að ræða tækifæri til samtals við hóp sem annars hefði ekki haft tækifæri til, en það hefði verið ákaflega leiðinlegt ef þeir árgangar sem urðu 70 ára á þessum árum hefðu farið alveg á mis við þennan viðburð. Almenn ánægja hefur verið með móttökuna og er öllum borgarfulltrúum boðið að taka þátt – við teljum það gleðilega hefð sem vert er að halda í.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Eins og segir í fyrri bókun þá er það meiriháttar óeðlilegt að þessar móttökur hafi ekki verið haldnar að afloknum borgarstjórnarkosningum. Með því að halda þær korter í kosningar fékk borgarstjóri tækifæri á að snerta þrjá árganga með boðskorti og í framhaldi að halda veislu fyrir þá. Þetta minnir mjög á bréfasendingar úr Ráðhúsinu fyrir sl. borgarstjórnarkosningar sem Persónuvernd úrskurðaði ólögmætar. Það er öllum brögðum beitt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Yfirlit yfir móttökur er lagt fram. Fulltrúa Flokks fólksins finnst styrkur borgarinnar kr. 800.000 kr. á viðburðinn Women Political Leaders ansi hár og hefði viljað sjá að minnsta kosti hluta af þessum pening varið í annað t.d. í þágu barna. Kostnaður við Hönnunarmars/Borgarlína eru rúmar 500.000. Hér er um að ræða hópa sem eru án efa aflögufærir og gætu greitt hluta af veitingum sjálfir. Þetta er vont að sjá þegar hugsað er til þeirra borgarbúa sem súpa nánast dauðann úr skel. Fólk sem nær engan veginn endum saman. Sjálfsagt er að styrkja viðburði af fjölbreyttu tagi en þetta er þó alltaf spurning um hóf og skynsemi og að ávallt sé reynt að fara sem best með útsvarsfé borgarbúa.

    Dagný Ingadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 21. mars 2022, varðandi afgreiðslu velferðarráðs frá 2. mars 2022 á breytingartillögu vegna tillögu fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um betra aðgengi að sálfræðiþjónustu í grunnskólum Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum. MSS22020120

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins harmar viðbrögð og afgreiðslu meirihluta velferðarráðs við tillögu ungmennaráðs Árbæjar og Holta á fundi velferðarráðs 2. mars sl. Tillaga ungmennaráðsins var að aðgengi unglinga að sálfræðiþjónustu í öllum grunnskólum yrði bætt. Án nokkurs samráðs við fulltrúa í minnihluta velferðarráðs var lögð fram breytingartillaga sem er með öllu óraunhæf og til þess fallin að slá ryki í auga tillöguflytjanda. Meirihlutinn leggur til að velta vinnunni yfir á heilsugæslusálfræðinga og vill ræða við heilsugæsluna um að heilsugæslusálfræðingar fari út í skólana og veiti grunnskólanemum að sálfræðiþjónustu. Þetta er fráleitt. Heilsugæslusálfræðingar starfa á heilsugæslunni og sinna fjölbreyttum hópi. Til þeirra er langur biðlisti. Í breytingartillögu meirihlutans er gengið svo langt að segja að „skoða hvort og hvernig sálfræðingar Heilsugæslunnar fái afnot af skólahúsnæði til að geta veitt nemendum meðferð líkt og skólahjúkrunarfræðingar hafa haft um langa hríð“. En það eru sálfræðingar skólaþjónustunnar sem eiga að sinna þessum hópi samkvæmt lögum. Þeirra aðsetur er hins vegar á þjónustumiðstöðvum en ekki úti í skólum. Ítrekað hefur verið lagt til að færa aðsetur skólasálfræðinga út í skólanna án árangurs. Hins vegar hikar velferðarráð ekki við að leggja það til að finna stað fyrir heilsugæslusálfræðinga í skólum borgarinnar til að sinna vinnu skólasálfræðinganna.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. mars 2022, varðandi afgreiðslu á tillögu fulltrúa í ungmennaráði Grafarvogs um plastlausa Reykjavík 2026. MSS22020014

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Plastmengun er vaxandi og ljóst að örplast á nokkuð greiða leið í líkama fólks og dýra. Mikilvægt er að borgin leiði með góðu fordæmi og lágmarki plastnotkun, ekki síst til að minnka dreifingu á örplasti. Hér er verið að samþykkja að gera áætlun um að minnka notkun borgarinnar sjálfrar í notkun plasts. Upphafleg tillaga ungmennaráðs gekk lengra og er mikilvægt að missa ekki sjónar á því hvernig borgin getur minnkað plast í umhverfinu. Hér má nýta úrræði í sorphirðu, flokkun úrgangs og bætta fráveitu svo dæmi séu tekin.

    Fylgigögn

  8. Fram fer umræða um nýjan vef Reykjavíkurborgar. MSS22010060

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vefur borgarinnar hefur verið í uppfærslu um alllangt skeið. Var stefnt að því að „stafræn umbreyting“ myndi bæta aðgengi að gögnum. Enda ekki vanþörf á. Gríðarmiklum fjármunum er varið í „stafræna umbreytingu“ og væntingar eru um að þjónustan myndi batna fljótt og vel. Nú er ljóst að vinna við vef borgarinnar hefur orðið til þess að aðgengi almennings og kjörinna fulltrúa að upplýsingum, fundargerðum og öðrum mikilvægum gögnum hefur snarversnað. Sum gögn eru aðgengileg á „nýjum vef borgarinnar“, en önnur eru það ekki. Ljóst er að margt hefur misfarist í þessari vinnu og og deginum ljósara að yfirfærslan hefur ekki gengið samkvæmt áætlun. Margar og ítrekaðar ábendingar hafa komið fram um að aðgengið hafi versnað en þrátt fyrir það er ennþá miklum vandkvæðum bundið fyrir fjölmiðla, kjörna fulltrúa og almenning að finna upplýsingar og fundargögn, enda eru mál að velkjast í borgarkerfinu árum saman og því vistuð í aðskildum kerfum sem sum tengjast illa eða ekki. Þetta er ekki síst bagalegt í aðdraganda kosninga þegar aðgengi að upplýsingum og gagnsæi í stjórnsýslu er enn mikilvægara en ella.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nýr vefur Reykjavíkur fær algjöra falleinkunn. Á kosningaári var ráðist í að umbreyta vefnum og síðan þá hefur hann legið niðri. Þar með var störfum borgarfulltrúa kippt úr sambandi. Líka fjölmiðlamönnum því t.d. var ekki hægt að nálgast fundargerðir kjörtímabilsins. Þessi umbreyting á vefnum er svo mikill skandall. Búið er að ákveða að 10 milljarðar fari í hina svokölluðu stafrænu umbreytingu. Úr því að ekki er hægt að breyta einum vef, þá er auðvelt að ímynda sér hvert framhaldið verður með þessa milljarða. Reykjavíkurborg er ekki hugbúnaðarfyrirtæki – borgin er sveitarfélag. Allt í sambandi við hina svokölluðu stafrænu umbreytingu er algjört rugl og fullkomið flopp. Það á að útvista öllum þessum verkefnum til hugbúnaðarfyrirtækja. Þjónustu- og nýsköpunarsvið ræður ekki við verkefnið. Það er löngu sannað en er ekki viðurkennt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi fólksins fagnar öllum þeim breytingum sem stuðla að betri þjónustu við borgarbúa. Þó er það grundvallaratriði að þær breytingar sem gerðar eru, skili því sem lagt er upp með og virki! Nýr vefur Reykjavíkurborgar hefur ágætt yfirbragð. En það er ekki útlitið sem skiptir mestu máli, heldur virknin sem segir til um hvort viðkomandi vefur stuðli að betri þjónustu eða ekki. Í raun má segja að innleiðing þessa vefjar sé hálfklárað verk. „Mínar síður“ og Rafræn Reykjavík eru enn að því er virðist ónothæfar og leit í fundargerðum ber oft á tíðum lítinn árangur. Oft stingur nýi vefurinn upp á því að notandinn smelli á gamla vefinn til að leita upplýsinga. Spurt er hvort það geti verið að innan þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON) skorti hreinlega þá sérfræðiþekkingu sem þarf til verksins. Einnig eru þarna skipurit sem ekki hafa verið uppfærð í langan tíma, þar á meðal skipurit þjónustu- og nýsköpunarsviðs sjálfs sem er með vefinn. Ef borið saman við aðra vefi fær vefur borgarinnar slaka einkunn. Taka má dæmi um foreldra sem eru að setja barn sitt á leikskóla, að þá fá þau enn í hendur nokkrar blaðsíður af innritunarskjölum sem þarf að haka við og handskrifa undir. Ekkert stafrænt þar á ferð.

    Hreinn Valgerðar Hreinsson og Ólafur Sólimann Helgason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. mars 2022, um breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019 vegna umdæmisráðs barnaverndar og kjaranefndar, ásamt fylgiskjölum, sbr. 4. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 11. mars 2022 og 8. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 15. mars 2022. MSS21120197
    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar, dags. 1. apríl 2022:

    Forsætisnefnd leggur til að borgarstjórn samþykki að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar sem halda skal þann 19. apríl 2022 með vísan til heimildar í 2. mgr. 14. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 139/2011 í samræmi við fundadagatal borgarstjórnar fyrir starfsárið 2022. Boðað verður til aukafundar borgarstjórnar þriðjudaginn 26. apríl 2022. MSS22010060

    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  11. Fram fer umræða um bókanir á fundum borgarstjórnar. MSS22010060

    -    Kl. 12:06 víkur Líf Magneudóttir af fundi.
    -    Kl. 12:31 víkja Ragna Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Vigdís Hauksdóttir af fundi.

  12. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að mætingar borgarfulltrúa verði teknar saman, sbr. 9. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 11. febrúar 2022 og 11. mars 2022. Einnig kynnt yfirlit skrifstofu borgarstjórnar um mætingar borgarfulltrúa 2018-2022. MSS22020147
    Frestað.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 12:32

Alexandra Briem Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
forsaetisnefnd_0104.pdf