Forsætisnefnd - Fundur nr. 299

Forsætisnefnd

Ár 2021, fimmtudaginn 16. desember, var haldinn 299. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í borgarstjórnarsal í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 15:12. Viðstödd voru Alexandra Briem og Sabine Leskopf. Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum: Sanna Magdalena Mörtudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Marta Guðjónsdóttir, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Líf Magneudóttir og Vigdís Hauksdóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal og Ívar Vincent Smárason sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 21. desember 2021. MSS21120191

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    a)    Umræða um deiliskipulag Elliðarárvogs - Ártúnshöfða - svæði 1 (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna), sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. desember
    b)    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samráðshóp um húsnæðisuppbyggingu og samgöngur
    c)    Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um aðgerðaráætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi
    d)    Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um skipulag byggðar fyrir eldri borgarbúa
    e)    Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins um að götulýsing verði hækkuð í 50 LÚX

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 15. desember 2021, um að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar þann 4. janúar nk. MSS21120192
    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 14. desember 2021, þar sem tilkynnt er um veikindaleyfi Egils Þórs Jónssonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. MSS21120194

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 14. desember 2021, þar sem tilkynnt er um veikindaleyfi Daníels Arnar Arnarssonar varaborgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. MSS21120195

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um réttindi og skyldur borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa. MSS21120192

    -    Kl. 15:59 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum.

  6. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 14. júní 2021, sbr. vísun mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs á breytingum á samþykkt ráðsins. MSS21120197
    Vísað til borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins er órólegur vegna þessara breytinga en lagt er til að mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð „…hafi umsjón með stafrænni umbreytingu“.  Í ljósi reynslunnar telur fulltrúi Flokks fólksins þetta ekki farsælt því bæði eftirliti og umsjón mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs hefur eiginlega varla verið til staðar hvað þjónustu og nýsköpunarsvið varðar. Skort hefur á gagnrýna hugsun, t.d. með hvernig verkefnum hefur verið forgangsraðað og hve mikið af verkefnum sem hefðu mátt bíða hafa verið í tilraunar- og þróunarfasa sum í allt að 3 ár með tilheyrandi kostnaði. Fulltrúa Flokks fólksins finnst eins og meirihluti mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs samþykki gagnrýnislaust allt það sem frá þjónustu- og nýsköpunarsviði kemur, nánast án skoðunar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst einnig engin ástæða fyrir að spyrða saman þjónustu og nýsköpun og lýðræði og mannréttindum. Svo mætti í alveg skoða hvort Reykjavík ætti í raun að vera að reka sína eigin mannréttindaskrifstofu þegar ríkið er með eina slíka nánast á næsta götuhorni. Mannréttindi í Reykjavík eru varla mikið frábrugðin mannréttindum annarsstaðar á Íslandi? Reykjavík á ekki að vera að eyða útsvarspeningum með þessum hætti þegar engin þörf eða nauðsyn er til staðar.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 30. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að forsætisnefnd samþykki að ganga til samstarfs um tilraun til að rauntímatexta fundi borgarstjórnar á tímabilinu desember 2021 - júní 2022, ásamt fylgiskjölum. MSS21120202
    Frestað.

    -    Kl. 16:19 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundinum.

Fundi slitið klukkan 16:33

Alexandra Briem Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
forsaetisnefnd_1612.pdf