Forsætisnefnd - Fundur nr. 294

Forsætisnefnd

Ár 2021, föstudaginn 17. september, var haldinn 294. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð og hófst kl. 10:39. Viðstödd var Alexandra Briem. Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum: Elín Oddný Sigurðardóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 894/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Diljá Ámundadóttir Zoëga, Eyþór Laxdal Arnalds og Marta Guðjónsdóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal, Ólöf Magnúsdóttir og Ívar Vincent Smárason sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 21. september 2021.

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    a)    Umræða um grunnskólalíkanið Eddu, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. september
    b)    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sveigjanleg starfslok
    c)    Umræða um starfsemi og virkni gas- og jarðgerðarstöðvarinnar og innleiðing hringrásarhagkerfisins (að beiðni borgarstjórnar)
    d)    Umræða um biðlista fatlaðs fólks eftir sértæku húsnæði og húsnæði með stuðningi (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)
    e)    Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins um kosningaeftirlit Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu með borgarstjórnarkosningunum 2022
    f)    Umræða um húsnæðiskostnað borgarbúa sem hlutfall af ráðstöfunartekjum (að beiðni borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands) R21010074

    -    Kl. 10:48 tekur Sabine Leskopf sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði.

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 18. ágúst 2021, varðandi tillögu að breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna heimildar til notkunar á fjarfundarbúnaði, ásamt fylgiskjölum, sbr. 5. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 3. september 2021 og 13. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 7. september 2021. R18060129
    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 4. júní 2021, vegna breytingar á samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 15. september 2021. R21050311
    Vísað til borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu fyrir tveimur árum um að komið yrði á þriggja tunnu flokkunarkerfi við heimili. Því var hafnað og átti ný jarðgerðarstöð GAJA að sjá um flokkun og framleiða hágæða moltu og metan til að selja. SORPA hefur nú tekið u-beygju. Hefja á lífræna hirðu við heimili í haust. Staðan er hins vegar sú að mygla hefur hreiðrað um sig í límtréi í burðarvirki GAJU og búið er að stöðva moltugerðina. SORPA og hönnuðir GAJU kenna hvor öðrum um.  Framkvæmdastjóri SORPU segir að venjulega sé ekki notað límtré í svona starfsemi en verkfræðistofan segir þetta hugmynd SORPU. Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna hér að allt timbur fer að rotna þegar rakinn í því fer yfir 20% en koma má í veg fyrir myglu með góðri loftræstingu eins og gert er t.d. í fjósum sem eru byggð með burðarvirki úr límtréi. Undir stjórn byggðasamlagsins SORPU var ekki  aðeins farið  langt fram úr fjárhagsáætlun heldur er moltan ónothæf vegna ófullnægjandi flokkunar. Varnaðarorð voru uppi úr mörgum áttum en ekki hlustað.  Flokkur fólksins telur að nú ætti að leggja áherslu á að hvetja til heimajarðgerðar. Víða er fólk með aðstöðu til þess. Ljóst er að SORPA ræður ekki við verkefnið.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. september 2021, sbr. samþykkt umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 3. september 2021 á drögum að nýrri samþykkt um hundahald í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 15. september 2021. R21090110
    Vísað til borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Viðhorf fulltrúa Flokks fólksins til hundagjalda og skráningar hjá sveitarfélögum hefur ekki breyst en gott er að málaflokkurinn fór frá heilbrigðiseftirlitinu. Vænst er að eftir yfirfærslu málaflokksins verði þessi mál gegnsærri og hætt verði að fela hluti svo sem hversu mikil vinna er hjá hundaeftirlitsmanni. Ljóst er  að ekki er þörf á tveimur hundaeftirlitsmönnum. Fulltrúi Flokks fólksins vill meira samráð og þannig að tekið sé mark á athugasemdum sem stór hópur stendur á bak við. Hundaeigendur einir eru látnir halda uppi dýraþjónustu í borginni með gjaldtöku fyrir að eiga hund. Þeim er skylt að greiða skráningargjald, 11.900 kr., eftirlitsgjald, 9.900 kr., og handsömunargjald sleppi hundurinn, kr. 30.200. Enginn afsláttur er gefinn ef fólk á fleiri hunda og ekki er hægt að framselja leyfi. Komið er inn ákvæði um refsingar sé samþykktinni ekki fylgt, allt að fjögurra ára fangelsi. Hundaeigendur þurfa ekki á dýraþjónustu Reykjavíkur að halda. Hagsmunasamtök hundaeigenda sjá um flest allt, t.d. fræðslu, og hundar sem týnast finnast iðulega fljótt eftir að hafa verið auglýstir á samfélagsmiðlum. Matvælastofnun sér um velferðina, þangað beinir fólk ábendingum sínum ef grunur er t.d. um illan aðbúnað. Áfram á að halda inni að birta lista yfir hvar hundar eiga heima. Fulltrúa Flokks fólksins finnst engin haldbær rök fyrir því.

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um öryggismál í Ráðhúsi Reykjavíkur. R21020173

    Runólfur Þórhallsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

  6. Fram fer umræða um sameiginlegan fund borgarstjórnar og öldungaráðs. R21010084

    Elísabet Pétursdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 28. júní 2021, sbr. samþykkt borgarráðs frá 24. júní 2021 á tillögu um stofnun Listasafns Nínu Tryggvadóttur, ásamt fylgiskjölum. R21060076
    Samþykkt að vísa samþykkt fyrir Listasafn Nínu Tryggvadóttur til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 1. júlí 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 22. júní 2021 á breytingatillögu vegna tillögu fulltrúa ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða um kennslu í loftslagsmálum, ásamt fylgiskjölum. R20050130

    Fylgigögn

  9. Fram fer umræða um fundarsköp borgarstjórnar. R21010084

    -    Kl. 12:11 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum.

  10. Fram fer umræða um vinnudag forsætisnefndar. R21010084

Fundi slitið klukkan 12:22

Alexandra Briem Sabine Leskopf

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
forsaetisnefnd_1709.pdf