Forsætisnefnd - Fundur nr. 280

Forsætisnefnd

Ár 2020, fimmtudaginn 15. október, var haldinn 280. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 13:25. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 780/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Pawel Bartoszek, Eyþór Laxdal Arnalds, Kristín Soffía Jónsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Sabine Leskopf. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Alexandra Briem, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal, Ólöf Magnúsdóttir og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 20. október 2020.

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    a)    Óundirbúnar fyrirspurnir
    b)    Ferðamálastefna Reykjavíkurborgar 2020-2025, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. október 2020
    c)    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úttekt á kynbundnum mun á námsárangri í leik- og grunnskóla
    d)    Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um neyslurými
    e)    Umræða um tilraun Samtaka sjálfstætt starfandi skóla til félagslegra undirboða (að beiðni borgarfulltrúa Sósíalistaflokk Íslands)
    f)    Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að innri endurskoðun geri úttekt á sérkennslumálum
    g)    Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins um skipun fjármálastýrihóps
    h)    Umræða um samgöngusáttmála (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins) R20010182

    -    Kl 13:30 tekur Kolbrún Baldursdóttir sæti á fundinum.

  2. Lagt fram minnisblað skrifstofu borgarstjórnar, dags. 21. september 2020, um fyrirkomulag funda borgarstjórnar í samkomubanni.

    -    Kl. 14:00 víkur Líf Magneudóttir af fundinum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Tillaga Flokks fólksins um fyrirkomulag borgarstjórnarfundar á meðan neyðarstig vegna COVID varir. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að forsætisnefnd samþykki að sama fyrirkomulag verði haft á fundi borgarstjórnar 20. október nk. er varðar sóttvarnir og fjöldatakmarkanir og búið var að leggja upp með fyrir fund borgarstjórnar 6. október áður en ákveðið var að hafa þann fund aðeins fjarfund. Í megindráttum var búið að ákveða að í fundarsal borgarstjórnar taki sæti ellefu kjörnir fulltrúar, fimm fulltrúar meirihluta og fimm fulltrúar minnihluta, auk forseta borgarstjórnar. Oddvitar borgarstjórnarflokka, fulltrúar í forsætisnefnd og tillöguflytjendur skulu hafa forgang. Sjá nánar um fyrirkomulagið í skeyti skrifstofustjóra borgarstjórnar til forsætisnefndar dags. 5. október 2020: „Tillaga um fyrirkomulag á fundi borgarstjórnar 6. október vegna takmarkana í samkomubanni“. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að sjálfsagt sé að borgarstjórn fylgi fundafyrirkomulagi Alþingis í þessum efnum en umfram allt að sóttvarnarreglum verði fylgt eins og þær eru lagðar upp hverju sinni, til hins ítrasta. R20010186

    Tillagan er felld með þremur atkvæðum fulltrúa Viðreisnar og Samfylkingar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Forseti borgarstjórnar leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Forseti leggur til að fundur borgarstjórnar sem fer fram þann 20. október 2020 verði eingöngu í fjarfundi.

    Samþykkt.
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúar Viðreisnar og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Pírata:

    Eðlilegt þykir að fundur borgarstjórnar sé haldinn í fjarfundi við aðstæður sem þessar. Fyrir því hefur borgarstjórn skýrar heimildir sem skynsamlegt er að nýta nú í ljósi fjölda smita á undanförnum dögum.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sú tilraun að hafa borgarstjórnarfund alfarið sem fjarfund verður vonandi aðeins einu sinni. Í því trausti er ekki greitt atkvæði gegn þessari ákvörðun. Mikilvægt er að framfylgja fyrirmælum yfirvalda um sóttvarnir og samkomutakmarkanir en gæta þarf meðalhófs. Samkvæmt gildandi fyrirmælum er heimilt að allt að 20 manns megi koma saman. Það er því heimilt að stór hluti borgarstjórnar geti sótt fund en aðrir verið í fjarfundi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hafnar tillögu forseta um að fundur borgarstjórnar verði fjarfundur heldur skuli fordæmi Alþingis frekar fylgt. Þó verði mæting í sal ávallt persónulegt val hvers og eins. Fjarfundur er engan veginn tryggur fundur og tæknilegir örðugleikar oft miklir. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu um að fyrirkomulag borgarstjórnarfundar á meðan neyðarstig vegna COVID varir verði með sama fyrirkomulagi og til stóð að hafa fundinn 6. október áður en ákveðið var að gera þann fund að fjarfundi. Búið var að leggja mikla vinnu í það skipulag. Tillagan var felld af meirihluta forsætisnefndar. Í megindráttum var búið að ákveða að í fundarsal borgarstjórnar tækju sæti ellefu kjörnir fulltrúar, fimm fulltrúar meirihluta og fimm fulltrúar minnihluta, auk forseta borgarstjórnar. Sjá nánar um fyrirkomulagið í skeyti skrifstofustjóra borgarstjórnar til forsætisnefndar dags. 5. október 2020. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að sjálfsagt sé að borgarstjórn fylgi fundafyrirkomulagi Alþingis í þessum efnum en umfram allt að sóttvarnarreglum verði fylgt eins og þær eru lagðar upp hverju sinni, til hins ítrasta.

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 10. október 2020, varðandi tillögu að breytingu á samþykkt fyrir mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. R18060129
    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 8. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um skrifstofustjóra hjá Reykjavíkurborg, sbr. 6. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 12. júní 2020. R20060131

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Báknið hefur þanist út síðustu ár. Skrifstofustjórar eru 35. Það er sannarlega tímabært að fara að taka á þessu, minnka báknið til muna. Hér má sameina hlutverk og verkefni og með því hagræða stórlega.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er ekkert annað. Ekki dugar minna en níu upplýsingafulltrúa hjá Reykjavíkurborg og þar af eru sex á upplýsingadeild að meðtöldum upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar, sem heyrir undir skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Það er vel í lagt svo ekki sé meira sagt. Skrifstofustjórar eru 35 og fjöldi starfsmanna sem starfa á skrifstofum Reykjavíkur að skrifstofustjórum meðtöldum eru 390. Á skrifstofu borgarstjóra- og borgarritara eru 27 starfsmenn og er hún þriðja fjölmennasta skrifstofan ásamt bókhaldsskrifstofu. Á skrifstofu borgarstjórnar eru 7 starfsmenn. Athygli vekur að á skrifstofu upplýsingatækniþjónustu er 41 starfsmaður og á skrifstofu þjónustuhönnunar eru 28 og það vekur furðu að á sviðinu sem þessar skrifstofur eru, þ.e. þjónustu- og nýsköpunarsviði, starfa 124 starfsmenn og er langstærsta sviðið. Á þessum upplýsingum má sjá að yfirbyggingin í rekstri Reykjavíkur er gríðarleg og afar kostnaðarsöm fyrir útsvarsgreiðendur.
     

    Fylgigögn

  5. Umræðu um upplestur á bókunum er frestað. R20010186

Fundi slitið klukkan 14:35

Pawel Bartoszek Sabine Leskopf

Marta Guðjónsdóttir