Forsætisnefnd - Fundur nr. 278

Forsætisnefnd

Ár 2020, föstudaginn 2. október, var haldinn 278. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 12:03. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 780/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Pawel Bartoszek, Eyþór Laxdal Arnalds, Kristín Soffía Jónsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Sabine Leskopf. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Alexandra Briem, Daníel Örn Arnarsson, Vigdís Hauksdóttir, Líf Magneudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 6. október 2020.

     

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

     

    a)  Óundirbúnar fyrirspurnir

    b)  Ferðamálastefna Reykjavíkurborgar 2020-2025, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. október 2020

    c)  Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úttekt á kynbundnum mun á námsárangri í leik- og grunnskóla

    d) Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um neyslurými

    e)  Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að innri endurskoðun geri úttekt á sérkennslumálum

    f)  Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins um skipun fjármálastýrihóps

    g)  Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um samveru- og sköpunartorg

    h)  Umræða um samgöngusáttmála (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins)

    i)   Tillaga Mörtu Guðjónsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölgun borgarstjórnarfunda

    j)   Tillaga Arnar Þórðarsonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sveigjanleika í reglum Bílastæðasjóðs varðandi íbúakort R20010182

  2. Lagt fram minnisblað skrifstofu borgarstjórnar, dags. 21. september 2020, um lokaða fundi ráða og nefnda Reykjavíkurborgar. R20010186

     

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að meirihlutinn skuli setja á dagskrá umræðu um trúnað. Fulltrúi Flokks fólksins hefur einnig lagt fram mál um „trúnað“ og vill nota tækifærið hér til að rifja þau upp. Samkvæmt lögum getur sá sem leggur fram mál áveðið að málið sé trúnaður. Eftir því er tekið að ef mál/gögn/kynningar birta neikvæða mynd af meirihlutanum eru þau gjarnan stimplað sem trúnaður þótt ekkert í málinu krefjist þess beinlínis. Meðal þess sem stundum er haldið frá fólki eru tillögur að deiliskipulagi, kynningar og útfærslur á vegalagningu. Tillaga Flokks fólksins um mat á hvaða mál flokkast sem trúnaðarmál var nýlega vísað frá. Meirihlutanum  þykir hins vegar sjálfssagt að opinbera nöfn þeirra sem senda inn kvartanir sem birt eru fullum fetum í fundargerð og hafa margir mátt þola bágt fyrir. Í stuttu máli er það mat fulltrúa Flokks fólksins að hugtakið „trúnaður“ sé  misnotað af meirihlutanum. Flokkur fólksins hefur lagt til að helst öllum fundum sé streymt. Hægt væri að loka fyrir streymi ef verið er að fjalla um persónugreinanleg eða önnur viðkvæm mál. Verði meginreglan að streyma fundum vandar fólk frekar orð sín. Valdníðsla sem oft hefur ríkt á fundum myndi þá að sama skapa örugglega minnka.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstof borgarstjórnar, dags. 2. október 2020, þar sem tilkynnt er um birtingu á nýrri hagsmunaskráningu borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa þann 1. október 2020 í samræmi við samþykkt borgarstjórnar frá 3. mars 2020 á endurskoðuðum reglum um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar, ásamt fylgiskjölum. R17080118

    Fylgigögn

  4. Lögð fram athugun þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 15. september 2020, á fýsileika þess að texta fundi borgarstjórnar með talgreini, sbr. samþykkt forsætisnefndar frá 15. maí 2020. R20050137

     

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Meirihlutinn fól þjónustu- og nýsköpunarsviði að kanna kostnað þess að fundir borgarstjórnar verði textaðir sjálfkrafa með notkun talgreinis. Þetta er útspil meirihlutans við tillögu Flokks fólksins að táknmálstúlka borgarstjórnarfundi. Fram kemur í umsögn að enn sem komið er er þetta ekki tilbúin lausn. Eins og fram kemur þá mun þetta kosta miklu meira en táknmálstúlkun eða 20-30 milljónir en táknmálstúlkun mun kosta um 6 m.kr. á ári. En þetta er einfaldlega ekki til skoðunar núna né í nánustu framtíð. Á meðan þarf að tryggja aðgengi og fylgja lögum Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðra og lögum um íslenska tungu og íslenskt táknmál. Það er gert með því að táknmálstúlka fundi borgarstjórnar. Þess utan mun talgreinir ekki nýtast nema hluta fólks í táknmálssamfélaginu. Þetta er einfaldlega ekki það sama. Nú á Alþingi eru notaðir táknmálstúlkar við helstu ræður. Við skoðun þessa máls vantar að fá umsagnir frá Félagi heyrnaskertra á Íslandi og Heyrnahjálp. Í umsögn starfsmanns aðgengis- og samráðsnefndar kemur fram að það er enginn notandi táknmáls í nefndinni. Ekkert af því fólki sem um málið hefur fjallað hefur á því nægjanlegt vit til að geta fjallað um það með vitrænum hætti. Hvar eru umsagnir Heyrnahjálpar og Félags heyrnaskertra á Íslandi?

    Fylgigögn

  5. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um táknmálstúlkun á fundum borgarstjórnar, sbr. 5. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 15. maí 2020, 8. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 13. september 2019 og 6. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 3. september 2019. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. ágúst 2020, og umsögn aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks, dags. 9. desember 2019.

     

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að tillögunni sé vísað til skoðunar við gerð fjárhagsáætlunar.

    Málsmeðferðartillagan er felld með þremur atkvæðum fulltrúa Viðreisnar og Samfylkingar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. R19090030

     

    Tillagan er felld með þremur atkvæðum fulltrúa Viðreisnar og Samfylkingar.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

     

    Fulltrúar Viðreisnar og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúum Pírata og Vinstri grænna:

     

    Samkvæmt umsögn fjármála og áhættustýringarsviðs er árlegur kostnaður við táknmálstúlkun 7 milljónir á ári. Áhorf á borgarstjórnarfundi er lítið og rétt eins og bent er á í umsögn aðgengis- og samráðsnefndar kunnar aðrar leiðir, á borð rittúlkun, að nýtast breiðari hópi.

     

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

     

    Eðlilegra hefði verið að vísa þessari tillögu til fjárhagsáætlunargerðar eins og við lögðum til, en því var hafnað.

     

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Fengið var kostnaðarmat og kostar uppsetning um 1.7 m.kr og fundir per ár um 5.2 m.kr. sem er alls ekki mikið. Til að reyna að koma með einhver rök fyrir að hafna tillögunni fól forsætisnefnd þjónustu- og nýsköpunarsviði að kanna kostnað með notkun talgreinis. Talgreinir er ekki kominn á markað en reiknað er með að hann muni kosta allt að 30 milljónir. Talgreinir nýtist auk þess  ekki öllum í táknmálssamfélaginu enda túlkun yfir á táknmál annað en talgreining. Enn liggja ekki fyrir umsagnir frá Heyrnahjálp og Félagi heyrnaskertra á Íslandi eins og lofað var að yrðu fengnar. Meirihlutinn var neikvæður fyrir þessari tillögu frá upphafi og fann henni flest til foráttu en síðan er liðið meira en ár. En staðan er þessi að talgreinir er framtíðarmúsík og í öðru lagi er það kerfi margfalt dýrara en táknmálstúlkun. Á meðan talgreinir er ekki kostur þarf að tryggja aðgengi samkvæmt tillögu Flokks fólksins um táknmálstúlkun og með því fylgja lögum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra og lögum um íslenska tungu og íslenskt táknmál.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 12:47

Pawel Bartoszek Sabine Leskopf

Marta Guðjónsdóttir