Forsætisnefnd
Ár 2020, föstudaginn 29. maí, var haldinn 273. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:45. Viðstödd voru Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Kristín Soffía Jónsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Alexandra Briem, Líf Magneudóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 2. júní 2020.
Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:
a) Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um Græna planið
b) Umræða um erfiða stöðu SORPU bs. vegna gas- og jarðgerðarstöðvarinnar GAJA (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins)
c) Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um könnun á fyrirtækjasamsetningu, harkhagkerfinu og starfsupplifun í Reykjavík
d) Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um breytt verklag til að stuðla að samvinnu í borgarstjórn frekar en sundrung
e) Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins um að fallið verði frá götulokunum vegna sumargatna 2020, sbr. 3. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 27. maí
f) Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins um frestun borgarlínuverkefnisins um óákveðinn tíma og í staðinn verði ráðist í lagningu Sundabrautar
g) Kosning í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð
h) Kosning í menningar-, íþrótta- og tómstundaráð R20010182Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga um framlengingu á heimild til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi er varðar notkun á fjarfundarbúnaði til 2. júlí 2020. R18060129
Vísað til borgarstjórnar.Fylgigögn
-
Lagt fram að nýju bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 3. mars 2020, þar sem óskað er eftir samþykki fyrir notkun á nýju stafrænu merki fyrir Reykjavíkurborg. Einnig er lögð fram umsögn upplýsingadeildar, dags. 26. maí 2020, og viðbrögð þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 28. maí 2020. R20030023
Frestað.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með það sem fram kemur hjá eigendur höfundarréttar, merkis Halldórs Péturssonar en þau hafa verið upplýst um þá vinnu sem á sér stað fyrir Stafræna Reykjavík. Fram kemur hjá þeim að búið sé að ákveða fyrir nokkrum árum lit merkisins og nú liggur fyrir tillaga um að breyta honum. Eigendur höfundarréttarins lýsa sem verið sé að útvatna litinn og eru ósáttir við það. Fulltrúi Flokks fólksins er sammála þessu mati og tjáði sig einmitt munnlega um þetta atriði á þeim fundi forsætisnefndar sem breytingarnar voru kynntar. Kraftur merkisins minnkar við að lýsa litinn. Fleiri hafa lýst sig sömu skoðunar og væntir fulltrúi Flokks fólksins þess að á þetta verði hlustað. Að öðru leyti er fulltrúi Flokks fólksins sáttur við þessar breytingar á merkinu fyrir stafræna útgáfu merkisins.
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 27. maí 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins ásamt fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um móttöku vegna samgöngusáttmála, sbr. 14. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 17. janúar 2020. R18110189
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þann 1. nóvember 2019 var haldinn í Höfða kvöldverður í tilefni af samgöngusáttmálanum og kostaði veislan 506.544 kr. allt á kostnað útsvarsgreiðenda í Reykjavík. Eftir munnlegar fyrirspurnir á fundi forsætisnefndar 17. janúar 2020 spratt þessi skriflega fyrirspurn því upplýst var að eingöngu hefðu setið veisluna borgarstjóri, bæjarstjórar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, nokkrir ráðherrar, samgöngustjóri höfuðborgarsvæðisins og forstjóri Vegagerðarinnar. Nú hefur verið breytt um takt og búið að bæta fleirum við og upplýst um að starfsfólk frá ráðuneytunum og starfsfólk sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hafi verið 16 talsins. Ekki er uppgefið í svarinu hvaða starfsmenn þetta eru að öðru leyti en því að þetta hafi verið fólk sem hafi „unnið að gerð sáttmálans“. Þetta eru mjög misvísandi upplýsingar svo ekki sé meira sagt, en ef þessar upplýsingar eru réttar þá leggur kvöldverðurinn sig á tæpar 16.000 kr. á mann. Hins vegar leggur kvöldverðurinn sig á rúmar 21.000 kr. á mann miðað við fyrri upplýsingar. Athygli vekur hversu langan tíma hefur tekið að svara þessari einföldu spurningu. Athygli vekur líka að einungis oddvitum meirihlutans í Reykjavík hafi verið boðið auk formanns skipulags- og samgönguráðs en ekki oddvitum minnihlutans. Því er lögð fram ný fyrirspurn hverjir þessir 16 aðilar eru sem sátu veisluna frá ráðuneytum og sveitarfélögunum.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er um óhóflegan kostnað að ræða fyrir borgina og verið er að sólunda skattfé borgarbúa í óþarfa. Ef sams konar boð yrðu haldin þegar viljayfirlýsingar og sáttmálar af ýmsu tagi eru gerðir myndi það hlaupa á tugum milljóna á kjörtímabilinu. Reykvíkingar þurfa ekki á fleiri montboðum borgarstjóra að halda sér í lagi þegar um jafn óraunhæf verkefni er að ræða sem borgarlínan er.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Spurt var hverjir sóttu kvöldverð sem kostaði rúma hálfa milljón þann 1. nóvember sl. í Höfða í tilefni af samgöngusáttmála? Hver tók ákvörðun um þessa móttöku? Í svari kemur fram að í þennan kvöldverð voru boðnir ráðherra, borgarstjóra, bæjarstjóra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem og það starfsfólk sveitarfélaganna sem kom að verkefninu og oddvitar meirihlutans í borgarstjórn ásamt formanni skipulags- og samgönguráðs, forstjóra Vegagerðarinnar, framkvæmdastjóra SSH og verkefnastjóra Borgarlínunnar. Starfsfólk ráðuneytanna voru átta talsins og starfsfólk sveitarfélaganna sem höfðu unnið að gerð sáttmálans voru átta talsins. Samtals voru gestir því 32. Fulltrúi Flokks fólksins furðar sig á þessu matarboði sem kostaði rúma hálfa milljón, matur og drykkir. Hér hefði átt að gæta meira hófs enda verið að eyða féi borgarbúa. Sá samgöngusáttmáli sem þarna var verið að fagna er umdeildur og mun kosta borgarbúa mikið fé. Verið er að koma einu enn byggðasamlagsverkefninu í gang þar sem „minnihlutar“ í sveitarfélögunum hafa enga aðkomu að. Reynsla byggðasamlagskerfa er ekki góð, þar ríkir lýðræðishalli þar sem fulltrúar í stjórnum eru ekki í hlutfalli við kjósendur.
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Undirritun og samþykkt samgöngusáttmálans er merkilegur áfangi í samgöngusögu höfuðborgarsvæðisins þar sem fjölmargir aðilar úr stjórnkerfi ríkisins og sveitarfélaganna komu að borði. Reykjavík er höfuðborg Íslands og meirihluti í forsætisnefnd Reykjavíkurborgar gerir engar athugasemdir ákveðið hafi verið að halda þennan áfanga hátíðlegan í húsnæði hennar í Höfða.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Þann 1. nóvember 2019 var haldinn í Höfða kvöldverður í tilefni af samgöngusáttmálanum og þangað boðið sveitastjórum, ráðherrum og fleirum. 1. Hvaða starfsfólki ráðuneytanna sem höfðu unnið að gerð samgöngusáttmálans var boðið og úr hvaða ráðuneytum? 2. Hvaða starfsfólki sveitarfélaganna sem höfðu unnið að gerð samgöngusáttmálans var boðið og úr hvaða sveitarfélögum? R18110189
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins
1. Hvað kostar hönnun að nýju stafrænu merki Reykjavíkurborgar tæmandi talið? 2. Hvernig voru aðilarnir sem eru að hanna merkið valdir? R20030023
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um kostnað við breytingu á merki (logo) Reykjavíkur fyrir stafræna útgáfu merkisins. Var nauðsynlegt að gera breytingu á merkinu fyrir stafræna útgáfu þess? R20030023
Fundi slitið klukkan 11:37
Pawel Bartoszek Sabine Leskopf
Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
forsaetisnefnd_2905.pdf