No translated content text
Forsætisnefnd
Ár 2020, fimmtudaginn 27. febrúar, var haldinn 268. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:00. Viðstödd voru Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Alexandra Briem, Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Elín Oddný Sigurðardóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar, dags. 14. febrúar 2020:
Lagt er til að forsætisnefnd samþykki að fela þjónustu- og nýsköpunarsviði að setja upp tímatökubúnað i borgarstjórnarsalinn sem gerir forseta borgarstjórnar og borgarfulltrúum kleift að fylgjast með ræðutíma sínum á meðan þeir eru í ræðustól. R20010186
Samþykkt.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Mikið er gleðilegt að tekið hefur verið tillit í marg umbeðnar breytingar frá borgarfulltrúa Miðflokksins á fyrirkomulagi funda borgarstjórnar í þá veru að tímatökubúnaði verði komið fyrir í ræðustól borgarstjórnarsalarins. Tímatökubúnaður á eftir að bæta mjög yfirbragð borgarstjórnafunda og er það fagnaðarefni.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 25. febrúar 2020, varðandi endurskoðun reglna um skráningu á fjarhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörf utan borgarstjórnar, ásamt drög að reglum. R17080118
Samþykkt.
Vísað til borgarstjórnar.Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar, Pírata leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna:
Reglurnar sem nú eiga að taka gildi eru sambærilegar reglum sem gilda um Alþingismenn, en eru að fullu valkvæðar og taka mið á nýlegum lögum um skráningu raunverulegra eigenda. Fulltrúar meirihluta telja raunar að betur færi á því að löggjafinn mundi búa svo um hnútanna að reglurnar gætu verið bindandi en núverandi lagaumhverfi býður ekki upp á það. Við fögnum tímabærri endurskoðun reglnanna.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillaga þessi er samþykkt í trausti þess að sömu reglur gildi um æðstu embættismenn borgarinnar eins og vísað er til í erindisbréfi yfirstjórnar borgarinnar frá því í dag. Minnt er á að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu um skráningu fjárhagslegra hagsmuna embættismanna 23. ágúst 2018.
Fylgigögn
-
Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 18. febrúar 2020.
Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:
a) Ferðamálastefna Reykjavíkurborgar 2020-2025, sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. febrúar 2020
b) Umræða um dótturfélög Reykjavíkurborgar (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins)
c) Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um matarbanka
d) Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um að vísa skýrslum vegna Nauthólsvegar 100 – braggans, til rannsóknar hjá viðeigandi aðilum
e) Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að söluverð metans verði lækkað og miðist til frambúðar við flutningskostnað frá SORPU á sölustað R20010182 -
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. febrúar 2020, varðandi fjárframlög til stjórnmálasamtaka í borgarstjórn árið 2020, ásamt fylgiskjölum. R18060218
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um bílastæðamál borgarfulltrúa. R20010186
-
Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 21. febrúar 2020, vegna bókunar íbúaráðs Grafarvogs um orðræðu kjörinna fulltrúa.
- Kl. 14:48 víkur Eyþór Laxdal Arnalds sæti á fundinum. R20020217
Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar eru bundnir af eigin sannfæringu og frjálsir skoðana sinna. Ekki er tækt að fara fram á að forseti lesi upp fullyrðingar sem túlka má sem athugasemdir við ummæli ónafngreindum borgarfulltrúum á fundum borgarstjórnar.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar eiga rétt á því að tjá sig undir fundargerðum borgarráðs og geta á næsta fundi borgarstjórnar, nýtt sér tækifærði og lesið upp bókun íbúaráðs Grafarvogs undir þeim lið kjósi þeir svo.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins finnst leitt ef kjörnir fulltrúar meirihlutans sem hér er vísað til séu með hnýtingar í fulltrúa íbúaráða og vinnubrögð þeirra. Íbúaráðin eru sjálfstæð og geta bókað um menn og málefni eins og þau óska og telja að þurfi. Í þessari bókun íbúaráðsins er verið að vísa í opinber ummæli sem tveir kjörnir fulltrúar meirihlutans viðhöfðu um íbúðahverfi sem þeim þótti ekki vel heppnuð og þar sem væri alger einangrun eins og sagt var orðrétt. Kjörnir fulltrúar sögðu jafnframt að í tveimur hverfum „keyrði helst einn á hverjum bíl og fólk byggi í risastórum einbýlishúsum – laus við félagsleg samskipti“ eins og segir orðrétt. Þetta eru niðrandi ummæli og tóku íbúar þetta nærri sér og þóttu særandi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki atkvæðarétt í forsætisnefnd til að taka afstöðu til þess hvort ályktunin verði lesin upp í borgarstjórn eins og íbúaráð Grafarvogs óskar eftir. Forseti borgarstjórnar hefur valdið og ræður því hvort ályktun íbúaráðsins verði lesin upp í borgarstjórn.
Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna:
Það er miður að áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í forsætisnefnd velji að túlka ummæli einstakra borgarfulltrúa, sem ekki geta svarað fyrir sig þar sem þeira eiga ekki sæti í nefndinni, sem niðrandi. Það eru langsótttar túlkanir og ummæli borgarfulltrúanna tekin úr öllu samhengi til þess eins að fella pólitískar keilur og halda áfram að ala á misskilningi og snúa út úr fyrir borgarfulltrúunum sem eiga að gæta sannmælis.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Þetta er sérkennileg bókun en sú tegundar sem meirihlutinn kemur gjarnan með þegar hann er kominn í málefnalegt þrot. Ekki gátu íbúar þessara hverfa svarað mikið fyrir sig þegar kjörnu fulltrúarnir tveir úr meirihlutanum viðhöfðu þessi sérkennilegu ummæli um hverfi og íbúa þeirra, annar þeirri í borgarstjórn og hinn í útvarpi. Flokki fólksins finnst þessi meirihluti verja orðið hvað sem er í stað þess að horfast í augu við þegar gerð eru mistök. Það vantar mikið upp á hógværð og lítillæti og jafnvel færni þeirra að geta stundum sett sig í spor borgarbúa. Margir myndu túlka þessi ummæli jafnvel sem ákveðna fordóma í garð þeirra hverfa sem þarna um ræðir. Ef það er upplifun einhverra þýðir ekki mikið að tala um „langsóttar túlkanir“ eins og fulltrúi meirihlutans í forsætisnefnd orðar það.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 14. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um framkvæmd slembivals í íbúaráð, sbr. 10. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 31. janúar 2020. R20010403
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Á þessu svari er ljóst að slembivalið er algjört flopp eins og varað var við. Enn á eftir að finna varafulltrúa fyrir íbúaráð Grafarvogs og fulltrúa og varafulltrúa fyrir íbúaráð Kjalarness. Eingöngu var slembivalið einu sinni fyrir íbúaráð Háaleitis- og Bústaða en valið var endurtekið fyrir hin hverfin. Því má segja að sum íbúaráðanna séu óstarfhæf því þau eru ekki fullmönnuð.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. febrúar 2020, þar sem tilkynnt er um nýjan starfsmann borgarstjórnarflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. R20010186
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. febrúar 2020, þar sem tilkynnt er að skrifstofu borgarstjórnar hafi borist tilkynning frá Ásgerði Jónu Flosadóttur, varaborgarfulltrúi Flokks fólksins um veikindaleyfi til og með 1. maí 2020, ásamt fylgiskjölum. R20010227
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 7. febrúar 2020, þar tilkynnt er um afgreiðslu velferðarráðs á tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um menningarkort til öryrkja, ásamt fylgiskjölum. R19120141
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Tillaga Flokks fólksins um að fundaumsjónarkerfi sem ekki er í notkun í borgarstjórnarsalnum verði fjarlægt og því skilað ef mögulegt er. Í kjölfar fjölgunar borgarfulltrúa Reykjavíkur úr 15 í 23 við síðustu borgarstjórnarkosningar var farið í umfangsmiklar breytingar á fundarsal borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur. Hluti af þeirri framkvæmd var uppsetning fundaumsjónarkerfis sem var ætlað til aðgera fulltrúum kleift að tala úr sæti en í 20 grein samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar kemur fram að borgarfulltrúar skulu að jafnaði veita andsvör og gera stuttar athugasemdir úr sæti sínu. Fundarumsjónarkerfið kostaði 34 milljónir. Í rúmt ára hefur fundarumsjónarkerfi (hljóðnemar) verið á borðum hvers borgarfulltrúa í þessum tilgangi en þeir hafa ekki verið virkir. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að mistök hafi verið gerð við að fjárfesta í slíku kerfi enda kerfið ekki í notkun og kemur varla til með að vera tekið í notkun. Þess utan er svona kerfi óþarft þar sem hingað til hafa borgarfulltrúar gengið í pontu til að veita andsvör og gera stuttar athugasemdir. Ekki mælir gegn því að þeir geri það áfram. R20020292
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins
Í kjölfar fjölgunar borgarfulltrúa Reykjavíkur úr 15 í 23 við síðustu borgarstjórnarkosningar var farið í umfangsmiklar breytingar á fundarsal borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur. Áætlaður kostnaður var í heildina 84 milljónum krónum.Hluti af þeirri framkvæmd var uppsetning fundaumsjónarkerfis sem voru ætlaðir til að tala úr sæti. Kostnaður við það eitt var 34 milljónir. Kerfið er komið og standa hljóðnemar á hverju borði með tilheyrandi tengingum. Þeir hafa hins vegar aldrei komist í gagnið. Flokkur fólksins óskar að vita ástæðu þess að kerfið komst aldrei í gagnið? Einnig hvort hægt er að skila kerfinu og fá það endurgreitt? R20020293
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.
Fundi slitið klukkan 15:23
Pawel Bartoszek Sabine Leskopf
Alexandra Briem Marta Guðjónsdóttir