Forsætisnefnd - Fundur nr. 265

Forsætisnefnd

Ár 2019, föstudaginn 13. desember, var haldinn 265. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:30. Viðstödd voru Pawel Bartoszek, Dóra Magnúsdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir og Alexandra Briem. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir.

Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 17. desember 2019.

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    a)    Samkomulag um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. desember 2019
    b)    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um áskorun til Alþingis um endurskoðun fjölda borgarfulltrúa
    c)    Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins um að bæta umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á stofnbrautum
    d)    Umræða um uppfærða húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna)
    e)    Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um menningarkort fyrir öryrkja
    f)    Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um reglur um viðbrögð við uppsögn eða riftun leigusamnings um félagslegt húsnæði af hálfu Félagsbústaða eða velferðarsviðs
    g)    Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um úrræði fyrir úrlausn deilumála milli leigjenda Félagsbústaða
    h)    Kosning í skipulags- og samgönguráð
    i)    Kosning í umhverfis- og heilbrigðisráð
    j)    Kosning í íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis R19010084

  2. Lagt fram bréf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 11. nóvember 2019, varðandi staðfestingu ráðuneytisins á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. R18060129

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. desember 2019, með tillögu forsætisnefndar um að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar þann 7. janúar 2019. R19010103
    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram fundadagatal borgarstjórnar 2020. R19010103
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf forseta borgarstjórnar, dags. 5. desember 2019, til Fréttablaðsins vegna myndbirtingar af fundum borgarstjórnar. R19010103

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Að vera mynduð úr launsátri af blaðaljósmyndara Fréttablaðsins var ákveðin reynsla. Myndin tengist nýbirtum matarkostnað á borgarstjórnarfundum og er myndin birt af Fréttablaðinu og vísi.is til að láta borgarfulltrúa líta illa út. Ljósmyndarinn vildi taka myndir í matsal í Ráðhúsinu en var meinað aðgengi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að skaðlaust hefði verið að leyfa myndatöku í matsal þegar borgarfulltrúar og starfsmenn sátu að snæðingi. Þá hefði ljósmyndarinn ekki þurft að leika Gluggagægi til að sækja myndefni í tengslum við fréttir úr Ráðhúsinu. Auðvitað eru takmörk þegar kemur að myndatöku sem fólk er ómeðvitað um. Það kann að vera álitamál að einhverju leyti hvar draga á þau mörk? Í þessu tilfelli var vissulega um athöfn daglegs lífs að ræða og sem átti sér stað á vinnustaðnum. Þessu tengt finnst borgarfulltrúa vel þess virði að skoða hvort óþarfa hindranir séu þegar kemur að aðgengi að borgarfulltrúum og jafnvel óþarfa bönn. Nefna má hér nýlegt dæmi þegar áheyrendum í Ráðhúsinu voru ávíttir fyrir að klappa og hótað að ef það endurtæki sig, yrði þeim vísað á dyr. Klapp er ein birtingarmynd tjáningar og þótt klappað sé stöku sinnum á pöllunum þá skaðar það varla. Markmiðið borgarstjórnar hlýtur að vera að tryggja gegnsæi og aðgengi í samræmi við upplýsinga- og persónuverndarlög að sjálfsögðu.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram leiðrétt svar fjármála- og áhættustýringarsvið, dags. 10. desember 2019, við fyrirspurn forseta borgarstjórnar um kostnað vegna starfsaðstöðu borgarfulltrúa, sbr. 5. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 28. nóvember 2019. R19100309

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við þökkum fyrir uppfærðar upplýsingar um kostnað vegna starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa. Fyrir liggur að kostnaðurinn er talsvert lægri en kynnt var á síðasta fundi forsætisnefndar, þar sem rými kjörinna fulltrúa við Tjarnargötu og í Ráðhúsinu er samtals 390 fm. en ekki 708 fm. eins og áður var kynnt, og því mánaðarlegur kostnaður um 1,5 mkr. eða um 50 þúsund á hvern kjörinn fulltrúa. Harmað er að forsætisnefnd hafi ekki fengið rétt svör á seinasta fundi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er sorglegt að sjá þann kostnað sem farið hefur í Tjarnargötu 12, nýjan framkvæmda- og rekstrarkostnað við starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa. Þarna er nýting lítil, í mesta lagi kannski 3-5 fulltrúar á góðum degi. Í raun má segja að með ákvörðun um að útbúa þetta vinnurými hafi verið gerð mistök. Í fyrsta lagi var ákvörðun um að ganga í þessa framkvæmd, sem ákveðin var á síðasta kjörtímabili, aldrei lögð undir fulltrúa þessa minnihluta eða leitað samráðs við þá um hvernig þeir teldu að þetta myndi nýtast. Þurfi þeir borgarfulltrúar sem búa utan miðbæjar eða í efri byggðum ekki að sækja fundi í Ráðhúsinu hugsa þeir sig án efa tvisvar um áður en þeir leggja leið sína í Tjarnargötu 12 til að nota vinnurýmið. Aðgengi á þetta svæði er oft erfitt og umferðartafir víða um borgina hafa án efa fælingarmátt.  

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt var fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs á forsætisnefndarfundi 28. nóvember 2019 við fyrirspurn forseta borgarstjórnar um kostnað vegna starfsaðstöðu borgarfulltrúa. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins lagði fram svohljóðandi bókun: „Kostnaðurinn er svimandi hár. Hálfur milljarður fer í húsnæðiskostnað við skrifstofur í Tjarnargötu og í ráðhúsi. Skrifstofukosnaður er 32,2 milljónir fyrir kjörna fulltrúa sem er mjög há upphæð.“ Nú er búið að lækka þá upphæð í 17,8 milljónir. Þvílíkar reikningskúnstir. Reykjavíkurborg er stjórnvald sem verður að gefa upp rétt svör þegar eftir þeim er leitað. Þessi lækkun nú er pöntuð af skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og setur fjármálaskrifstofuna í vanda og rýrir traust á fjármálastjórn Reykjavíkur. Það er ósk borgarfulltrúa Miðflokksins að borgarfulltrúar fái frelsi til að velja sér skrifstofur til sinna starfa og húsnæðinu í Tjarnargötu verði lokað. Það er ekki boðlegt að fulltrúar átta stjórnmálaflokka deili skrifstofurými og miðað við uppfærða tölu er kostnaðurinn 75.000 kr. á mánuði á hvern borgarfulltrúa miðað við að 20 borgarfulltrúar nýti skrifstofuna því oddvitar meirihlutans hafa skrifstofur í ráðhúsinu. 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:
     
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks bentu á þá staðreynd á síðasta kjörtímabili að óþarfi hefði verið að fara í kostnaðarsamar breytingar á vinnuaðstöðu borgarfulltrúa í Tjarnargötu 12. Komið hefur á daginn eins og fulltrúar Sjálfstæðisflokks bentu á að breytingarnar myndu hafa í för með sér að kjörnir fulltrúar myndu ekki nýta sér aðstöðuna eftir breytingar enda um sameiginlegt alrými að ræða fyrir alla flokka sem hentar illa störfum kjörinna fulltrúa. Hæglega hefði verið hægt að koma fyrir öllum kjörnum fulltrúum í húsnæðinu án þess að farið hefði verið í viðamiklar kostnaðarsamar breytingar. Ljóst er að hér er um rándýrt vannýtt húsnæði að ræða.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram leiðrétt svör skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. desember 2019, og fjármála- og áhættustýringarsvið, dags. 10. desember 2019, við fyrirspurn forseta borgarstjórnar um kostnað við hvern borgarstjórnarfund, sbr. 6. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 28. nóvember 2019. R19090152

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við þökkum fyrir uppfærðar upplýsingar um kostnað vegna borgarstjórnarfunda. Við höfnum því að um pantaða niðurstöðu sé að ræða. Fyrir liggur að þessi kostnaður er lægri en kynnt var á síðasta fundi, sem er ánægjulegt. Samkvæmt upplýsingum sem nú liggja fyrir hefur góður árangur náðst í að að minnka kostnað vegna upptöku og útsendinga, það sem af er kjörtímabilsins. Kostnaðurinn á þessu ári er einungis um helmingur af því sem hann var síðustu sex mánuði 2018. Sjálfsagt er að huga að endurskoðun á fyrirkomulagi borgarstjórnarfunda, gera fundina skilvirkarari og fjölskylduvænni, án þess þó að það komi niður á þeirra lýðræðislegu umræðu sem á sér stað í borgarstjórn. Við lýsum okkur reiðubúin til að taka þátt í þeirri vinnu með fulltrúum allra flokka í borgarstjórn.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokkins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eins og í kostnaðarliðnum varðandi skrifstofukostnað borgarfulltrúa barst „rangt“ svar við kostnaði borgarstjórnarfunda. Kostnaðurinn sem snýr að veitingum var svimandi hár og út úr öllu korti eða rúmar 360.000 kr. á hvern fund. Nú hefur sú upphæð verið lækkuð í 208.000 kr. Einnig eru svörin mjög misvísandi hversu margir neyta þessara veitinga. Borgarfulltrúar eru 23. Miðað við svör meirihlutans eru jafnmargir eða fleiri starfsmenn að neyta veitinga á þessum fundum. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur ekki séð alla þessa „svöngu huldumenn“ sem borða matinn. Það er mjög slæmt að umræðan um þetta mál hefur skaðað orðspor Múlakaffis vegna reikningskúnsta meirihlutans. Hægt er að losna við þennan kostnað með því að byrja borgarstjórnarfundi að morgni. Reykjavíkurborg er stjórnvald sem verður að gefa upp rétt svör þegar eftir þeim er leitað. Þessi lækkun nú er pöntuð af skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og setur fjármálaskrifstofuna í vanda og rýrir traust á fjármálastjórn Reykjavíkur. Eftir stendur hvert hafa veitingarnar farið sem skrifaðar hafa verið á borgarstjórnarfundi? Því verður meirihlutinn að svara.

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fulltrúar meirihlutans furða sig á þeirri ásökun að hér sé um reikningskúnstir meirihlutans að ræða og varpa því fullkomlega á bug að það væri mögulegt að panta með einhverjum hætti rangar kostnaðartölur og jafnframt er það fjarstæðukennt að nokkur skrifstofa borgarinnar myndi viljandi taka þátt í því að leggja fram rangar tölur. Það er fullkomlega óásættanlegt að vera borin sökum sem þessum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Sporin hræða eftir Braggamálið. Það er mjög eðlilegt að benda á reikningskúnstir meirihlutans í þessu máli. Að húrra kostnaði niður á einni nóttu vegna þess að málið sprakk beint í andlitið á meirihlutanum í fjölmiðlum eru reikningskúnstir og pöntuð niðurstaða. Enn á eftir að varpa ljósi á hverjir svöngu huldumennirnir eru.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólkins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það sem vekur athygli í svari fjármálastjóra er að kostnaður við tækni og útsendingar hefur lækkað enda þótt hann sé ennþá allt of hár. Ekkert mál virðist hafa verið að lækka kostnaðinn og má telja víst að hann hafi verið lækkaður vegna þess að Flokkur fólksins meðal annarra í minnihlutanum fóru að fetta fingur út í hversu hár hann er. Það er ánægjulegt að sjá að með athugasemdum og gagnrýni minnihlutans um háan kostnað er meirihlutinn vonandi farinn að sýna aðeins meira aðhald í fjármálum. Að hægt hafi verið að lækka þennan kostnað á svo stuttum tíma sýnir jafnframt að hann var greinilega óþarflega hár. Hægt hefði verið að finna ódýrari leiðir fyrir löngu síðan ef gætt hefði verið eðlilegs aðhalds og vandað betur meðhöndlun fjár. Flokkur fólksins hefur einnig gagnrýnt háan tæknikostnað þ.m.t. kostnað við streymi funda borgarstjóra út í bæ sem er gríðarhár. Flokkur fólksins hefur einnig lagt til að fundir fagráða verði teknir upp og hljóðupptökur settar á vef borgarinnar. Þeirri tillögu var hafnað með þeim rökum að það yrði of kostnaðarsamt. Tímabært er að borgin annist tækni- og útsendingarmál sjálf, eigi búnaðinn og feli starfsmönnum tæknivinnuna.

    -    Kl. 11.35 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundi.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um skráningu á kostnað við utanlandsferðir embættismanna, sbr. 7. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 28. nóvember 2019.  R19110405
    Samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata gegn atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að vísa tillögunni frá.

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillagan varðar ekki verksvið forsætisnefndar og er henni því vísað frá.

    Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga Miðflokksins og Flokks fólksins um skráningu á kostnað við utanlandsferðir embættismanna hefur verið vísað frá með þeim rökum að hún eigi ekki heima í forsætisnefnd. Eðlilegra hefði verið að vísa henni beint í borgarráð þar sem hún á væntanlega heima. Miðflokkurinn og Flokkur fólksins mun leggja þessa tillögu fram þar.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eðlilegt hefði verið að vísa tillögunni til borgarráðs enda er hefð fyrir því að slíkt sé gert ef talið er að tillagan falli ekki undir verksviðs viðkomandi ráðs þar sem tillagan er lögð fram.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. desember 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksin um leiðréttingu á kostnaði vegna veitinga á fundum borgarstjórnar. R19120075

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að leitað verði leiða til að lækka enn frekar kostnað við tækni og útsendingar á borgarstjórnarfundum. Kostnaður nemur oft allt að hálfri milljón. Á síðasta forsætisnefndarfundi bárust upplýsingar um tækni og útsendingakostnað borgarstjórnarfunda. Borgarfulltrúi Flokks fólksins lýsti furðu sinni á þessum háa kostnaði í bókun og birtist sú bókun í fjölmiðlun. Í kjölfar þess að bókun Flokks fólksins birtist í fjölmiðlum höfðu tveir tæknimenn samband í netpósti og töldu að lækka mætti þennan kostnað um a.m.k. helming. Þeim ber saman um að hann er ekki í takt við raunveruleikann. Núverandi gæði útsendinga eru heldur ekki góð t.d. fara hljóð og mynd ekki saman. Önnur sveitarfélög hafa sem dæmi fjárfest í búnaði og með uppsetningu hans er kostnaður um 280.000 kr. eftir því sem fram kemur hjá tæknimanni. Enginn aukakostnaður ætti þá að vera á hvern fund og ekki þarf sérþekkingu til að kveikja og slökkva á búnaðinum. Skoða þarf þetta út frá öllum hliðum, fá faglega ráðgjöf, bera saman verð og leita svo útboða samkvæmt innkaupareglum borgarinnar. Umfram allt á borgin að eiga þennan búnað og fela starfsmanni Ráðhúss að kveikja og slökkva á honum. Með þeim hætti spara borgin mikið fé. R19120123

    Frestað.

    -    Kl. 11.46 víkur Líf Magneudóttir af fundi. 

  11. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr hvort móttökum/viðburðum á vegum borgarinnar hafi fækkað undanfarið ár. Svo virðist að mun sjaldnar sé nú boðið til móttöku en gert var fyrstu vikur þessa kjörtímabils. Óskað er eftir að fá tölur um fjölda viðburða/móttökur á vegum eða í tengslum við Reykjavíkurborg þar sem borgin ber einhvern kostnað t.d. veitingakostnað. Óskað er upplýsinga um júní til desember 2018, janúar til júní 2019 og júní til desember 2019. R19120124

Fundi slitið klukkan 12:00

Pawel Bartoszek Alexandra Briem

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
forsaetisnefnd_1312.pdf