Forsætisnefnd - Fundur nr. 260

Forsætisnefnd

Ár 2019, föstudaginn 13. september, var haldinn 260. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:33. Viðstödd voru Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir og Alexandra Briem. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal, Ívar Vincent Smárason og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram beiðni borgarfulltrúans Rögnu Sigurðardóttur, dags. 9. september 2019, um tímabundna lausn frá störfum. R19090098

    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram beiðni borgarfulltrúans Ellenar Jacqueline Calmon, dags. 10. september 2019, um tímabundna lausn frá störfum. R19090100

    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 17. september 2019.

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    a)    Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um fjölmenningarborgina Reykjavík

    b)    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sveigjanlegri opnunartíma og fleytitíð

    c)    Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um tónlistarskóla Reykjavíkurborgar

    d)    Umræða um skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma og rekstur grunnskóla Reykjavíkur (að beiðni borgarfulltrúa Miðflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins)

    e)    Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að borgarstjórn samþykki að aðild Reykjavíkur að byggðasamlögum verði skoðuð með tilliti til þess að auka lýðræðislega aðkomu reykvíkinga að þeim

    f)    Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins um uppsögn samnings Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu

    g)    Umræða um ábyrgð borgarinnar á þeim sem þiggja mataraðstoð frá frjálsum félagasamtökum (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)

    h)    Kosning varaforseta borgarstjórnar

    i)    Kosning í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð

    j)    Kosning í menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

    k)    Kosning í skipulags- og samgönguráð

    l)    Kosning í skóla- og frístundaráð

    m)    Kosning í velferðarráð

    n)    Kosning í aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks

    o)    Kosning í öldungaráð, formannskjör

    p)    Kosning í stjórn Strætó bs.

    q)    Kosning í stjórn SORPU bs. R19010084

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur óskað eftir að fá að draga út ákveðinn lið úr fundargerð og gera að sér umræðulið í borgarstjórn eins og samþykkt gerir ráð fyrir að sé hægt. Því hefur verið hafnað af forseta og vill borgarfulltrúi lýsa óánægju sinni yfir því enda með þessu verið að draga úr tjáningarfrelsi borgarfulltrúa.

  4. Fram fer umræða um yfirlit yfir mætingar kjörinna fulltrúa á fundi fagráða, forsætisnefndar, borgarráðs og borgarstjórnar 1. júlí - 31. desember 2018. R19080177

    Lögð fram svohljóðandi bókun forsætisnefndar:

    Forsætisnefnd óskar eftir að fulltrúar skili inn athugasemdum við yfirlit tímanlega fyrir næsta fund forsætisnefndar.

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga forseta borgarstjórnar:

    Lagt er til að forsætisnefnd samþykki að gera breytingu á framlagningu yfirlits yfir mætingar kjörinna fulltrúa á fundi ráða og nefnda. Framvegis verði lagt fram yfirlit yfir setu varamanna í ráð og nefndum sem greitt er sérstaklega fyrir. Slíkt yfirlit verði lagt fyrir forsætisnefnd með reglulegum hætti, að lágmarki hálfsárslega.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19080177

    Frestað.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 10. september 2019, varðandi breytingu á samþykkt um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg vegna uppfærslu á nöfnum ráða og nefnda og þóknun til fulltrúa í íbúaráðum. R16080039

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 7. september 2019, varðandi endurskoðun reglna um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar, ásamt fylgiskjölum. R17080118

    Skrifstofu borgarstjórnar er falið að uppfæra reglurnar í samræmi við ábendingar Persónuverndar.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um táknmálstúlkun á fundi borgarstjórnar, sbr. 6. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 3. september 2019.

    -    Kl. 11:28 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundi.

    Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga forseta borgarstjórnar:

    Samþykkt að vísa tillögunni til umsagnar Félags heyrnarlausra og aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks. Jafnframt er samþykkt að óska eftir kostnaðarmati fjármála- og áhættustýringarsviðs á tillögunni að umsögnunum fengnum. R19090030

    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur mikla áherslu á að tillagan fari til umsagnar til aðila utan borgarstjórnar og fagnar því þess vegna að hún fari til umsagnar til Félags heyrnarlausra. Einnig er mikilvægt að kostnaðarmat verði  gert af utanaðkomandi aðila, þ.e. öðrum en fjármála- og áhættustýringarsviði. Gott væri að fá tvennskonar kostnaðarmat á tillögunni þar af annað framkvæmt af aðila ótengdum borgarstjórn.

    Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Það er hlutverk sviðs fjármála- og áhættustýringar að gera kostnaðaráætlanir. Það getur ekki talist annað en undarlegt að lýsa með þessum hætti vantrausti á starfsfólk þeirrar skrifstofu sem ráðið er sérstaklega til að sinna þessari vinnu, og töluverður aukakostnaður myndi hljótast af, þyrfti af utanaðkomandi stofnun að gera slíkt mat í hvert skipti, án þess að sérstök ástæða sé tilgreind.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Flokkur fólksins er ekki að lýsa vantrausti á neinn í sinni bókun og því óþarfi hjá meirihlutanum í forsætisnefnd að draga þá ályktun. Hins vegar er það rétt að Flokki fólksins finnst það jákvætt að tillagan fari til umsagnar utan borgarstjórnar í ljósi frekar neikvæðra viðbragða meirihlutans við tillögunni á fundi borgarstjórnar. Þess utan yrði góður bragur að því að fá kostnaðarmat frá tveimur aðilum, öðrum utan borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn forseta borgarstjórnar:

    Hver hefur verið dæmigerður kostnaður vegna eins borgarstjórnarfundar það sem af er kjörtímabili? Átt er við kostnað vegna greiðslna til verktaka, s.s. vegna útsendinga, kostnað vegna veitinga, launakostnað vegna yfirvinnu starfsfólks og annar kostnaður sem fellur til vegna eins fundar. Hver má ætla að kostnaður yrði af fundum borgastjórnar ef ákveðið yrði að þeir myndu ekki standa lengur en til  kl. 18:00? R19090152

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  10. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hvað líður vinnu við hagsmunaskráningu embættismanna borgarinnar? Hvað líður vinnu við siðareglur fyrir embættismenn borgarinnar? Hvenær er áætlað að þær verði birtar í forsætisnefnd og í kjölfarið kynntar almenningi? R19090153

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Fundi slitið klukkan 11:49

Pawel Bartoszek Sabine Leskopf

Alexandra Briem Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
forsaetisnefnd_1309.pdf