Forsætisnefnd - Fundur nr. 251

Forsætisnefnd

Ár 2019, föstudaginn 1. febrúar, var haldinn 251. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:34. Viðstödd voru Dóra Björt Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Eyþór Laxdal Arnalds, Sabine Leskopf og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Einnig sitja fundinn eftirtaldir starfsmenn: Dagný Magnea Harðardóttir og Bjarni Þóroddsson. 
Helga Björk Laxdal ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um birtingu launaupplýsinga kjörinna fulltrúa á vef Reykjavíkurborgar. R18010155

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á borgarstjórnarfundi hinn 18. desember 2018 lagði borgarfulltrúi Miðflokksins fram tillögu um að öll laun og kostnaðargreiðslur borgarfulltrúa verði gerðar aðgengilegar almenningi á vef Reykjavíkurborgar. Tillagan hljóðaði svo að á þessari vefsíðu verði birtar upplýsingar um laun borgarfulltrúa og kostnaðargreiðslur til þeirra. Hægt verði að skoða fyrir hvern borgarfulltrúa m.a. hver laun hans eru (þ.m.t. álagsgreiðslur,greiðslur vegna setu í stjórnum á vegum borgarinnar ofl.), hverjar eru fastar kostnaðargreiðslur til hans, ferðakostnaður og dagpeningar. Nöfn borgarfulltrúa verði birt í stafrófsröð. Þegar smellt er á nafn borgarfulltrúa birtast upplýsingar um hann. Þar verði hægt að smella á einstaka kostnaðarþætti, t.d. ferða og dagpeninga og fá upplýsingar um hvað felst í þeim kostnaðargreiðslum. Það er fagnaðarefni að þessi tillaga er rétt að komast til framkvæmda og dylgjur forseta borgarstjórnar um að borgarfulltrúi Miðflokksins hafi „stolið“ tillögu meirihlutans er vísað á bug og á það minnt að forseti skuldar enn opinbera afsökunarbeiðni vegna þessa máls.

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 7. febrúar 2019, þar sem tilkynnt er að á fundi borgarstjórnar þann 5. febrúar 2019 hafi Pawel Bartoszek, Eyþór Laxdal Arnalds, Guðrún Ögmundsdóttir og Marta Guðjónsdóttir verið kjörin varaforsetar borgarstjórnar. R18060080

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 7. febrúar 2019, þar sem tilkynnt er að á fundi borgarstjórnar þann 5. febrúar 2019 hafi Alexandra Briem, Gunnlaugur Bragi Björnsson, Hildur Björnsdóttir, Sabine Leskopf og Valgerður Sigurðardóttir verið kosin sem varamenn í forsætisnefnd. R18060080

    -    Kl. 11:22 er gert hlé á fundinum.

    -    Kl. 11:26 hefst fundur að nýju.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 19. febrúar 2019.

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    a)    Tillögur um breytingar á skipulagi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. febrúar 2019.

    b)    Tillaga Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokk fólksins um að sveitarstjórnarráðuneytinu verði falið að skoða aðgerðir Reykjavíkurborgar í tengslum við kosningaþátttöku tiltekinna hópa.

    c)    Umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu, 147. mál, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. febrúar 2019.

    d)    Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um auglýsingaherferð til að gera réttindi leigjenda sýnilegri.

    e)    Umræða um nýja starfsemi sem heldur utan um stuðningsþjónustu á vegum velferðarsvið, sbr. 3. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. febrúar 2019 (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna)

    f)    Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um stefnumótun í sérkennslumálum.

    g)    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stýringu á notkun snjallsíma í skólum.

    h)    Umræða um innviðagjöld sem Reykjavíkurborg innheimtir. (að beiðni borgarfulltrúa Miðflokksins) R19010084

    -    Kl. 12.00 víkja Dagný Magnea Harðardóttir og Bjarni Þóroddsson af fundinum. 

  5. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um aukafund í forsætisnefnd, sbr. 10. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 1. febrúar 2019. R18120171

    Tillögunni er vísað frá með þremur atkvæðum fulltrúa Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Fulltrúar Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Pólitísk skoðanaskipti eiga heima í málstofu borgarfulltrúa, það er í borgarstjórn, eða í opinberri umræðu, en síður á lokuðum fundum forsætisnefndar. Það færi illa á því ef forsætisnefnd, sem er pólitískt kosin nefnd, færi að taka afstöðu til sannleiksgildis orða sem látin eru falla í borgarstjórn eða á opinberum vettvangi. Í erindinu felst fram beiðni um að einn borgarfulltrúi biðji annan afsökunar. Sú ósk er þar með komin fram en það er ekki forsætisnefndar að taka undir hana eða ekki. Loks ber að nefna að öllum borgarfulltrúum er frjálst að leita til siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga með sín mál, til ráðuneytis sveitarstjórnarmála eða annarra, eftir atvikum, annarra anga ríkisvaldsins.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Miðflokkurinn gerir alvarlegar athugasemdir við afgreiðslu forsætisnefndar í dagskrárlið nr. 10, þar sem farið er fram á að Dóra Björt Guðjónsdóttir dragi til baka rangar fullyrðingar í garð Baldurs Borgþórssonar og biðjist velvirðingar á þeim. Afgreiðslu tillögu vegna þessa var frestað á fundi Borgarráðs þann 20.des sl. og hefur enn ekki fengið efnislega meðferð þar. Það er valdníðsla. Afgreiðsla tillögu vegna þessa var frestað í forsætisnefnd þann 1. febrúar síðastliðinn þegar forseti borgarstjórnar sleit fyrirvaralaust fundi er að afgreiðslu málsins var komið. Það er valdníðsla. Sú afgreiðsla sem málið fær hér í dag bendir til að ætlunin sé að forseti borgarstjórnar komist upp með að vega að öðrum borgarfulltrúa og heilindum hans með hreinum ósannindum, án afleiðinga. Það er valdníðsla. Auk þeirra gagna sem tilgreind eru í greinargerðinni er rétt að bæta eftirfarandi upplýsingum við. Í viðtali á Bylgjunni þann 20. desember síðastliðinn og víðar fullyrti forseti borgarstjórnar að hún hafi á fundi borgarráðs þann 2. nóvember síðastliðinn kynnt ráðsmönnum vinnu sína að sömu tillögu og Baldur Borgþórsson lagði fram á fundi borgarstjórnar þann 18. desember. Þetta eru hrein ósannindi eins og kemur fram í greinargerðinni og sýnir einbeittan brotavilja. Að forseti borgarstjórnar og formaður forsætisnefndar sýni af sér slíka framkomu er með öllu óásættanlegt. Miðflokkurinn mun ekki una við slíkt

    Fulltrúar Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Á síðasta fundi forsætisnefndar var liðnum frestað vegna þess að auglýstum fundartíma var lokið. Það snérist ekkert um efni liðarins og eru það dylgjur að halda því fram að svo hafi verið. Forsætisnefnd hefur ítrekað óskað eftir því að fundartími sé virtur, þetta var einfaldlega viðleitni forseta til að verða við því. Hér er eingöngu tillaga til afgreiðslu um að halda aukafund og hér er litið svo á að verið er að verða við því að ræða málið og því óþarfi að halda sérstakan fund um sama efni. Vegna þess er tillögunni vísað frá.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Nýleg fordæmi eru fyrir því að forsætisnefnd sé notuð til að fjalla um málefni sem varða ummæli einstakra borgarfulltrúa. Ennfremur hefur málum verið vísað til siðanefndar sambands íslenskra sveitarfélaga sem gerði athugasemdir við verklag innan forsætisnefndarinnar. Það er því stefnubreyting af hálfu vinstrimeirihlutans í Reykjavík að forsætisnefnd fjalli ekki um málefni sem tengjast ummælum og siðareglum. Það gæti verið að hér skiptir máli hver á í hlut. En hér á jafnt yfir alla að ganga og forðast að mismuna borgarfulltrúum í pólítískum tilgangi.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 13. september 2018, sbr. samþykkt ofbeldisvarnarnefndar frá 10. september 2018, á tillögu að breytingu á samþykkt fyrir ofbeldisvarnarnefnd. R18070083

    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  7. Fram fer umræða um beiðni áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um að ummæli forseta vegna skýrslu um Nauthólsveg 100 verði tekin upp í forsætisnefnd, sbr. 11. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 1. febrúar 2019. R19010402

    Fulltrúar Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er aftur reynt að breyta forsætisnefnd í sannleiksnefnd borgarfulltrúa. Forseti hefur skýrt mál sitt í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi. Skýrsla innri endurskoðunar liggur fyrir. Fullyrðingar um lygar og ósannindi í bókunum fundargerða forsætisnefndar dæma sig sjálfar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Forseti borgarstjórnar neitar að víkja af fundi vegna þessa máls eins og í dagskrárlið 5 þrátt fyrir að dagskrárliðirnir fjalli um ósannindi hans. Valdníðslan er hreint með ólíkindum í forsætisnefnd Reykjavíkur undir hans stjórn í þessu máli sem og öðru. Forseti borgarstjórnar skuldar Innri endurskoðenda opinbera afsökunarbeiðni því hún heldur því enn fram að tölvupóstum vegna braggans hafi ekki verið eytt. Það er fullreynt að fá fram afsökunarbeiðni forsetans því enn heldur hann því fram að tölvupóstum hafi EKKI verið eytt og reynir ekki að skilgreina ósannindin. Forseti er rökþrota og enn í mikilli  afneitun  um hvað stendur í skýrslu Innri endurskoðanda.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fram kom í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar að tölvupóstum í braggamálinu var eytt. Forseti borgarstjórnar hélt því fram að þetta væri rangt í blaðagrein, í borgarstjórn sem og í ríkissjónvarpinu. Forsetinn bar borgarfulltrúa röngum sökum þar til embætti innri endurskoðanda gaf út minnisblað þar sem staðfest er að tölvupóstum verkefnisstjóra braggaverkefnisins og skrifstofustjóra SEA var eytt sem og afritum. Ekki hefur tekist að endurheimta tölvupóstana og enn hefur forseti ekki beðist afsökunar á því að bera rangar sakir á borgarfulltrúa vegna þessa máls.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 11. febrúar 2019, með drögum að samþykkt fyrir aðgengis- og samráðsnefnd Reykjavíkur í málefnum fatlaðs fólks. R19020099

    Frestað. 

  9. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að utanaðkomandi sérfræðingur verði fenginn til að leiða endurskoðun siðareglna fyrir kjörna fulltrúa, sbr. 12. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 1. febrúar 2019. R18060141

    Tillögunni er vísað frá með þremur atkvæðum fulltrúa Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Fulltrúar Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nú þegar hefur verið haldinn fundur um siðareglur með borgarstjórn þar sem utanaðkomandi sérfræðingar héldu kynningar og tóku þátt í umræðum. Því er þegar verið að gera þetta og á þeim grundvelli er tillögunni vísað frá.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga Flokks fólksins um að fá utanaðkomandi sérfræðing vegna endurskoðunar siðareglna hefur verið vísað frá. Framundan bíður að endurskoða siðareglur borgarinnar. Sú aðferð sem meirihlutinn vill keyra áfram í óþökk sumra fulltrúa minnihlutans er ekki líkleg til árangur. Hér er um að ræða tjasl og bútasaum sem meirihlutinn boðar og þykir borgarfulltrúa það ekki vænlegt til árangurs. Athuga skal að siðareglur er okkar allra í borgarstjórn og þykir það frekt af meirihlutanum að ætla að ákveða einn og sér með hvaða hætti á að vinna þessa endurskoðun. Mikilvægt er að fá sérfræðing og helst utanaðkomandi aðila sem leiðir þessa vinnu. Ekki er gerð krafa um að viðkomandi sé endilega sértækur sérfræðingur i siðareglum en hafi menntun og reynslu sem nýtist vinnu sem þessa. Í þessu sambandi þarf einnig að skoða siðareglur embættismanna samhliða en reynslan hefur sýnt að það er nauðsynleg. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill minna á enn og aftur að þær siðareglur sem eru núgildandi hafa ekki verið virtar sem skyldi eins og dæmi sýna og því er mikilvægt að vanda til verks í þetta sinn.

    Fulltrúar Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn hefur engan áhuga á að setja siðareglur einn síns liðs. Fullyrðingar þess efnis eru ósanngjarnar. Vinna við endurskoðun er í fullum gangi og eru allir borgarfulltrúar velkomnir að taka þátt í henni og hafa þegar gert það margir, á ýmsum vettvangi.

    -    Kl. 12:55 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum. 

    -    Kl. 13:00 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 13:10

Dóra Björt Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

Pawel Bartoszek