Forsætisnefnd - Fundur nr. 244

Forsætisnefnd

Ár 2018, föstudaginn 12. október, var haldinn fundur nr. 244 í forsætisnefnd. Fundurinn var haldinn í Tindstöðum, Borgartúni 12-14, og hófst kl. 08:03. Viðstödd var Dóra Björt Guðjónsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir og Pawel Bartoszek. Einnig sátu fundinn Líf Magneudóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Baldur Borgþórsson, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Helga Björk Laxdal og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram að nýju tillaga að breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 15. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 18. september 2018 og 4. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 14. september 2018. R18060129
    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins um boðun aukafunda, sbr. 7. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 14. september og 6. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 20. júlí 2018. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. september 2018. R18070137
    Tillagan er felld með vísan til  umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

    Forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar hafa tiltölulega rúmar heimildir til að krefjast þess að aukafundir verði haldnir. Af praktískum ástæðum getur talist mikilvægt að formaður ráðs geti ákveðið nákvæmlega hvenær aukafundur skal haldinn. Þær praktísku ástæður geta til dæmis snúist um starfsfólk og vinnutíma þess.

    Áheyrnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fagráð Reykjavíkurborgar eru fjölskipað stjórnvald og því ber það ekki vott um lýðræðisleg vinnubrögð að það sé undir formanni ráðs einum komið hvort boðað sé til aukafundar.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ókeypis bílastæði fyrir borgarfulltrúa og starfsfólk Ráðhúss, sbr. 12. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 25. júní 2018. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. september 2018. R18080033
    Tillagan er felld með vísan til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

    Forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Litið er svo á að greiðsla fyrir starfskostnað sem nemur í dag kr. 52.486 fyrir hvern borgarfulltrúa dugi fyrir mögulegum bílastæðakostnaði sem myndi vera fyrir heilan mánuð vel undir þessari upphæð. Að auki getur það talist einkennilegt ef borgarstjórn tryggir sér ókeypis bílastæði en hækki á sama tíma bílastæðagjöld á almenna borgarbúa eins og stefnt er að því að gera í endurskoðun bílastæðagjalda og útvíkkun gjaldsvæða.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í umræðunni um kostnað við frí bílastæði fyrir borgarfulltrúa og starfsfólk Ráðhúss, en tillaga þess efnis hefur nú verið felld, vill borgarfulltrúi minna á margs konar óráðsíu í fjármálum borgarinnar t.d. við rekstur skrifstofu borgarstjóra sem kostar um 800 milljónir á ári. Eins virðist vera hægt að henda fé í alls kyns hégómleg verkefni eins og bragga sem frægt er orðið og mathöll. En þegar kemur að gjaldfrjálsum bílastæðum fyrir borgarfulltrúa og starfsfólk borgarinnar er ekki til fjármagn. Hvað varðar starfskostnað sem notaður eru sem rök til að fella tillöguna, sem sagður er eigi að dekka bílastæðagjöld eigi að vera sá sami án tillits til búsetu finnst borgarfulltrúa ekki réttlátt að starfskostnaður sé sá sami fyrir þann sem t.d. býr í efri byggðum borgarinnar og þann sem býr í miðbæ eða vesturbæ. Það er mjög kostnaðarsamt fyrir þann sem kemur langt til starfa sinna að greiða allt að 1500 krónur og jafnvel meira fyrir langan vinnudag að ekki sé minnst á tímann sem tekur að komast til vinnu í þeirri umferðarteppu sem einkennir Reykjavík. Hvað varðar borgarfulltrúana má minna á að alþingismenn hafa frí bílastæði þótt það skipti vissulega engu í þessu sambandi.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að dregið sé í sæti í borgarstjórn, sbr. 8. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 14. september 2018 og 10. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 31. ágúst 2018. R18090093
    Samþykkt að fela skrifstofu borgarstjórnar að kanna afstöðu borgarfulltrúa til tillögunnar.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 16. október 2018.

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    a)    Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um að unnið verði að innleiðingu þjónustustefnu Reykjavíkurborgar í allri starfsemi hennar
    b)    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að minnka mismun í námsárangri barna innflytjenda og annarra barna
    c)    Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um að bæta námsárangur barna með annað móðurmál en íslensku
    d)    Umræða um keðjuábyrgð, félagslegt undirboð, siðræn innkaup og viðskiptahætti og hvernig staðið er að verkkaupum og samningum við aðalverktaka á vettvangi borgarinnar (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna)
    e)    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að utanaðkomandi aðila verði falið að gera heildarúttekt á framkvæmdum við Nauthólsveg 100
    f)    Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins Íslands um skipun áheyrnarfulltrúa í stjórn Félagsbústaða
    g)    Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins um óháða rannsókn vegna Hlemms Mathallar
    h)    Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að heimila handhöfum stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða að keyra á göngugötum
    i)    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði úr 1,65% í 1,60%
    j)    Kosning í skóla- og frístundaráð
    k)    Kosning í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar 
    R18010085

  6. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi áheyrnarfulltrúa, sbr. 7. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 20. júlí 2018 og 51. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 19. júní 2018. R18060129
    Frestað.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 10:07

Dóra Björt Guðjónsdóttir Pawel Bartoszek