Forsætisnefnd
Ár 2018, föstudaginn 17. ágúst, var haldinn aukafundur nr. 241 í forsætisnefnd. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð, Ráðhúsi Reykjavíkur, og hófst kl. 9:00. Viðstödd voru Dóra Björt Guðjónsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir og Pawel Bartoszek. Einnig sátu fundinn Marta Guðjónsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Daníel Örn Arnarson, Líf Magneudóttir og Kolbrún Baldursdóttir, Helga Björk Laxdal og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer umræða um fundarsköp.
Áheyrnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins, Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í forsætisnefnd fordæma þau vinnubrögð að boðað sé til fundar í nefndinni í gegnum fjölmiðla og fjallað þar um gögn sem eru á dagskránni áður en kjörnir fulltrúar hafa fengið tækifæri til að kynna sér þau. Fundarboð barst nefndarmönnum með tölvupósti kl. 17:05 miðvikudaginn 15. ágúst en fjölmiðlar höfðu sagt fréttir nokkuð fyrr um daginn um fyrirhugaðan fund og fundarefni áður en fundarboð barst nefndarmönnum.
Forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð ákvað nýlega að birta dagskrár og gögn funda á vefnum samtímis og gögn eru send borgarfulltrúum. Boðun fundarins kom með hefðbundnum hætti en fjölmiðlar fengu sínar upplýsingar úr gögnunum sem voru aðgengilegar á vefnum. Það þarf að gæta þess í framtíðinni að þetta sé gert samtímis fundarboðinu þannig að allir séu upplýstir á sama tíma.
-
Fram fer umræða um fréttaflutning af fundum og aðgengi kjörinna fulltrúa að upplýsingafulltrúum Reykjavíkurborgar. Lagt fram minnisblað áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, dags. 17. ágúst 2018.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sósíalista tekur undir þá tillögu sem kemur fram í minnisblaði áheyrnarfulltrúa Miðflokksins.
Stefán Eiríksson borgarritari og Bjarni Brynjólfsson upplýsingastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara til forsætisnefndar, dags. 14. ágúst 2018, varðandi beiðni um viðbrögð forsætisnefndar vegna opinberrar umræðu borgarfulltrúa um dóm héraðsdóms Reykjavíkur í máli E3132-2017. Einnig eru lögð fram erindi framkvæmdastjóra Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga, dags. 9. og 16. ágúst.
Áheyrnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Lögð eru fram erindi Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga til oddvita stjórnarandstöðuflokkanna sem dagsett eru 9. ágúst og 16. ágúst 2018. Erindin eru lögð fram í því skyni að varpa ljósi á málatilbúnað embættismanna í kjölfar dóms héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3132-2017. Þar kemur m.a. fram: ,,Það er raunar fordæmalaust að skrifa þurfi borgarfulltrúum bréf til að upplýsa um stjórnunarvanda í Ráðhúsi Reykjavíkur og áframhaldandi aðför að starfsmanni þar, en þá er þess að geta að eitt af verkefnum borgarráðs er að hafa „umsjón með stjórnsýslu borgarinnar“, eins og segir í 46. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar, auk þess að „ráða starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður hjá Reykjavíkurborg og veita þeim lausn frá störfum“, eins og segir í 73. gr. samþykktanna. Þetta kann því vera rétta leiðin til að hafa áhrif á að umræddir stjórnendur í Ráðhúsi Reykjavíkur dragi réttan lærdóm af niðurstöðu Héraðsdóms og láti af ámælisverðri háttsemi sinni.“ Ljóst er samkvæmt þessu að ekki hefur verið brugðist við dómnum með viðeigandi hætti og það viðurkennt að málinu lauk við dómsuppkvaðningu. Í stað þess er haldið áfram og settur upp rannsóknarréttur í Ráðhúsinu og ekki er hægt að skilja það öðruvísi en svo að verið sé að véfengja niðurstöðu dómsins.
Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga forsætisnefndar og áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna:
Forsætisnefnd hefur borist erindi þar sem óskað er eftir því við nefndina að hún taki til skoðunar hvort ákveðin ummæli kjörins fulltrúa hafi falið í sér brot á ákvæðum sveitarstjórnarlaga og siðareglum kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg. Þá er þess óskað að kannað verði hvort ástæða sé til að leita álits siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga á ummælum einstakra kjörinna fulltrúa um starfsmenn borgarinnar. Forsætisnefnd tekur ekki afstöðu til þeirra álitaefna sem fram koma í erindinu, né telur hún ástæðu til að leita álits siðanefndar Sambandsins á því hvort tiltekin ummæli feli í sér brot á siðareglum, enda er það ekki á hendi þeirrar siðanefndar að úrskurða um slíkt miðað við þær leiðbeiningar sem nefndin sjálf hefur gefið út. Nefndin telur rétt að beina því til siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga að hún, í samræmi við skipunarbréf sitt, veiti almenn tilmæli varðandi það hvaða sjónarmið kunni að gilda í tilfellum eins og þeim sem hér um ræðir, þegar kjörnir fulltrúar gera störf starfsmanna sveitarfélaga að umtalsefni í opinberri umræðu. Eins leitar forsætisnefnd eftir leiðsögn siðanefndar varðandi það með hvaða hætti sé rétt að hafa umgjörð þeirra mála þegar starfsmenn sveitarfélaga telja kjörna fulltrúa brjóta siðareglur með framferði sínu, eða öfugt.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsmeðferðartillögunnar:
Sósíalistar taka heilshugar undir þessa málsmeðferðartillögu og telja brýnt að þessar siðareglur séu mjög skýrar.
Áheyrnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsmeðferðartillögunnar:
Stjórnarandstöðuflokkarnir Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins telja að þessi tillaga sé ekki tímabær. Boðað hefur verið að forsætisnefnd fari yfir siða- og samskiptareglur og telja stjórnarandstöðuflokkarnir M, D og F allt í lagi að ræða frekar um þessa tillögu í þeirri vinnu. Einnig skal á það bent að forsætisnefnd hefur ekki sjálf endurskoðað stefnu sína og tillögur í framhaldi að því. Talið er að þetta mál eigi ekki að þurfa að draga þann dilk á eftir sér nú að senda þurfi erindi sem þetta til siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsmeðferðartillögunnar:
Forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna lýsa yfir vonbrigðum með að ekki hafi náðst full sátt um þá tillögu sem lá fyrir fundinum að leita leiðbeiningar siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nú stendur til að endurskoða og samþykkja nýjar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa og þá liggur beinast við að leita til siðanefndarinnar um bæði ráðgjöf og álit.
Stefán Eiríksson borgarritari og Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjóra og borgarritara taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
- Erindi til forsætisnefndar vegna umræðu um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-3132-17 gegn Reykjavíkurborg
- Bréf framkvæmdastjóra Kjarafélags Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 9. ágúst
- Bréf framkvæmdastjóra Kjarafélags Viðskiptafræðinga og Hagfræðinga frá 16. ágúst
- Málsmeðferðartillaga forsætisnefndar
-
Lagt fram bréf skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara til forsætisnefndar, dags. 14. ágúst 2018, um opinbera umræðu borgarfulltrúa um störf og starfsfólk Reykjavíkurborgar.
Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Minnisblað skrifstofustjóra borgarstjóra um opinbera umræðu um rekstur stjórnkerfisins markar tímamót. Hér er stjórnandi á skrifstofu borgarstjóra að kvarta formlega yfir því að kjörnir fulltrúar ræði um aukinn kostnað skrifstofunnar en hún hefur vaxið mikið á síðustu árum. Fréttir hafa verið af því að kostnaður við skrifstofu borgarstjóra nemi nú um 800 milljónum króna. Af því tilefni hefur verið farið yfir umfang skrifstofunnar eins og það er kynnt á vef borgarinnar. Það er skylda kjörinna fulltrúa að hafa eftirlit með auknum kostnaði í stjórnkerfinu enda hafa borgarfulltrúar eftirlitsskyldur með því. Hér er skrifstofustjóri borgarstjóra að gefa í skyn að umræða um aukin umsvif skrifstofunnar hafi neikvæð áhrif á líðan starfsfólks. Þetta minnisblað er sett fram í samhengi við nýlegan og þungan áfellisdóm héraðsdóms sem varðar skrifstofustjórann sjálfan. Það er óskiljanlegt að reynt sé að blanda saman umræðu um stækkandi umfang skrifstofunnar við dóminn. Þar að auki er það í besta falli ósmekklegt að starfsmaður borgarstjóra skuli reyna þöggun á umræðu um stærð og umfang stjórnkerfisins.
Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ítrekað er að ekki er ásættanlegt að kjörnir fulltrúar fái fundarboð og fundargögn í gegnum fjölmiðla eins og gerðist í þessu tilfelli. Ennfremur er því hafnað að embættismenn taki sér dagskrárvald í nefndum og ráðum.
Forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð ákvað nýlega að birta dagskrár og gögn funda á vefnum samtímis og gögn eru send borgarfulltrúum. Boðun fundarins kom með hefðbundnum hætti en fjölmiðlar fengu sínar upplýsingar úr gögnunum sem voru aðgengilegar á vefnum. Það þarf að gæta þess í framtíðinni að þetta sé gert samtímis fundarboðinu þannig að allir séu upplýstir á sama tíma.
- Kl. 11:24 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundi.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjórnar, dags. 15. ágúst 2018, um fjárframlög til stjórnmálasamtaka fyrir seinni hluta ársins 2018, ásamt fylgigögnum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:
Lagt er til að allar fréttatilkynningar sem sendar eru út í tengslum við fundi nefnda og ráða séu sendar nefndar- og ráðsmönnum viðkomandi ráðs auk oddvita flokkanna um leið og þær eru sendar fjölmiðlum enda er Borgarstjórn Reykjavíkur fjölskipað stjórnvald. Þetta er í anda góðrar og gegnsærrar stjórnsýslu.
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Sósíalistaflokkurinn tekur undir ofangreinda tillögu.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Óskað er eftir því að eftirtöldum spurningum verði svarað í tengslum við umræðu um dóm héraðsdóms Reykjavíkur í máli E3132-2017. 1. Upplýsti eða ráðfærði skrifstofustjórinn sig við borgarritara áður en hún veitti fjármálastjóranum áminninguna? 2. Upplýsti eða ráðfærði skrifstofustjórinn sig við borgarlögmann áður en hún veitti fjármálastjóranum áminninguna? 3. Upplýsti eða ráðfærði skrifstofustjórinn sig við einhvern annan starfsmann borgarinnar áður en hún veitti fjármálastjóranum áminninguna? 4. Ráðfærði skrifstofustjórinn sig við einhvern utanaðkomandi aðila áður en hún veitt fjármálastjóranum áminninguna? 5. Ef svo er, hver/hverjir voru það og hvað kostaði sú utanaðkomandi aðstoð/vinna? 6. Hvað kostaði málareksturinn fyrir Reykjavíkurborg, frá upphafi og þar til dómur féll í héraðsdómi Reykjavíkur þann 5. júní sl.? 7. Hversu háar miskabætur voru af hendi Reykjavíkur greiddar til stefnanda?
Vísað til borgarráðs.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að boðun funda í ráð og nefndir verði samræmd þannig að boðað verði til þeirra með tveggja sólarhringa fyrirvara.
Frestað.
Fylgigögn
Fundi slitið klukkan 11:40
Dóra Björt Guðjónsdóttir Pawel Bartoszek