Forsætisnefnd - Fundur nr. 236

Forsætisnefnd

Ár 2018, föstudaginn 4. maí, var haldinn fundur nr. 236 í forsætisnefnd. Fundurinn var haldinn í Bárubúð, Ráðhúsi Reykjavíkur, og hófst kl. 10:35. Viðstödd voru Líf Magneudóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman og Halldór Auðar Svansson. Einnig sátu fundinn Kjartan Magnússon, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Helga Björk Laxdal og Linda Sif Sigurðardóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 8. maí nk.

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. apríl 2018.

    Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti borgarstjórnar neitar að setja framlagðar tillögur Sjálfstæðisflokksins á dagskrá næsta borgarstjórnarfundar, 8. maí, sem og umræðu um málefni Hlíða, Holta og Háaleitishverfis. Þegar fulltrúum meirihlutans varð ljóst hvaða málefni Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að setja á dagskrá fundarins brugðust þeir ókvæða við og ákváðu síðan að einungis eitt mál yrði á dagskrá fundarins. Greinilegt er að vinstri meirihlutinn vill lágmarka umræður um borgarmálefni í borgarstjórn þótt einungis þrjár vikur séu til borgarstjórnarkosninga. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins mótmælir harðlega þessum vinnubrögðum meirihlutans enda eru þau ólýðræðisleg og ganga gegn því verklagi, sem hingað til hafa verið án undantekninga, að minnihluti borgarstjórnar hafi jafnan rétt og meirihlutinn að setja mál á dagskrá næsta borgarstjórnarfundar.

    Forsætinefnd leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þann 8. maí hefur verið boðað til aukafundar borgarstjórnar til þess að ræða ársreiking Reykjavíkurborgar. Löng hefð er fyrir því að taka ekki önnur mál á dagskrá á þeim fundum. Bent er á að reglulegur fundur borgarstjórnar verður haldinn 15. maí nk. og er borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins frjálst að setja öll mál á dagskrá þess fundar.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um niðurfellingu gjalda vegna hjálparmiðstöðvar Hjálpræðishersins sem óskað er eftir að tekin verði á dagskrá borgarstjórnar 8. maí nk.

    Forsætisnefnd fellst ekki á að taka fyrirliggjandi tillögu á dagskrá þar sem samhljóða tillaga var afgreidd í borgarstjórn þann 16. janúar 2018.

  3. Lögð fram tillaga borgarfulltrúa um að leita álits Persónuverndar vegna aðgerða í tilefni af borgarstjórnarkosningum.

    Forsætisnefnd mun taka tillöguna á dagskrá næsta reglulega fundar borgarstjórnar sem haldinn verður 15. maí nk.

  4. Lögð fram tillaga að matarstefnu Reykjavíkur 2018-2022, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. maí.

    Forsætisnefnd mun taka tillöguna á dagskrá næsta reglulega fundar borgarstjórnar sem haldinn verður 15. maí nk.

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um mætingar borgarfulltrúa og boðun varamanna í nefndir og ráð Reykjavíkurborgar.

    Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Á fundi borgarstjórnar 10. apríl síðastliðinn sat varaborgarfulltrúi Vinstri grænna á fundi undir fyrsta lið og var þar frummælandi þótt borgarfulltrúi VG væri í Ráðhúsinu á sama tíma. Óskað er eftir upplýsingum um hvaða lögmætu forföll komu í veg fyrir að borgarfulltrúi VG gegndi skyldum sínum á fundinum en kallaði til varamann í sinn stað.

    Lagt fram svohljóðandi svar Lífar Magneudóttur, forseta borgarstjórnar:

    Þann 10. apríl sl. höfðu fulltrúar stjórnmálaflokka sem boðað hafa framboð til borgarstjórnar samþykkt að taka þátt í pallborði á vegum framhaldsskólanna í Menntaskólanum við Hamrahlíð sem ég gerði. Einnig þurfti ég að sinna öðrum tengdum fundum í tengslum við stjórnmálastörf mín. Að þeirri dagskrá lokinni tók ég sæti á fundi borgarstjórnar eins og fram kemur í fundargerð borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á síðasta borgarstjórnarfundi boðaði forseti borgarstjórnar að reglum um varamenn yrði hér eftir framfylgt af fullri hörku. Augljóst er að forsetinn hyggst fyrst og fremst fylgja umræddum reglum eftir þegar fulltrúar minnihluta borgarstjórnar eiga í hlut. Mörg dæmi eru um að fulltrúar meirihlutans fari á svig við umræddar reglur og með framlagningu áðurnefndrar fyrirspurnar var aðeins eitt dæmi nefnt. Ef forsetinn vill framfylgja umræddum reglum til hins ýtrasta, eins og hann vill gera gagnvart borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, hefði hann að sjálfsögðu átt að taka sæti á borgarstjórnarfundinum 10. apríl, um leið og hann kom í Ráðhúsið en það gerði hann ekki.

    Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eins og fram kemur í svari mínu var um lögmæt og löngu boðuð forföll að ræða í þessu tilviki og tók ég sæti á fundinum eins skjótt og auðið var þegar í Ráðhúsið var komið.

  6. Lagt fram yfirlit yfir mætingar á fundi í ráðum og nefndum, dags. 5. maí 2018.

    Fylgigögn

  7. Fram fer umræða um námskeið fyrir borgarfulltrúa í upphafi kjörtímabils.

  8. Lagt fram bréf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 10. apríl 2018, þar sem staðfest er breyting á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Fylgigögn