Forsætisnefnd - Fundur nr. 204

Forsætisnefnd

FORSÆTISNEFND

Ár 2016, föstudaginn 30. september, var haldinn fundur í . Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð, Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10.35. Viðstödd voru Líf Magneusdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman og Halldór Auðar Svansson. Einnig sátu fundinn Magnús Már Guðmundsson, Halldór Halldórsson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Helga Björk Laxdal og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar þann 4. október nk.

- Kl. 10.48 tekur Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sæti á fundinum.

Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

a) Ályktunartillaga borgarstjórnar um áskorun til stjórnvalda um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA)

b) Umræða um borgarlínuna

c) Umræða um reglur Reykjavíkurborgar um stofnframlög – tækifæri fyrir Reykjavíkurborg

d) Umræða um skýrslu starfshóps um sjálfbæran Elliðaárdal

e) Umræða um plastpokalausa Reykjavík

f) Umræða um húsnæðismál ungs fólks með fötlun

g) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um aðgerðir vegna framræsts lands innan borgarmarkanna

h) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um takmörkun innkaupa á vörum sem innihalda plastagnir

i) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um nóturnar á netið

j) Kosning í borgarráð

k) Kosning í umhverfis- og skipulagsráð

l) Kosning í mannréttindaráð

m) Kosning í skóla- og frístundaráð

n) Kosning í almannavarnarnefnd

o) Kosning í ofbeldisvarnarnefnd

p) Kosning í stjórn Sorpu bs.

q) Kosning í hverfisráð Grafarholts og Úlfarsársdals

2. Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um að fundir velferðarráðs og skóla- og frístundaráðs verði haldnir vikulega.

Samþykkt að vísa tillögunni til umsagnar skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs.

3. Fram fer umræða um drög að áfangaskýrslu umboðsmanns borgarbúa 2016 og starfsemi embættisins á árinu.

Ingi B. Poulsen tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. september 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. júlí sl., um breytingar á lögreglusamþykkt er varðar úrsérgengin bílhræ innan lóðarmarka.

Vísað til meðferðar skrifstofu borgarstjórnar.

5. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. 30. september 2016, yfir mætingu kjörinna fulltrúa á fundi í fagráðum, forsætisnefnd, borgarráði og borgarstjórn.

Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Sú viðleitni sem sýnd er með skráningu á mætingu kjörinna fulltrúa í nefndum og ráðum er góð og mikilvæg. Hins vegar þarf mun lengra tímabil en hér um ræðir til að fá fram heildarmynd. Á því tímabili sem um ræðir varð rót á borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins þar sem einn lét af störfum og annar tók við. Því fylgir óhjákvæmilega að endurskipuleggja þarf alla nefndarsetu með tilheyrandi árekstrum við önnur störf sem tekur tíma að aðlaga. Einnig er vert að minnast á þann aðstöðumun sem er á milli meirihluta og minnihluta. Það hefur oft gerst að fundum er frestað eða aflýst ef fulltrúar meirihlutans forfallast á meðan fulltrúar minnihlutans þurfa að kalla inn varamenn í sömu aðstæðum. Fundum er ekki aflýst vegna forfalla þeirra. Fyrir kemur að fundir í nefndum þar sem sami fulltrúi minnihlutans er aðalmaður hafa verið settir á sama tíma og því óhjákvæmilegt fyrir þann fulltrúa að velja annan fundinn og kalla inn varamann á hinn. Í kerfinu er heldur ekki gerður greinarmunur á um hvers konar fjarveru er að ræða, hvort það eru forföll vegna annarra starfa innan borgarinnar, veikinda eða almennra forfalla. Þetta skekkir heildarmyndina töluvert og þyrfti að bæta úr til að myndin sé skýrari og betur til þess fallin að fá raunsanna sýn á borgarkerfið að þessu leyti.

6. Tilkynnt að Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir taki sæti sem áheyrnarfulltrúi í forsætisnefnd í stað Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttir.

Fundi slitið kl. 12.23

Líf Magneudóttir

Elsa Yeoman Halldór Auðar Svansson