No translated content text
Forsætisnefnd
FORSÆTISNEFND
Ár 2016, fimmtudaginn 30. júní, var haldinn aukafundur í forsætisnefnd. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð, Ráðhúsi Reykjavíkur, og hófst kl. 13.04. Viðstödd voru Sóley Tómasdóttir, Halldór Auðar Svansson og Elsa Hrafnhildur Yeoman. Einnig sátu fundinn Sabine Leskopf, Jóna Björg Sætran, Halldór Halldórsson, Helga Björk Laxdal og Linda Sif Sigurðardóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram drög að áfangaskýrslu umboðsmanns borgarbúa, dags. 29. júní 2016.
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:
Eftir að hafa farið yfir skýrslu umboðsmanns borgarbúa telur áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í forsætisnefnd að bókun nefndarinnar við álit umboðsmanns vegna samnings Bílastæðasjóðs og Miðborgarinnar okkar hinn 16. júní sl. hafi verið alvarleg mistök af hálfu forsætisnefndar. Hlutverk forsætisnefndar er að hafa umsjón með starfsemi umboðsmanns borgarbúa en ekki að leggja mat á álit umboðsmanns. Í sérstökum hæfisreglum í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að nefndarfulltrúa beri að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Við samþykkt bókunarinnar 16. júní sl. voru þrír af þeim sex fulltrúum sem stóðu að bókuninni sömu fulltrúar og tóku þá ákvörðun sem álit umboðsmanns beindist að. Tekið er undir með umboðsmanni borgarbúa um nauðsyn þess að forsætisnefnd móti skýra sýn á hlutverk sitt gagnvart umboðsmanni borgarbúa.
Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir þakka fyrir greinargóða skýrslu umboðsmanns borgarbúa. Það er ljóst að álit hans leiðbeina kjörnum fulltrúum að sinna eftirlitshlutverki sínu og hvetur þá að fara að lögum og reglum í störfum sínum. Hefur hann sinnt því af kostgæfni. Áfellisdómur yfir vinnubrögðum kjörinna fulltrúa var kveðinn upp í stjórnsýsluúttekt á árinu 2013 og ljóst er að verkefni og hlutverk umboðsmanns borgarbúa er nauðsynlegur þáttur í lýðræðislegu aðhaldi. Nýlegt dæmi þar sem kjörnir fulltrúar bókuðu afstöðu sína í pólitískum tilgangi gegn lögfræðilegu áliti og niðurstöðu umboðsmanns er ekki í samræmi við það og viðurkennir áheyrnafulltrúi Framsóknar og flugvallarvina að það hafi verið mistök að vera með á bókuninni og taka Framsókn og flugvallarvinir undir niðurstöðu umboðsmanns. Framsókn og flugvallarvinir hafa alltaf og munu ávallt styðja opna, gagnsæja og vandaða stjórnsýslu, eins og þeir gerðu með bókun sinni í bílastæðanefnd 29.05.2015 þess efnis að ekki væri hægt að endurnýja samninginn við Miðborgina okkar eins og raunin varð. Hlutverk og staða umboðsmanns borgarbúa er mikilvægur liður í gagnsærri stjórnsýslu.
Forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúi Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Forsætisnefnd tekur undir þakkir til umboðsmanns og mun á næsta fundi sínum, þegar endanleg skýrsla verður lögð fram, leggja fram tillögu að málsmeðferð í framhaldinu. Viðsnúningur í afstöðu áheyrnarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina gagnvart áliti um meðferð fjármuna Bílastæðasjóðs vekur nokkra furðu, enda tóku fulltrúar flokkanna upplýsta afstöðu til málsins, bæði þegar samningur við Miðborgina okkar var afgreiddur einróma og athugasemdalaust í bílastæðanefnd og þegar bókun var lögð fram í nafni allra flokka á síðasta fundi forsætisnefndar. Forsætisnefnd getur ekki og mun ekki taka lögfræðilega afstöðu til mála, enda skipuð pólitískt kjörnum fulltrúum. Umrædd bókun á síðasta fundi hennar snerist um að árétta ákveðna þætti málsins sem ekki hafði verið tekið nægilegt tillit til í áliti umboðsmanns.
Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að hlutverk forsætisnefndar sé ekki að taka afstöðu til álits umboðsmanns sem er óháð embætti.
Ingi B. Poulsen tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
2. Lagt fram svar innri endurskoðunar og regluvarðar Reykjavíkurborgar, dags. 29. júní 2016, við erindi forsætisnefndar, dags. 6. apríl sl., um málefni Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur vegna frétta af aflandsfélögum í eigu borgarfulltrúa.
Forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúi Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Forsætisnefnd þakkar fyrir framkomnar niðurstöður og mun taka afstöðu til þeirra athugasemda sem beint er til nefndarinnar þegar álit vegna Júlíusar Vífils Ingvarssonar liggur fyrir í ágúst.
Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Auk neðangreinds vísa Framsókn og flugvallarvinir til bókunar sinnar í borgarráði fyrr í dag. Framsókn og flugvallarvinir styðja ávallt opna og gagnsæja stjórnsýslu, enda vorum við á tillögunni í forsætisnefnd 5. apríl sl. um úttekt á málum Sveinbjargar. Teljum við það miður að innri endurskoðanda og regluverði hafi ekki verið falið að framkvæma skoðun af sama tagi og jafn ítarlega á skráningu fjárhagslegra upplýsinga annarra borgarfulltrúa, en í úttektinni er sérstaklega bent á tilefni til slíks. Opnað er á það í úttektinni að setja þurfi leiðbeiningareglur líkt og Alþingi hefur gert. Styðjum við slíka vinnu í hvívetna. Þá þykir okkur miður að ekki var orðið við beiðni okkar, sem lögð var fram á fundi forsætisnefndar samhliða samþykktinni um úttektina á málum Sveinbjargar, að fá upplýsingar hvort einhverjir borgarfulltrúar hafi breytt hagsmunaskráningunni.
Forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúi Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Engar tillögur hafa verið lagðar fram af hálfu fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um úttekt á skráningu fjárhagslegra upplýsinga annarra borgarfulltrúa en þeirra sem hér um ræðir, enda hafði ekkert tilefni verið til slíks í kjölfar Kastljósþáttarins í apríl. Sjái fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina raunverulega ástæðu til þess nú hefur hann að sjálfsögðu fulla heimild til að leggja slíkt til, enda með málfrelsi og tillögurétt á fundum forsætisnefndar nú sem endranær.
Fundi slitið kl. 15.05
Sóley Tómasdóttir
Elsa Yeoman Halldór Auðar Svansson