Forsætisnefnd - Fundur nr. 196

Forsætisnefnd

 

FORSÆTISNEFND

Ár 2016, þriðjudaginn 5. apríl, var haldinn aukafundur í forsætisnefnd. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð, Ráðhúsi Reykjavíkur, og hófst kl. 9.18. Viðstödd voru Sóley Tómasdóttir, Halldór Auðar Svansson og Elsa Hrafnhildur Yeoman. Einnig sátu fundinn Magnús Már Guðmundsson, Jóna Björg Sætran, Halldór Halldórsson, Helga Björk Laxdal og Linda Sif Sigurðardóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um siðareglur borgarfulltrúa og reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar.

Forsætisnefnd, ásamt áheyrnarfulltrúum Samfylkingar og Framsóknar og flugvallarvina, leggur fram svohljóðandi tillögu:

Í ljósi frétta af aflandsfélögum í eigu borgarfulltrúa sem fluttar hafa verið að undanförnu telur forsætisnefnd brýnt að til þess bærir aðilar kanni málin til hlítar. Því er þess farið á leit við innri endurskoðun og regluvörð borgarinnar að kannað verði hvort borgarfulltrúarnir Júlíus Vífill Ingvarsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir hafi farið á svig við gildandi lög og reglur um skyldur og hæfi borgarfulltrúa, hvort reglum um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar hafi verið fylgt og hvort siðareglur borgarfulltrúa hafi verið brotnar. Að sama skapi er óskað eftir því að siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga taki málið til skoðunar í samræmi við hlutverk nefndarinnar og 29. gr. sveitarstjórnarlaga.

Samþykkt.

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er eftir upplýsingum um það hvort borgarfulltrúar eða varaborgarfulltrúar hafi frá 1. mars sl. gert breytingar á hagsmunaskráningu og þá hverjir og hvernig þær breytingar eru. 

Fundi slitið kl. 10.02

Sóley Tómasdóttir

Elsa Hrafnhildur Yeoman Halldór Auðar Svansson