Forsætisnefnd - Fundur nr. 195

Forsætisnefnd

FORSÆTISNEFND

Ár 2016, föstudaginn 1. apríl, var haldinn fundur í forsætisnefnd. Fundurinn var haldinn á Grand hótel og hófst kl. 12.03. Viðstödd voru Sóley Tómasdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman og Halldór Auðar Svansson. Einnig sátu fundinn Magnús Már Guðmundsson, Jóna Björg Sætran, Helga Björk Laxdal og Linda Sif Sigurðardóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 5. apríl nk.

Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

a) Ályktunartillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina um auknar tekjur til sveitarfélaga vegna ferðamanna

b) Ályktunartillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina um griðasvæði hvala – hvalaskoðunarsvæði í Faxaflóa, ítrekun

c) Tillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um götuþvott 

d) Umræða um óviðunandi ástand gatna í Reykjavík (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks)

e) Umræða um málefni Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfis (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks)

f) Kosning í stjórn Orkuveitunnar

g) Kosning í hverfisráð Kjalarness

2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 28. október 2015, varðandi ábendingu úttektarnefndar borgarstjórnar um lengd bókana þar sem lagt er til að gerð verði breyting á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Vísað til borgarstjórnar.

3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 16. júlí 2015, þar sem fram kemur að tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um óundirbúnar fyrirspurnir til borgarstjóra sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar þann 3. mars 2015 hafi verið vísað til forsætisnefndar.

Tillagan er felld.

Forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúar leggja fram svohljóðandi bókun:

Eftir ítarlega skoðun á tillögunni og meðferð mála á Alþingi verður ekki séð að óundirbúnar fyrirspurnir í upphafi borgarstjórnarfunda bæti við þær umræður sem þegar eiga sér stað og geta átt sér stað á fundum borgarstjórnar. Öllum borgarfulltrúum er frjálst að setja mál á dagskrá svo fremi að þau falli undir verksvið borgarstjórnar og þannig geta þeir kallað eftir afstöðu borgarstjóra og annarra borgarfulltrúa varðandi einstök mál ef þeir svo kjósa. Auk þess eru fundargerðir allra fagráða borgarinnar lagðar fyrir borgarstjórn til umræðu. Því er óþarft að gera breytingar á fundarsköpum borgarstjórnar að svo stöddu.

4. Lagt fram tölvubréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 30. mars, þar sem óskað er umsagnar forsætisnefndar um tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að heimilt verði að opna fundi og ráð og nefnda og hefja beinar útsendingar frá þeim, sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar þann 15. mars sl.

Frestað.

5. Fram fer umræða um breytta þjónustu við borgarfulltrúa að Tjarnargötu 12.

Fundi slitið kl. 12.53

Sóley Tómasdóttir

Elsa Hrafnhildur Yeoman Halldór Auðar Svansson